Hvað er ekki að fúnkera hérna?....

Ég er bara eitthvað pínu tætt inni í mér núna. Kom heim frá Köben í nótt og kötturinn auðvitað búinn að ganga berserksgang hérna heima..... þótt unglingurinn sverji að hann hafi hugsað vel um hann á meðan ég var í burtu.

Ég sakna borgarinnar minnar, hennar Kaupmannahafnar. Frá hótelinu heyrði ég ysinn og þysinn frá götunum í kring, ég heyrði stöðugt í índíána"vinum" mínum á Ráðhústorginu, strætó að stoppa og taka af stað, lögreglu- og sjúkrabílasírenur "hele tiden", pulsukallana að draga pulsuvagnana sína (...og já ég segi pulsu en ekki pylsu...), hlátrasköll, drykkjulæti, rifrildi og lovemaking....(kannski mest mín eigin....Cool...)... en ég fíla þetta allt. Ég horfði á túrista láta taka myndir af sér fyrir framan TÍVOLÍ, horfði á auglýsingaskiltin á Ráðhústorginu, fólk ganga og hjóla fram hjá mér í Fiolstræde, fíklana sem eiga að vera ósýnilegir en eru mjög sýnilegir ef maður horfir í réttar áttir, Copenhagens Jass Festival í fullum gangi, Christiania og lífið þar, konurnar með blómvendi í hjólakörfunni sinni á Nörrebro, eða fólkið að kaupa kirsuber og maísstöngla frá götusalanum..... flestir chillaðir og afslappaðir. Og já, ég fíla þetta alltof vel. Ég fíla lestarnar, ég fíla strætóana, ég fíla líf þar sem maður þeysir um á hjólinu sínu og getur bara verslað það sem maður kemst með heim á hjólinu. Ég fíla hugsunarhátt Dana, að lifa fyrir daginn í dag og vildi að ég gæti tileinkað mér hann. Svona líður mér alltaf þegar ég kem frá Danmörku. Þá finnst mér ég vera svona hálftættur persónuleiki. Ég vil þetta og ég vil líka ÞETTA, en samt vil ég frekar svona, en bara ef ég gæti blandað því með pínu af þessu...... og svo framvegis.... Maður getur víst ekki bæði sleppt og haldið..... því miður Pinch

Ég hitti líka gamla vini og ég sakna þeirra óendanlega mikið og finnst ömurlegt að hafa hvorki þá né þeirra afslöppuðu nálgun til lífsins í mínu dagsdaglega lífi hérna á Íslandi. Ég sakna líka áhyggjulausa og kæruleysislega lífsins sem maður lifði á meðan maður var ennþá "bara námsmaður", þar sem maður lét hvern dag nægja sína þjáningu, hitti vini sína oft því vinnan hafði EKKI fyrsta forgang í lífinu, maður lifði stundum fyrir 20 kr. (danskar kr. sko) á dag en hafði það samt fínt, stal klósettpappír í skólanum því maður hafði ekki efni á honum sjálfur, fór í hjólatúra út í skóg með nestiskörfu og fannst það besta upplifun í lífinu, og lá bara stundum úti í skógi á teppi með hvítvín og lét sér líða vel.

Tveir gamlir vinir mínir eru dánir og ég naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki haldið meiri kontakt og fylgst betur með. Ég fór í gamla bæinn minn, Næstved, í fyrsta skiptið í mörg ár og sá gamla staði; gamla húsið mitt, búðina sem ég verslaði alltaf í, sjúkrahúsið þar sem ég vann, bekkinn þar sem ég hitti alltaf Mette vinkonu mína eftir vinnu, torgið í Næstved þar sem ég settist alltaf á föstudögum og drakk einn bjór með vinum þegar ég var búin að versla inn fyrir helgina. Ég var mestallan tímann með Mr. K. úti og þótt ég sé nýbúin að kyssa hann og segja bless, þá sakna ég hans líka Frown Ég sakna alls..... bara alls.... og segir það manni ekki eitthvað???

Líklega verður þetta bara vika sorgar og söknuðar, vika Danmerkur"fráhvarfs", sem ég er fyrir löngu búin að læra, að bara fylgir Danmerkurferðum mínum. Samt get ég ekki hætt að fara þangað og ég get ekki hætt að gera sjálfri mér þetta..... þetta er líklega "fíkillinn" í mér sem kallar stöðugt á þessa sjálfsrefsun. Eða kannski leiðir þetta að lokum til einhverskonar endurskoðunar á lífi manns og þeim lífsgildum sem maður hefur..... það er aldrei að vita....?Undecided


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta sé syndrome sem flestir kannast við sem hafa búið út útlöndum - að því gefnu að þeim hafi liðið vel þar. Ég hef svipaðar kenndir gagnvart Englandi

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 08:59

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég hef bara einu sinni komið til Köben en ég " fílaði í botn" að gista á dönskum bóndabæjum. Danir eru svo "lige glad".

velkomin heim í nýja samninga og góða helgi.

Sigrún Óskars, 12.7.2008 kl. 10:34

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

....þetta er það sem geri Danmerkurferðir skemmtilegar fyrir þig......nostalgían.  Velkomi heim

Hólmdís Hjartardóttir, 12.7.2008 kl. 14:53

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

ER ekki kominn tími til þess að flytja bara aftur út til Danmerku, þar er kaupið gott, ódýrara að lifa og allir eru bara lige glad?  Ég hef aldrei komið til Danmerkur, kannski á ég það eftir en maður veit aldrei

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2008 kl. 01:43

5 Smámynd: Helga Linnet

Danmörk er mitt land líka. Gæti alveg hugsað mér að flytja þangað.

Einmitt vegna þess hve Danir eru rólegir og eru ekki að stressa sig upp. Þeir eru kurteisir upp til hópa, léttlyndir og skemmtilegir.  Einfalt að taka lestina, strætóinn eða bara hjóla.

Helga Linnet, 15.7.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband