31.5.2008 | 20:20
Hvernig lítur helgin út??
Já, það er vinnuhelgi hjá mér, sem þýðir a.m.k. þrjár vaktir yfir helgina. En hver segir að ekki sé hægt að njóta helganna þótt maður sé að vinna??
Í fyrsta lagi vinn ég á þeim stað, sem hlýtur að vera hvað mest lifandi vinnustaður landsins, með frábæru starfsfólki, sem jafnframt eru góðir og skemmtilegir kollegar, það er aldrei lognmolla á mínum vinnustað, þú veist aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér þegar þú mætir, ert alltaf að læra eitthvað nýtt og yfirleitt að gera eitthvað gott..... Svo þótt helgin standi á vinnu, þá þýðir það alls ekki leiðinlega viðveru einhversstaðar úti í bæ, heldur líflegt umhverfi með mörgum óvæntum uppákomum..... sérstaklega um helgar!
En ég á mér þó, sem betur fer, líf fyrir utan þessa vinnu og þegar maður vinnur vaktavinnu og á sama tíma þarf að sjá fyrir barni, þá þarf maður að skipuleggja tímana á milli vakta ansi vel. Og skipuleggja tímana, sem "barnið" eða öllu heldur unglingurinn er einn heima. Þess vegna fékk ég að láni lítinn (10 ára) systurson í gærkvöldi, til að eyða kvöldinu með syni mínum á meðan ég var að vinna. Svo heppilega vill til, að hvorugum þeirra leiðist félagsskapur hins, þeir eru bestu vinir og frændur þrátt fyrir fjögurra ára aldursmun og tilvera mín myndi ekki skipta neinu máli til eða frá á þeirra skeiði núna. Þeir fengu pening í hendurnar til að panta pizzu og eitthvað aukreitis ef hugurinn myndi girnast eitthvað annað og meira, þeir spiluðu körfubolta, Playstation og horfðu á mynd í mesta bróðerni. Góð barnapía, þessi 10 ára....
Í dag fór ég eftir vinnu og keypti sumarblóm í kerin mín og pottana. Og já, ég ER búin að setja niður blómin, okey, ég veit að það er frekar snemmt, en ég veit jafnframt að ef ég leyfi þeim að standa einhverja daga í pappakassa, þá eiga þau eftir að standa þar það sem eftir lifir sumars. Svo best að drífa sig í hlutunum á meðan hugur er í kellunni.
Ekki veit ég, af hverju að mér sótti þessi gífurlega kvíðatilfinning í hvert skipti sem ég hugsaði um, að drífa mig í að bóka flugið okkar mæðgina til Barcelona. Einhvernveginn hefur það verið þannig, að ég hef ýtt því á undan mér, sett það aftast á listann yfir verkefni hvers dags, og þannig hef ég alltaf tryggt að ég "hef aldrei náð" því að bóka þetta flug...... fyrr en í gær !!! Þá tryggði ég okkur flugið til Barcelona út, og til baka viku seinna. Svo nú getum við opinberlega farið að hlakka til....
Ýmsir eru nú vafalaust stressaðri en ég, og að sama skapi framtakssamari, en ég, lallarinn, var nú ekki mikið að hafa áhyggjur af hótelbókunum. Verð samt að segja mér það til framdráttar, að ég hafði svolítið kynnt mér stöðuna, framboð á hótelum, verð og annað, en ég var ekkert að flýta mér að panta eitt eða neitt. Við ætlum að vera í viku í Barcelona, og þar sem við höfum þar með ágætan tíma til að bæði skoða okkur um og slappa af, þá viljum við vera á hóteli með sundlaug. Og í síðustu viku var fullt af þannig hótelum á lausu, en í dag þegar ég kom mér loksins að því að panta hótelið, þá var nú eitthvað aðeins minna í boði. En ég brá mér í Pollýönnu-gervið og hugsaði bara, að þar með hefði ég minna að velja um, sem þýðir engan, (eða svo til), valkvíða....
Í vikunni brugðum við mæðginin okkur í keilu í Öskjuhlíðinni, sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að húsmóðirin er að "drepast" úr harðsperrum í vinstri rasskinn eftir ferðina góðu, sem og vegna mikilla strengja í hægri framhandlegg. Ég er svo mikill aumingi í handleggsvöðvunum, að ég veld ekki vel fullorðinskúlunum og þarf því að spila með barnakúlunum. Ég hef haltrað pínulítið um slysadeildina síðustu tvo daga, en steininn tók þó úr fyrir aumingjamennsku minni, þegar ég fattaði að ég ætti erfitt með að setja blómin mín niður áðan..... vegna harðsperra.... Getur maður verið meiri aumingi??.....
Ég hef í mörg ár lifað á löngu fornri getu í ýmsum líkamlegum listum, hef alltaf talið mér trú um að ég sé í ágætu formi þar sem ég stundaði íþróttir grimmt á mínum barns- og unglingsárum, (!!! huhumm, það er víst ansi langt síðan....), ég hef gefist upp á því að eiga kort í líkamsræktarstöðvum þar sem það þýðir yfirleitt frekar fjártap fyrir mig án ávinnings.... en allt í einu er ég að átta mig á því að ég er, ekki frekar en aðrir, alls ekkert að verða yngri og ég þarf allavega mjög fljótlega að grípa inní með einhverskonar aðgerðum. Ekki það, að ég get verið mjög aktív hjólandi, syndandi, línuskautandi, golfandi og fjallgangandi, en þetta er bara yfir sumartímann.... yfir vetrartímann reyni ég varla á neina vöðva, nema þegar ég lyfti gafflinum að munninum....., eins og Elizabeth Taylor sagði einhverju sinni um sína líkamsrækt.
En í dag ætla ég ekki að láta þessar hugrenningar trufla mig hið minnsta. Og ekki næstu viku og ekki þá þarnæstu. Enda tekur því ekki að velta sér upp úr svona málum í sumarfríum þegar markalínan er lægri en venjulega og maður má allt, í krafti þess að sólin skín einhverja daga. Núna ætla ég bara að grilla gúmmelaði mat fyrir okkur mæðgin, hlamma mér í sófann á eftir og horfa á góða mynd sem ég leigði á leiðinni heim. Svo ætla ég að borða nammi og drekka kók, bursta tennur og fara að sofa. Baka bollur í fyrramálið, setja fullt af smjöri á þær og mæta svo aftur í vinnu, full af bollum, seinni partinn.
Ef maður hefur ekki mikið val, er þetta þá ekki bara ágætis uppskrift að helgi??
P.s. því má bæta við, að í ferð okkar mæðgina í Öskjuhlíð, tókum við nokkra þythokkí-leiki, og það þarf engan dómara til að skera úr um það, hvert okkar var æstara í þessum leikjum. Ég var gjörsamlega sveitt á eftir, enda er það ágætis hreyfing á sinn hátt, að eltast við þyt-hokkí-pökk..... ég var næstum hás af æsingi og það var ÉG, en ekki sonurinn sem grátbað um fleiri leiki. Líklega vegna þess að skorataflan var í mínus í minn hag, og það gat ég ekki látið líðast. Svo ég þrælaði drengnum í gegnum hvern leikinn á eftir öðrum, þar til skorataflan var mér í hag. Þá gat ég gengið út, sveitt og glottandi feitt!!!
Athugasemdir
Asskoti skemmtileg lesning, þannig að þú hlýtur að hafa það verulega skemmtilegt í þínu sýsli.
Helgarkveðjur.
Jenný Anna Baldursdóttir, 31.5.2008 kl. 20:39
Alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar. Þetta hefur verið hellings fjör hjá ykkur í keilunni - þrátt fyrir eymsl á ymsum stöðum eftir að keppni lauk
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 20:59
skemmtilegur penni ertu Lilja og góðar vaktir um helgina.
Hólmdís Hjartardóttir, 1.6.2008 kl. 00:38
Harðsperrur, ég er líka með harðsperrur eftir hjólið mitt og hundinn minn hann hefur verið frekar óþekkur í bandinu og rykkir mér til og frá
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.6.2008 kl. 01:52
djö....aumingi....nei djók!!!!
Haraldur Bjarnason, 1.6.2008 kl. 08:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.