13.5.2008 | 22:54
Á ég tölvuna eða á hún mig??
Ég á góða vinkonu sem heitir XX. Þessi vinkona mín hefur átt, og á ennþá, fjöldann allan af vinum hingað og þangað um heiminn. Hún hefur verið í e-mail samskiptum við þetta fólk, svo stundum síma- og sms-sambandi við suma, einhverjir hafa komið að heimsækja hana hingað á klakann, og svo hefur hún einu sinni farið út til að hitta einn "pennavin" sinn. Mjög skemmtilegt sem sagt, nema meirihlutann af þessu fólki hefur hún aldrei hitt og mun líklegast aldrei hitta.
Fyrir nokkrum árum vorum við saman í partýi, þ.e.a.s. ég var í partýinu en hún eyddi nánast öllu kvöldinu úti í horni í sófa, að senda og taka á móti sms. Ég fór að forvitnast um það, hverjum hún væri endalaust að senda einhver sms, og hvort viðkomandi væri skemmtilegri en við öll til samans í partýinu, fyrst hún kaus að eyða tíma sínum með gemsanum sínum í spjall við einhvern fjarverandi. "Oh, Lilja, ég er að "tala" við Fabrassio, þennan í Brasilíu manstu..... oh, hann er svo skemmtilegur....", sagði hún bara full af einlægni.
Ég mundi nú ekkert eftir honum, enda hafði ég aldrei hitt manninn ekki frekar en hún. En hún hélt áfram uppteknum hætti, sótti sér öðru hvoru bjór en boraði sér svo aftur út í horn með símann sinn. Þegar mér fannst nóg komið af afskipta- og viðveruleysi vinkonu minnar, nálgaðist ég hana varlega og spurði: "Hvar í ósköpunum grefur þú upp allt þetta fólk úti í heimi??" Hún leit ekki af símanum, en sagði bara með sínu barnslega, einlæga yfirbragði, eins og ekkert væri sjálfsagðara: "Á Friend-finding-dot-com." Og fór svo að skellihlæja: "Lilja, þú verður að sjá hvað hann skrifaði síðast.... sjáðu, þetta er svo fyndið....." Svo fletti hún upp á skilaboðunum og sýndi mér, en mér gat lítið fundist það fyndið, þar sem mig vantaði algjörlega andlit og karakter til að festa við þetta skeyti. Í mínum augum var þetta gjörsamlega ópersónulegur samskiptamáti og ég lét mína kæru vinkonu XX oft heyra það á næstu mánuðum þar á eftir.
Enda var hún svo gott sem heltekin af einhverju fólki úti í heimi, sem hún vissi svo til ekkert um, nema það sem þau vildu að hún vissi. Og ég er að meina, að hún var í djúpum samræðum við margt af þessu fólki á msn, sms, e-mail og þegar vel lá á henni, í símanum. Stundum hafði hún tekið upp á því að hringja til Brasilíu, Frakklands eða Ítalíu á fylleríi, og fékk svo himinháan gsm-reikning mánuðinn á eftir. Þetta gekk lengi, þar til hún loks fór í sjálfskipaða meðferð gegn símtölum á fylleríi.
Stundum var ég að tala við hana í síma, og heyrði þá að hún var svolítið "fjarverandi" í samtalinu, og þegar ég gekk á hana, þá jú, vissulega var hún líka í miðju msn-samtali við einhvern "hönk" úti í heimi. Stundum rákumst við óvart á hvor aðra á msn seint á kvöldin og fórum að "spjalla", en þegar fór að líða yfir 5 mínútur á milli svara hjá henni, gerði ég mér yfirleitt grein fyrir því að hún væri örugglega að spjalla við Fabrissio, Luco, Dino eða whatever, líka. Þá sleit ég samtalinu, enda nenni ég ekki að vera einhver hliðartuska í mínu eigin samtali.
Einn daginn hringdi XX í mig og tilkynnti mér, að frá og með í dag væri hún hætt að púkka upp á þessa "net"-vini sína. Hún hefði hugsað málið og sæi að hún væri að eyða mun meiri tíma í þessa ósýnilegu vini sína, heldur en sína raunverulegu vini. Oft væri hún pirruð út í börnin sín, þegar þær voru að trufla hana við tölvuna í miðju "samtali" við "vin sinn". Og stundum hefði hún hætt við að fara út, af því að það var svo mikið "krútt" í því samtali sem hún átti "við tölvuna" þá stundina. Hún var sem sagt hætt að lifa sínu eigin lífi, svo mikil var tilhlökkunin og eftirvæntingin fyrir þeim samböndum sem hún átti "on-line" við hina og þessa johns og janes do-ur. Hún sat við tölvuna öllum stundum, nennti ekki út, nennti ekki að hringja í vinkonur, en þessi langfjarlægðarsambönd fullnægðu algjörlega hennar samskiptaþörf.
Ég varð náttúrlega dauðs lifandi fegin við þessa tilkynningu XX, að geta loksins haft vinkonu mína óskipta þegar við værum saman, gat hætt að vera afbrýðisöm út í símann hennar og átti ekki lengur á hættu að hún myndi allt í einu hverfa inn í sjálfa sig og símann á miðju kvöldi. Fyrir utan það, hvað mér fannst leiðinlegt að heyra sögur af brúðkaupi Ahmed, andláti móður Dinos o.s.frv. Sögur af fólki sem ég hafði ekki hugmynd um hver væru eða hvar þau væru niðurstödd í veröldinni. Og gæti ekki verið meira sama!!
Ég minntist því þessarrar vinkonu, þegar mér fannst ég vera farin að eyða óheyrilega miklum tíma á blogginu, að lesa sögur frá hinum og þessum, kommentera hingað og þangað um málefni sem mér í raun koma ekkert við. Og jú, vissulega er gaman að lesa það sem margir bloggarar hafa að segja, en það er líka gaman að heyra það sem manns raunverulegu vinir hafa að segja. Og þegar tíminn er af skornum skammti eins og hann getur oft verið hjá útivinnandi einstæðum mæðrum, eins og líklega mörgum öðrum, þá held ég að oft sé þessum tíma betur varið í það að hringja í sína góðu vini eða já, jafnvel hitta þá. Frekar en að húka við tölvuna sína og spjalla við "ósýnilegt" fólk.
Svo þannig var, að ég tók upp á því að takmarka tölvunotkun mína, eins og ég takmarka PlayStation notkun sonar míns.... ég ætlaði fyrst bara ekkert að kíkja á bloggið í einn dag, og svo voru það tveir. Svo tók ég góða vinnutörn yfir helgina, þannig að tölvupásan var sjálfgefin. Átti svo gott heima-kósý-grill-kvöld með öllu tilheyrandi með Mr. K. á sunnudaginn og fann enga þörf fyrir að kveikja á tölvunni á mánudeginum.
En hér er ég nú, ég mun örugglega halda áfram að kíkja á bloggin ykkar áfram, bara ekki jafn oft og ekki jafn mikið og ég hef gert. Þið þurfið þó endilega ekki að takmarka ykkur við að kíkja á mitt blogg..... ég mun bara ekki skrifa jafn oft og ég gerði....
En þegar maður fer að spá í það, þá er ótrúlega mikið af fólki, sem virðist hafa ótakmarkaðan tíma til að skrifa. Annaðhvort heima eða í vinnutíma, allavega sé ég hátt í 6-10 færslur á dag, á mismunandi tímum hjá mörgum sem ég kíki til jafnlega. Ég undra mig á þeim tíma sem þetta fólk hefur, fer að velta því fyrir mér hvað það gerir á daginn og er líka pínu abbó.... Þetta er kannski spurning um að forgangsraða, en með þeim áráttuhugsunarhætti sem ég hef lifað með frá barnsaldri, þá er mér hollast að staldra aðeins við, og setja mörk á sjálfa mig. Áður en ég ét tölvuna eða hún mig.....
Eigið góðar stundir.....
Athugasemdir
Góður pistill. NEI lífið má ekki verða of rafrænt.....
Hólmdís Hjartardóttir, 13.5.2008 kl. 23:07
Frábær færsla, ég takmarka líka mína tölvunotkun við kannski 2 klst. Eftir vinnu á kvöldin. Nema þegar ég fer í netbankann á daginn, þá er ég stundum nokkrar mínútur að skoða fréttir og kannski nokkur blogg
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.5.2008 kl. 00:47
Heimurinn er orðinn svo rafrænn að vinkonur mína "þurfa" ekki lengur að hringja í mig....það er nóg að lesa bloggið mitt
Það er misjafnt hvað ég hef mikinn tíma til "skrifta" á blogginu en ég reyni samt að lesa hjá ákveðnum hópi einstaklinga reglulega. Það má eiginlega segja að efstu 15 hjá mér eru í minni "daglegri" rútínu.
Ég hef ekki tíma til að eyða heilum og hálfum kvöldum við sms skrif við ókunnuga eða email. Mér finnst persónulega betra að eyða tímanum með fjölskyldu minni.
Eigðu góða helgi. Þú veist hvað ég er að fara að gera um helgina
Helga Linnet, 14.5.2008 kl. 12:57
Góður pistill - vekur mann til umhugsunar.
Sigrún Óskars, 14.5.2008 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.