21.4.2008 | 22:49
....gerði alla öfundsjúka með snilldartöktum í Básum....
Lét loksins verða af ferð í Bása í Grafarholti í kvöld, þótt reyndar ég væri alveg að guggna á ákvörðuninni þegar klukkan var farin að ganga í kvöldfréttir og rassinum á mér var farið að líða óhuggulega vel í sófanum mínum. Sonur minn er búinn að vera að ýta á eftir mér í nokkrar vikur og var búinn að fá bróður minn í lið með sér, svo ég átti mér varla nokkra málsvörn. Lítið hvísl, þar sem ég stakk upp á því að þeir færu bara tveir á meðan ég myndi leggja mig, var púað snögglega niður af þeim tveimur.
Svo í Bása héldum við, vopnuð kylfum og hönskum. Ég er náttúrlega óheyrilega lélegur golfari, óþolinmóð í þokkabót og ekki bætir nett áráttuhegðun mín á taktana. Það tekur óneitanlega á taugarnar, þegar ég er búin að eyða meira en heilli mínútu í að stilla mér upp, tékka á vegalengd frá tá að kúlu, muna að beygja hnén, lyfta úlnliðunum, passa að gripið sé rétt, minna mig á í hálfum hljóðum að snúa kylfuhausnum upp í aftursveiflunni, horfa á kúluna og EKKI rétta úr mér of snemma.....í höfðinu á mér glymur rödd breska golfkennarans míns: "hit the ti, hit the ti" og ég er gífurlega einbeitt..... og svo búmm, slæ ég þetta feikilega vindhögg, svo ég snýst næstum í hálfhring á eftir. Það er vægast sagt ergilegt og fyrir manneskju eins og mig er það nánast óbærilegt. Oft langar mig að grýta kylfunni í næsta vegg, krossleggja hendur á brjósti og tilkynna: "Ég er hætt!!" (Eins og öllum væri ekki líka sama....)
En svo koma góðir dagar og þá er gaman. Við fórum í skvísu-golfferð til Spánar síðastliðið vor, 7 kellingar saman og þar fór ég í fyrsta skipti heilar 18 holur. Fram að þeirri ferð hafði ég aldrei haft úthald og þolinmæði í meira en 9 holur..... ég var meira að segja farin að telja niður á cirka 5. holu og farin að hugsa: "fer þetta ekki að vera búið...." Endalaus hlaup að leita að kúlunni minni, stingur í magann þegar ömurleg högg komu, barátta við sandgryfjur og annað í þeim stíl fannst mér ágætt upp að vissu marki, en fyrir manneskju sem er með fullkomnunaráráttu, gífurlegt keppnisskap og tapsár eftir því, getur þetta tekið aðeins of mikið á taugarnar. Þar til ég loksins náði sveiflunni! Eftir þrautseigju og þolinmæði míns breska pro-golf-kennara í sólinni á Spáni og nokkur hvítvínsglös.
Og þá náði ég henni. Og þegar ég var búin að fatta, að ég gæti bara slegið ágætlega, þá vildi ég ekki hætta. Golfvöllurinn var minn og hann hefði alveg mátt vera 36 holur mín vegna, loksins þegar sveiflan var komin. Ég sýndi meira að segja snilldartakta í spænsku sandgryfjunum og hlaut í kjölfarið viðurnefnið "bucker-babe" en því miður entist gleðin aðeins í tvo daga. Svo var ég aftur orðin léleg. Um sumarið fannst mér ég svo komin aftur á byrjunarreit. Ekkert nema léleg högg. Og þá nennti ég þessu ekki meira það árið. Ég var hætt.... í bili að minnsta kosti. Og svo enginn vafi væri um málið, þá gekk ég hátíðlega með golfsettið niður í kjallara og placeraði því innst inni í geymslu.
Það var því með nokkrum kvíða sem ég dröslaði golfsettinu á bakinu upp á aðra hæðina í Bása í kvöld. Ég ætlaði sko bara að slá 30 kúlur. Alls ekki meira, ef ég þá myndi endast þessar 30. En svo gekk bara svona skrambi vel, svo kúlurnar urðu 50 og svo allt í einu 50 í viðbót! Ég reyndi allar kylfurnar, rifjaði upp öll tækniatriðin sem ég hef lært og reyndi að taka sjálfa mig ekki of hátíðlega. Og viti menn, ég hitti barasta kúluna í 85% tilfella og nokkur höggin voru bara nokkuð áreynslulaus. Á minn mælikvarða. Ég reyndi að bera mig ekkert of mikið saman við flottu gæjana þarna, sem slógu svo small í, hverja kúluna á eftir annarri lengra en augu mín eygðu. Borið saman við sjálfa mig var ég bara nokkuð góð.... og ég fór glöð heim.
Reyndar skelf ég pínu í vinstri höndinni núna og verkjar í bæði litla puttann og einn lófavöðvann, ekki laust við að harðsperrur séu að byrja að myndast í framhandleggsvöðvunum en það er bara vegna þess að langt er síðan ég hélt síðast á golfkylfu. Bara merki um það að ég hafi tekið duglega á. Það er allavega EKKI af því að ég kreisti kylfuna svo fast að það sé eins og líf mitt velti á því hve fast ég haldi.... það er það EKKI!! Þið getið bara sjálf litið út eins og þið ætlið að drepa mann með kylfunni. Og hana nú!
Athugasemdir
Hún er rosaleg þessi samhæfing. Ég hef trú á að hún náist - og svo deyr maður.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 23:36
Það er algjörlega Nautið sem talar þarna!! Mitt mottó er það að ef ég veit að ég á ekki séns á að vinna....þá tek ég ekki þátt...höndla ekki að feisa tapið! Ég hef líka lært það að ef ég segi: "ég er hætt" að það skiptir ekki máli..það dæmist hvort eð er á mig.
Gott hjá þér að skella þér og æfa þig. Hef alltaf sagt að ég fer í golfið þegar ég er orðin gömul....
Eftir 3 daga get ég sagt að þú sért tveimur árum eldri en ég.....en það get ég víst ekki nema í sléttar 3 vikur....svo niðurstaðan er að þú ERT MIKLU ELDRI EN ÉG!!!
Helga Linnet, 22.4.2008 kl. 00:56
Ójá Helga, svo bottom lænið er, ég er orðin gömul og þess vegna er ég að rembast við þetta golf!!!
Lilja G. Bolladóttir, 22.4.2008 kl. 00:59
Ég hef ekki oft spilað golf, bara svona fimm sinnum og gekk mér rosalega vel í fyrsta skiptið, fór til dæmis par 3 á 5 höggum svo fór það versnandi. Til hamingju með árangurinn
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.4.2008 kl. 01:06
Já, það var nú týpiskt, Jóna. Sumir eru bara fæddir til að spila þetta vel. Sonur minn hefur farið á eitt námskeið en er annars bara sjálflærður (því ekki get ég miðlað af visku minni....), en samt slær hann mun lengri högg en ég og ég er ekki frá því að þau séu flottari líka.... þrátt fyrir alla mína tækniþekkingu í leiknum, virðist ég ekki geta nýtt mér hana rassgat!!!
Lilja G. Bolladóttir, 22.4.2008 kl. 01:12
Ég skil ekki golf.
Hólmdís Hjartardóttir, 22.4.2008 kl. 01:59
Er búin að prófa golfið. Það virðist ekki vera fyrir mig, laðar fram eiginleika í fari mínu sem ég vissi ekki að ég ætti til og vil ekki vita af Þar að auki held ég að ég yrði sett á gestabannslista, því eftir síðustu ferð varð að loka vellinum í nokkurn tíma meðan verið var að laga hann eftir að ég hafði plægt mig í gegnum hann eins og naut í flagi ( held ég)
Guðrún Þorleifs, 22.4.2008 kl. 13:22
Ég hef aldrei prófað golf - læt feðgana, þ.e. kallinn og soninn algjörlega um það. kannski er þetta skemmtilegt en ??? mig langar ekki að prófa.
Sigrún Óskars, 22.4.2008 kl. 19:24
Já, þetta er spurning.... stundum fyrir mitt leyti um líf og dauða, mætti halda. En ég er einhvernveginn þannig byggð, að ef ég get ekki eitthvað, þá verð ég enn þrjóskari og ákveðnari í þvi að ná þessu ..... (helv....) Ég bara get ekki gefist upp og geri það aldrei... og áfram mun ég örugglega strembast, mér og öðrum til ama en vonandi einhverntímann til frama.....
Lilja G. Bolladóttir, 25.4.2008 kl. 03:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.