8.4.2008 | 12:50
Sólin, gleðin og kynlegir kvistir í lífi mínu.....
Óhó hó, I'm alive now. Sólin skín og vorið er að koma
Friðsæl morgunstund með Moggann, kaffibollann og Rás1 í útvarpinu - ekki af því að ég sé orðin svo gömul að ég þoli ekki síbylju annarra útvarpsstöðva, heldur finnst mér stundum svo róandi að hlusta á Rás1.... þótt ég sé eiginlega ekkert að hlusta, heldur frekar láti RÚV skapa þægileg bakgrunnshljóð fyrir mig. Minnir mig einhvernveginn á gamla daga, þegar skólinn byrjaði kl. 13 á daginn, mamma var að stússast eitthvað í heimilisverkum og ekkert annað var á boðstólum í útvarpinu en Rás1. Og í minningunni skein sólin auðvitað alltaf þegar maður var lítill Minnir mig líka á helgarmorgna hjá afa og ömmu, þar sem ég elskaði að gista fjarri áreiti frá systkinum mínum - afi í sólríkri stofunni í Barmahlíðinni að lesa blöðin, kallaði öðru hvoru fram til að lesa upp einhverjar spennandi fréttir eða hneykslast á einhverju sem hann las, Rás1 á fullu úr gamla útvarpinu hans, tifið í stóru stofuklukkunni þeirra og amma að gera sig tilbúna til að fara eitthvert; í sund, í bæinn, í heimsókn eða eitthvert annað - og alltaf fékk ég að fljóta með.
Niður af litlum flugvélum berst inn um gluggann, ég heyri bjölluna í Ölduselsskóla hringja inn úr frímínútum og stuttu seinna stöðvast hlátrasköllin og krakkaópin sem ég heyri alltaf óminn af. Einn nágranni minn er að klippa greinar af trjánum hjá sér með vélsög og hundurinn hans geltir öðru hvoru í garðinum hjá honum. Minn litli kisi vill ekki koma inn af svölunum, er búinn að hreiðra um sig í einum garðstólnum þar - vill svo heppilega til fyrir hann að húsfreyja hans setti einhverntímann í vetur baðmottuna sína út, akkúrat í þennan stól..... ákvað svo að kaupa nýja en hefur einhverra hluta vegna aldrei hundskast til að henda þeirri gömlu.... núna er þetta ágætis hægindastóll fyrir kisa. Einhversstaðar heyrist í vinnuvél og annar nágranni minn er að sópa og skrapa bílaplanið okkar með tilheyrandi hljóðum. Og akkúrat í þessu heyri ég í, og sé, þyrlu Landhelgisgæslunnar (bara að hún sé ekki að lenda með neinn slasaðan við vinnustað minn.....)
En engin af þessum hljóðum trufla mig hið minnsta. Ég fagna þeim öllum því þau boða vorið og gleðina. Ég heyri líka öðru hvoru í vindinum og veit að hann er kaldur, en í dag leiði ég það hjá mér! Það fær ekkert eyðilagt þá sumarstemningu sem þessi fallegi morgunn hefur laumað inn í litla hjartað mitt. Mér er alveg sama þótt Esjan blasi við mér með hvíta húfu.... það eina sem vantar er ómurinn af sláttuvélum, lykt af grasi og lykt af grilli. En þetta er allt að nálgast, skal ég segja ykkur.
.....en aftur að nágranna mínum sem er þessa stundina að sópa bílaplanið. Ég hef stundum fylgst með honum, ég á oft lausa morgna annaðhvort áður en ég fer á vakt eða eftir að ég kem heim af næturvakt. Hann býr ekki í sömu blokk og ég, (við deilum sama stóra bílastæðinu íbúar tveggja blokka) og ég kann engin deili á þessum manni. Ég veit ekki hvað hann gerir eða hvort hann vinnur úti yfirhöfuð. Hann er að minnsta kosti alltaf heima þegar ég er heima. Og alltaf að stússast eitthvað utandyra.
Ég hef stundum kallað hann "fuglamanninn", því hann er mjög iðinn við að gefa smáfuglunum á veturna, og iðulega er hann í fuglastríði við mig. Hann gefur fuglunum á ákveðnum stað yst á bílastæðinu, en ég letinginn, gef þeim yfirleitt bara rétt fyrir utan gangstéttina að útidyrahurðinni minni - ég nenni ekki að labba lengra með fæðið þeirra, finnst að fuglarnir eigi auðveldara með að færa sig úr stað en ég..... Hann er mikið duglegri við að hugsa um fuglana heldur en ég er, svo iðulega er fuglahrúgan við hans "veitingahús". Það kemur þó fyrir, að ég setji eitthvað mjög girnilegt út; ávexti, afganga af kjöti, ávaxtasallat í þeyttum rjóma (já, fuglarnir ELSKA það), kæfu eða paté sem er að renna út á tíma eða eitthvað í þeim dúr. Þá auðvitað flykkjast fuglarnir að mínu "veitingahúsi", og það þolir nágranni minn ekki. Ég held að honum finnist hann "eiga" smáfugla hverfisins og ég held að hann fylgist með þeim og því, hvort þeir hafi "klárað af disknum sínum", því ef þeir yfirgefa hans stað fyrir minn stað, þá er hann umsvifalaust mættur út með eitthvað til að lokka þá til baka til sín. Ég er líka mikil keppnismanneskja, svo mér finnst ekki að hann eigi að lokka fuglana frá minni hrúgu, svo þá mæti ég aftur út og þá með eitthvað enn girnilegra en gamlar og hálfbrúnar perur og fæ fuglana aftur á mitt band. Nágranninn grefur þá eitthvað annað upp en gamalt brauð og er mættur út á bílaplan. Ég stend við eldhúsgluggann og fylgist grannt með, og mæti svo aftur út með kjötafgangana og áður en komið er hádegi, er ég farin að ganga á forða okkar mæðgina í ísskápnum - því í ást og stríði er allt leyfilegt, og þetta er definitly stríð!! ....Milli okkar, því ég held að fuglunum sé nokk sama á hvorum staðnum þeir éta. Það er líklega skondnast að vera áhorfandi að þessu stríði og sjá fuglahrúguna færa sig á milli tveggja staða mörgum sinnum á sama morgninum á meðan við hlaupum til skiptis út eins og brjálaðar manneskjur .....önnur á bleikröndóttum náttbuxum og Van´s skóm af syni sínum (ég) og hin alltaf í blárri úlpu með svarta húfu og í flauelsbuxum (hann).
Þegar nágranni minn er ekki að gefa fuglunum er hann að dytta að bílnum sínum. Stundum sé ég hann koma gangandi yfir planið og setjast inn í bílinn og keyra af stað. En ekki langt, því hann er oft bara að fara út til að snúa bílnum við í stæðinu..... merkileg athöfn sem ég hef oft furðað mig á!
Stundum er hann að tína rusl upp í kringum blokkirnar, og á hann miklar þakkir skildar fyrir það. Stundum er hann að gera úttekt á einhverju, virðist vera. Þá gengur hann um og horfir í kringum sig, stoppar svo öðru hvoru og skrifar eitthvað niður hjá sér.... ég vona allavega að hann sé ekki að taka út hvaða gluggar séu hreinastir í hverfinu....
En núna er þessi góði maður sem sagt að sópa þetta óendanlega stóra bílaplan hér fyrir framan eldhúsgluggann minn. Hann er búinn að vera að sópa og skrapa í einn og hálfan tíma, en það sér ekki mikið á planinu ..... ekki ennþá. Fyrir mér væri þetta eins og að ætla að moka sjóinn upp með plastfötu, en ég held líka kannski, að þessi elska sé ekki alveg eins og fólk er flest......
Og kannski ég ekki heldur...... erum við ekki bara öll einstök hvert á sinn hátt?
Ég ætla að fagna þessum góða granna mínum eins og öllu öðru á þessum góða degi, og ég held svei mér þá að kveikt verði í grillinu í kvöld... í fyrsta skiptið í ár. Svona dagar eru bara til að njóta!!
Athugasemdir
Það er vorlykt af pistlinum þínum
Hólmdís Hjartardóttir, 8.4.2008 kl. 13:09
Skemmtilegur pistill Vertu bara í fyrra fallinu að grilla í kvölld, það kular líklega snemma
Guðrún Þorleifs, 8.4.2008 kl. 13:18
Þetta með Rás 1 og aldurinn.....það helst í hendur
Helga Linnet, 8.4.2008 kl. 14:55
Skemmtilegur nágranni sem þú átt, og sjálf getur þú verið skemmtileg. Frábær saga Og skemmtilegar pælingar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.4.2008 kl. 02:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.