6.4.2008 | 19:15
Offita....
Þetta er mun alvarlegra mál, en margir gera sér grein fyrir. Offita er ekki það sama og vera lítillega of þungur, offita er hæstastigið í þessum málaflokki. Offita er vaxandi vandamál, talið er að einn af hverjum þremur einstaklingum í heiminum eldri en tvítugt, séu of feitir og um 27% barna og unglinga í heiminum eru of feit. Samkvæmt skilgreiningu WHO (Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni) er talað um offitufaraldur ef hlutfall of feitra fer yfir 20% (!!)
Offita kostar heilbrigðiskerfið EKKI minni pening en reykingar. Skv. WHO eru um 9% af útgjöldum heilbrigðiskerfisins tilkomin vegna offitu og er fyrirséð að þetta hlutfall eigi bara eftir að aukast. Offita hefur geysileg áhrif á alls kyns þætti heilbrigðis okkar og veldur mörgum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, sjúkdómum og verkjum í stoðkerfi okkar, kæfisvefni, ýmsum krabbameinum og oft á tíðum fylgir einnig þunglyndi offitu, fyrir utan það að of feitir lifa við verulega skert lífsgæði. Margar stórar rannsóknir sýna að offita er aðalorsök snemmdauða, offita einstaklins eykur notkun hans á heilbrigðisþjónustu um 36% og lyfjanotkun um 77% !! Ofan á kostnað heilbrigðiskerfisins bætist samfélagslegur kostnaður, sem kemur til af minnkaðri atvinnuþátttöku, fleiri veikindadögum, ótímabærri örorku ofl.
Eins og ég tók fram áður, kostar offita þjóðfélagið ekki minni pening en reykingar. Eini munurinn er sá, að reykingafólk tekur virkan þátt í sínum kostnaði með því að greiða há opinber gjöld af sinni neyslu. Af hverjum sígarettupakka sem kostar um 600 kr., borgar reykingamaðurinn um 400 kr. til ríkissjóðs. Í Danmörku, þar sem reykingar eru hvað mestar á Vesturlöndunum, hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna fram á það, að reykingafólk hefur í gegnum opinber gjöld af sígarettum, margborgað fyrir sínar sjúkrahúslegur og lyfjakostnað, og það er kaldhæðnislegt að segja það, en satt engu að síður, þá lifir reykingafólkið að öllu jöfnu mun styttra en aðrir og fá þá, eðli málsins samkvæmt, ekki greiddan sinn lífeyri, þarf ekki á sjúkrahúsum að halda eftir sinn dauða og munu heldur ekki þurfa öldrunarpláss á hjúkrunarheimilum - og spara þannig þjóðfélaginu þær áhyggjur og þann kostnað, með því að kveðja lífið fyrr en aðrir.
Nú má ekki misskilja mig þannig, að ég sé að mæla með reykingum, síður en svo. Þessi ræða var inngangur að því sem ég vil segja nú. Í ljósi þessarra staðreynda finnst mér að ríkisstjórnin ætti að grípa til aðgerða og það strax. Innflutningsgjöld, tollar og virðisaukaskattur eiga að vera mun hærri á óholla vöru og að sama skapi á þessi kostnaður að vera eins lágur og hægt er á grænmeti, ávexti, kornmeti og aðrar hollustuvörur. Ríkisstjórnin þarf að hvetja fólk til að neyta hollrar vöru, og ég veit svo sem að hún er að gera það í gegnum Lýðheilsustöð með ýmsum átökum, en ríkisstjórnin verður líka að gera fólki það kleift kostnaðarlega. Það á ekki að vera ódýrara að fæða fjögurra manna fjölskyldu á McDonalds heldur en að elda fisk eða kjúkling, með fullt af grænmeti og hrísgrjónum þar heima. Það á ekki að vera ódýrara að kaupa örbylgjurétt í stórmarkaði heldur en t.d. að kaupa fiskrétt til að taka með sér heim hjá Fylgifiskum. Þegar virðisaukaskattur var lækkaður á ýmsum vörum í fyrra, átti ekki gos að fylgja með í þeim aðgerðum, eins og það gerði.
Flestar rannsóknarniðurstöður benda á það, að við séum í raun búin að missa af lestinni með fullorðna fólkið í þjóðfélaginu, það sé of seint í rassinn gripið að ætla að gera eitthvað markvisst fyrir það, en að fókusinn þurfi að beinast að börnunum og unga fólkinu í löndunum með fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu og í raun ala þau upp frá blautu barnsbeini með það í huga að forða þeim frá offitu. Það er eina leiðin til að stöðva þennan offitufaraldur. Með aukinni atvinnuþáttöku kvenna og hærra vinnuhlutfalli okkar allra, ganga börnin okkar meira sjálfala, en t.d. mín kynslóð gerði og hvað þá kynslóðirnar á undan. Framboð á óhollustu og ýmis konar áreiti í þjóðfélaginu á börnin okkar er gífurlegt, og það á ekki að vera svona auðvelt og "ódýrt" fyrir þau að stökkva út í næstu sjoppu og kaupa sér hamborgara og kók. Það á að vera alger sparivara, eins og það var fyrir kynslóðirnar á undan þeim. Ríkisstjórnin þarf að stuðla að því, í samvinnu við heimilin, leikskólana og skólana, að kynna holla matvöru fyrir börnunum strax á unga aldri. Í Danmörku, þar sem minn sonur eyddi öllum sínum leikskólaárum, var ávaxtatími einu sinni á dag. Þá voru ávextir settir á borð og allir áttu að velja sér ávöxt/ávexti og setjast á dýnu til að borða á meðan það var lesin fyrir þau saga. Þetta var líka raunin í barnaskólanum sem hann gekk í. Dýrt? Nei, ekki get ég ímyndað mér það, að kaup á ávöxtum af hálfu sveitarfélaganna og hins opinbera vegi hátt á móti þeim ávinningi sem þjóðfélagið allt hlýtur af svona einfaldri aðgerð, þótt árangurinn eigi ef til vill ekki eftir að koma fram fyrr en áratugum seinna. Það þarf að hugsa þetta mál í stóru samhengi, hugsa til framtíðarinnar og hafa það hugfast að árangur mun ekki koma í ljós fyrr en þessi kynslóð vex upp.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta eitt og sér, mun ekki valda neinni u-beygju, heldur er bara liður í mörgu fleira sem þarf að gera. Hreyfin er annað sem þarf að taka á. Eitt af markmiðum Lýðheilsustöðvar er að börn og unglingar hreyfi sig a.m.k. fimm daga vikunnar í 60 mínútur í senn. Nú hafa ekki allir foreldrar efni á því að leyfa börnum að stunda íþróttir í frítíma sínum, börnin hafa kannski ekki áhuga heldur, svo með því að setja hreyfingu inn í grunnskólana mætti leggja lóð á þessar vogaskálar því þar næst til allra og öllum er skylt að taka þátt. Í aðalnámskrá grunnskólanna er kveðið á um uppeldishlutverk þeirra. Hún segir líka til um þann lágmarkstíma sem skólum ber að bjóða nemendum í einstökum námsgreinum. Samkvæmt núgildandi aðalnámskrá eiga nemendur að fá þrjár kennslustundir í viku í íþróttum, sem þar eru skilgreindar sem leikfimi, sund, dans og leikir. Fyrir venjulegan leikmann, eins og mig, virðist það ekki vera mikið mál að bæta tveimur stundum í viku, við þessa námsskrá. Það má vel samtvinna hreyfingu við aðra kennslu, og ég held ekki að börnin myndu bera skaða af því að læra minni landafræði eða eðlisfræði á kostnað hreyfingar.
Þegar talið berst að hreyfingu, finnst mér líka að ríkisstjórnin ætti að gera okkur fullorðna fólkinu það auðveldara að stunda hreyfingu, því þrátt fyrir að það sé kannski of seint að ætla að afþyngja okkur, þá hefur hreyfingin margvísleg fyrirbyggjandi áhrif sem eru margsönnuð. Það hafa ekki allir efni á því að borga 5-12000 kr. á mánuði í líkamsræktarsal, og svo eru líklega enn fleiri sem finna ekki tíma til þess með vinnu sinni og heimilishaldi. Ég veit að sum stéttarfélög veita styrki til líkamsræktar, en hvað ef ríkið veitti stöðvunum fé svo þær gætu lækkað sinn rekstrarkostnað og þá boðið kortin sín ódýrari? Eða ef við fengjum þrjá tíma á viku, á launum, til að stunda einhverskonar líkamsrækt? Hefðum kost á því að stunda líkamsrækt í vinnutíma? Ég veit að þetta yrði mjög erfitt og líklega mjög flókið að hafa eftirlit með einhverju í þessum stíl, en þetta eru bara hugmyndir, sem kannski væri hægt að útfæra á einhvern hátt. Ríkisstjórnin á að sjálfsögðu ekki að bera ábyrgð á okkar heilbrigði, en ef sannað er að hreyfing og mataræði hafa margvísleg áhrif á heilsuna og geta dregið úr heilbrigðiskostnaði, þá finnst mér sjálfsagt að hún geri það sem í hennar valdi stendur til þess að stuðla að því að við lifum "rétt". Lýðheilsustöð er einmitt stofnuð með það í huga, er það ekki?
Árið 2001 gaf Heilbrigðis- og (þáverandi) tryggingamálaráðuneytið út skýrslu, þar sem langtímamarkmið voru sett í heilbrigðismálum til ársins 2010. Þessi markmið voru svo endurskoðuð árið 2006, en það vekur athygli og er mjög sláandi að í þessarri skýrslu eru engin markmið sett á sviði þess að draga úr ofþyngd og offitu þjóðarinnar. Maður skyldi ætla, að þessi mikli kostnaður ríkisins vegna offitufaraldurs myndi kalla á auknar aðgerðir á þessu svið. Breyting á lifnaðarháttum er mikilvægust í þessarri baráttu, árangursríkast er að fyrirbyggja offitu og nauðsynlegt að ná til barna snemma á lífsleiðinni. Það er í raun ekki eftir neinu að bíða....
P.s. ef einhver skyldi halda að ég sé að grípa þessar staðreyndir og tölur úr lausu lofti, þá skal tekið fram að ég (ásamt öðrum) skrifaði verkefni um þetta málefni í mastersnámi mínu í Háskóla Íslands í haust, og allar tölur og fullyrðingar eru eftir áreiðanlegum og staðfestum heimildum.
Offitufaraldur á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er sammála þér með það að það verður að byrja snemma með fyrirbyggjandi aðgerðir vegna offitu. Ég sjálf hef glímt við aukakílóin í 25 ár, ég var grönn þar til ég gekk með annað barnið mitt og hætti að reykja á meðgöngunni, svo reyki ég líka Jeminn eini, ég á væntanlega ekki eftir að lenda á biðlista eftir elliheimili Sem betur fer eru flest börnin mín innan offitumarkanna, bara tvö eru smá þybbin
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.4.2008 kl. 01:12
Góður pistill
Hólmdís Hjartardóttir, 7.4.2008 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.