4.4.2008 | 03:14
"Ég ætla að fá eina golfkylfu, takk!"
Í kvöld brugðum við sonurinn okkur af bæ og fórum í mat til systur minnar og fjölskyldu hennar. Þau eyddu páskunum á sólarströnd og er því þónokkuð síðan við sáumst síðast. Mér þykir alltaf jafngaman að sjá ungana hennar þrjá, þótt eitthvað virðist aðdáun þeirra á mér dvína með hækkandi aldri þeirra...
Sá yngsti ljómaði út að eyrum þegar hann sá mig og endurtók nafn mitt og frænda síns í sífellu, þótt hann sé varla talandi. Hann var líka óþreytandi að sýna mér bílana sína og leyfa mér að renna þeim niður brekkuna í leikfangabílahúsinu sínu, einum í einu, og svo tveimur og fleirum saman.... og aftur og aftur og aftur.
Mér tókst að kreista koss og knús út úr þessum í miðjunni, þeim sama og vildi næstum flytja til mín fyrir tveimur árum..... .....en á þeim tíma var hann líka "seldur", eftir að ég tók þá bræður með okkur í útilegu á Arnarstapa. (Snilldar, kænskubragð það, sem greinilega þarf að endurtaka öðru hvoru til að verðskulda hrifningu litlu frænda sinna....) En í kvöld var staðan þannig, að þegar ég nennti ekki að spila við hann oftar Veiðimann, var líka lokað fyrir athygli hans á mér!
Sá elsti lét sig hafa það að kyssa "gömlu töntu" og svo var hann rokinn upp á loft með syni mínum, og sá ég hann lítið meira, fyrir utan þegar þeir frændur gleyptu í sig matinn, áður en þeir ruku með látum upp aftur. Sá elsti ætlar þó að koma og gista í mínum húsum annað kvöld, en ég held ekki að það sé minn félagsskapur sem trekki að.... ekki í þetta skiptið heldur
Við systur áttum notalega kvöldstund, eins og alltaf þegar við hittumst og þar sem heimilisfaðirinn er erlendis í vinnuferð, gátum við hlustað á smá stelputónlist, slúðrað og skipst á bæði kjaftasögum og hversdagslegum sögum - við fengum okkur meira að segja pínulítið rósavín. (Ekki það að maðurinn hennar sé leiðinlegur, það er bara alltaf pínu öðruvísi að hittast tvær.... eins og örugglega allar systur þekkja)
Systur minni hafði ekki unnist tími til að koma fermingargjöfinni til sonar míns, áður en þau héldu af stað í ferðina sína, svo hún var dregin fram í kvöld. Ég hafði ráðlagt henni svolítið varðandi gjöfina, og þar sem ég vissi að unglingurinn minn, myndi fá fínan golfpoka í fermingargjöf, fannst mér tilvalið að hún gæfi honum kylfu í safnið. Strákurinn á einfalt golfsett fyrir byrjendur, og mér fannst alger vitleysa að kaupa einhverjar rándýrar kylfur handa honum, því það er alveg gefið að þeim þarf að skipta ört út á næstu árum, í takt við vaxandi lengd hans. En góðan pútter getur maður vel átt í nokkur ár þótt svo maður sé að vaxa, maður getur þá bara fært sig upp á skaftið eftir því sem árin líða..... og þá meina ég BARA upp á skaftið á kylfunni, en ekki í neinu öðru samhengi!!
Systir mín sagði farir sínar ekki sléttar úr golfbúðinni. Hún hefur ekki hundsvit á golfi, en hafði farið í Hole in One í Bæjarlindinni eins og ég benti henni á. Stúlkan sú, hún litla systir mín, er þvílík pæja, með sítt ljóst hár, gengur ALLTAF um á háum hælum (líklega vegna þess að hún er svo "lítil" .....), er alltaf flott klædd, vel máluð, með fínar snyrtistofuneglur og hún trassar aldrei að fara í litun og plokkun eins og stóra systir hennar á það til að gera. Hún stormar um eins og hún eigi heiminn, inn og út úr búðum, skellir bílhurðinni með stæl og brunar af stað í jeppanum sínum með fínu sólgleraugun sín.
Það er svona heimsborgaryfirbragð yfir henni, svo ég var ekkert hissa að heyra það, að þegar það klingdi í hurðarbjöllunum í Hole in One og hún gekk inn í golfbúðina, hafi afgreiðslumennirnir báðir (eða allir þrír) þust að til að fá að afgreiða hana. (Ég get bara búið mér til myndir í mínu höfði, eftir hennar sögu, og ég er viss um að mínar myndir eru ekki fjarri lagi - allavega mun skemmtilegra að ímynda sér að þetta hafi gerst nokkurnveginn svona):
Litla systir mín þeytir upp hurðinni í Hole in One og stormar öruggum skrefum inn. Hún tekur ekkert eftir því, að augu afgreiðslumannanna standa á stilkum og þeir "dissa" sína kúnna til að fá að afgreiða þessa skvísu. Lillan mín verður smá skelkuð þegar hún sér stærð búðarinnar og úrvalið, því hún kann ekkert að velja úr því, en sú stutta er nú ekki vön að láta slá sig út af laginu. Svo hún sveiflar ljósa hárinu og snýr sér að þeim afgreiðslumanni sem stendur næst henni og segir hátt og skýrt: "Ég ætla að fá eina golfkylfu!"
Sá heppni, sem hún beindi orðum sínum til, verður voða upp með sér, að hann skuli fá að afgreiða þessa golfpæju, (hún gæti alveg eins verið eins og ljóshærð Catarina Zeta Jones..... hvað vita þeir, hún hlýtur allavega að spila golf fyrst hún er þarna stödd), gengur til hennar og fer að spyrja hana nánar út í þessa kylfu sem hún ætli að kaupa.
Og hennar orð (pínulítið stílfærð): "Oh my God, Lilja, ég ætlaði bara að kaupa eina kylfu og hann fór að tala um eitthvað járn og spýtur..... ég meina, common, eru virkilega framleiddar kylfur úr spýtum???" (hneykslisvipur dauðans fylgir þessu kommenti). .....Eins og golfarar vita, hefur maðurinn væntanlega verið að spyrja hana hvort hún væri að leita sér að "járni" eða "tréi". Hann var ekki einu sinni byrjaður að fara út í nein númer, þyngdir eða gráður.....
Það kom flatt upp á mína þegar hún var spurð nánar út í kylfuna sem hana langaði að festa kaup á, en hún var ekki lengi að skella örygginu aftur upp. "Nú, hún ætlaði bara að kaupa eina golfkylfu." Maðurinn var örugglega byrjaður að fatta það, að hún væri engin golfpæja, en pæja var hún engu að síður, svo hann hóf að telja upp allskyns kylfur; ætlaði hún að fá járn til að slá langt, kannski járn til að slá hátt og stutt, eða jafnvel til að slá upp úr sandgryfjum, driver, minna tré, pútter eða...... "Já pútter", kallaði hún um leið og hún þekkti eitthvað af því sem hann var að tala um. Já, það var einmitt pútter sem hún ætlaði að fá. Hjúkk, málinu lokið.... hélt hún. En þá kom það, hvaða merki vildi hún og hverskonar pútter var hún að spá í. (Þarna get ég alveg ímyndað mér að andlitið hafi svolítið sigið á dömunni....)
Maðurinn lét þá systur mína í hendurnar á yngri sölumanni, sem byrjaði líka að spyrja hana út úr, en þá beygði sá eldri sig að hinum og sagði lágt: "Hún er enginn golfari, sko..." Svo yngri sölumaðurinn tók upp auðveldu söluaðferðina, og sagði henni eiginlega bara hvað hún ætti að kaupa.
Þannig fór, að systir mín þáði ráðleggingar yngri sölumannsins og keypti það sem hann taldi besta kostinn handa litla fermingarfrænda hennar. Og gekk svo stolt út úr golfbúðinni með kylfuna sína í hendinni, (hafði reyndar líka keypt nokkrar kúlur, bara svo þeir myndu halda að hún hefði eitthvað vit á þessu öllu saman), skellti bílhurðinni á jeppanum, smellti á sig sólgleraugunum og brunaði í burtu.... og bar ennþá höfuðið hátt!
Það var ekki fyrr en hún stoppaði á næsta rauða ljósi, sem hún leyfði sér að þurrka svitaperlurnar af enninu og efri vörinni. Og dæsti: "Dísús Kræst, maður".... áður en hún skrúfaði græjurnar í botn og brunaði af stað á grænu
Ég sver (!!) að þessi saga af henni systur minni er EKKI ýkt, aðeins lítillega stílfærð Sagan sýnir bara, hvað hún var tilbúin til að leggja á sig, til að kaupa góða gjöf, sem son minn langaði í..... og hún er bara yndislegust, þessi elska.
..... systir mín, litla systir mín. Hún er minni en minnsti puttinn sem er á mér, og hún kann ekki að tala, með engar tennur upp'í sér..... systir mín, litla systir mín....
(Takk fyrir góða sögu, Þórunn, og hressilegt hláturskast fyrr í kvöld!!)
Athugasemdir
Skemmtileg litla systir sem þú átt
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.4.2008 kl. 03:37
Hólmdís Hjartardóttir, 4.4.2008 kl. 05:02
Þér þykir greinilega rosalega vænt um hana Þórunni, man líka þegar þú sýndir mér hana á mynd, og sagðir mér að hún væri rosalega falleg!
Skemmtileg frásögn!
Ég bið að heilsa ef einhver man eftir mér !
Róslín A. Valdemarsdóttir, 4.4.2008 kl. 13:28
hef heyrt að það er gaman oftast í gólf enn hef reyndar aldrei profað það enn væri ekkert á móti þvi samt sem áður enn gott að Þer þykir vænt um litlu systur þina vonandi gengur ykkur bara vel i framtiðinni
Ólafía Ingibjörg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 03:03
Á sex systur og þekki damskenndina, fjörið, slúðrið og allt hitt og ég elska það.
Knús
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 10:15
Hér átti að standa samkennd. OMG
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 10:16
Hahahahahaha, ég bókstaflega veltist um af hlátri af þessari lýsingu, ég sé þetta svoooooo ljóslifandi fyrir mér. Nú hlakka ég ENNÞÁ meira til að hitta ykkur systurnar næst (vonandi í afmælinu mínu).
Þú ert algjör snilldarpenni Lilja mín, frábært að þú sért loksins byrjuð að blogga:o)
Luv, Guns.
Gunna (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.