Vakandi sofandi.....

Í dag, í vinnunni, vorum við að tala um unglingana okkar, hætturnar sem leynast á þeirra vegum á næstu árum og margt í þeim stíl. Í kjölfarið fórum við að tala um okkar eigin unglingsár, og hvers konar unglingar við vorum.

Ekki ætla ég að láta fylgja með skrautlegustu sögurnar, sem voru ansi margar, en ætla að "ganni" að láta eina syfjusögu fylgja hér.

Mamma mín vann í Tryggingastofnun Ríkisins og þannig voru hæg heimatökin fyrir mig, að fá sumarvinnu þar þegar ég fékk aldur til. Ég byrjaði að vinna þar 14 ára gömul og vann á svokallaðri sjúkratryggingadeild. Þegar þetta var, voru ennþá til sjúkrasamlög, svo mikill hluti af okkar vinnutíma, fór í það að reikna út útlagðan kostnað sjúkrasamlaganna í sambandi við hitt og þetta, og endurgreiða þeim. Við sáum líka um afgreiðslu á hjálpartækjum, (ekki kynlífshjálpartækjum þó Wink ), afgreiðslur og greiðslur fyrir glasafrjóvganir, greiðslur til sérfræðilækna fyrir ríkishluta þeirra fyrir sérfræðiaðstoð og margt fleira.

Ég man, að ég var stærstan hluta sumarsins að reikna út einhverjar greiðslur fyrir apótek, hin og þessi í hinum og þessum landshlutum. Þá var ekki til neitt tölvukerfi, svo við lögðum saman á gamaldags reiknivélum og heftuðum gamaldags strimla við hvern reikning sem við gáfum út. Við handskrifuðum líka allar kvittanir, en deildarstjóri okkar þurfti alltaf að fara yfir reikningsgerð okkar og samþykkja þær.

Vinna mín gekk vel lengst framan af, en svo eins og flestir unglingar, þá lenti ég í tímabili þar sem vinirnir og djammið skipti mestu máli. Maður var kannski ekki djammandi öll kvöld, en eyddi ófáum tímunum á "rúntinum", að vakta hús "tilvonandi kærasta", keyra á milli tilgangslausra staða, fara í bíó og stundum á Gaukinn (þótt við langt því frá hefðum aldur til!). Ég var gjörsamlega vansvefta dag eftir dag, og oft hélt ég varla höfðinu í vinnunni á daginn, vegna þreytu og syfju.

Ég upplifi svo sem þessa þreytu stundum líka núna í vinnunni, en það hjálpar mér mikið, að ég er stöðugt á ferðinni á fótunum í minni vinnu í dag, og styrkir mig í leiðinni í þeirri trú, að kyrrsetu-vinna myndi alls ekki henta mér....

Eitt skiptið var ég að reikna út reikninga fyrir Laugavegsapótek, og þetta var löngu áður en öll apótek hétu Lyfja eða Lyf og Heilsa - þarna voru til sjálfstæðir apótekarar, og maður var í reglulegu sambandi við apótekarann í hverju apóteki. Ég var sem sagt að reikna út endurgreiðslu fyrir Laugavegsapótek og var búin að sitja fyrir framan tölvuna og reiknivélina hálfan morguninn, með hálfopin augu af syfju og áhugaleysi. Ég var svo búin að tvíreikna út ákveðna niðurstöðu, sem átti sem sagt að vera sú upphæð sem þetta tiltekna apótek myndi fá frá Ríkinu, og það eina sem ég átti eftir, var að skrifa (handskrifa) kvittunina.

Ég var ansi syfjuð en ætlaði að skrifa þessa kvittun og svo rísa upp úr sætinu og fá mér ferskt loft, sem sagt, klára það sem ég var að gera..... samviskusemin að drepa mann.... eða þannig Cool

Svo ég skrifaði þessa tilteknu kvittun fyrir greiðslu og undirskrifaði, reis svo upp og gekk yfir að borði yfirmanns míns, sem eins og lög gerðu ráð fyrir, átti að fara yfir mína vinnu og samþykkja.

Korteri seinna kallaði yfirmaður minn mig til sín, og ég gekk til hennar allsendis róleg, enda var ég alltaf vön að skila mínu vel (þrátt fyrir mína syfju á stundum). Hún spurði mig svo, hvort ég væri búin að fara alveg yfir þessa reikninga, og já, ég taldi mig vera búna að því. En eitthvað hefur athyglisgáfuna og árverknina verið farið að vanta í lok starfsins við þennan tiltekna reikning, því hún lagði hann fyrir framan mig og sagði, að reikningurinn sjálfur væri óaðfinnanlegur, en það væri kvittunin sem hún hefði eitthvað smáræði út á að setja.

Í mínu grandaleysi og fullkomna öryggi um, að ég hefði unnið mína vinnu vel, greip ég kvittunina og sagði: "Og hvað er að kvittuninni?" Leit svo um leið á hana og las stílunina á kvittuninni, þar sem það stóð orðrétt:

                                  Laugavegsapótek

                                  180 metrar

                                  hallandi

 

(Í stað Laugavegsapótek, eitthvert götunafn og númer og svo átti póstnúmer og bæjarfélag að standa neðst.....) .....LoL

Skriftin var samt fullkomin, var aðeins farin að vera "laus" í neðstu línunni en að öðru leyti virkaði hún, eins og þetta væri skrifað í bestu (með)vitund. Ég hafði þó mjög greinilega sofnað OG verið dreymandi þegar ég skrifaði kvittunina!! Og dreymt eitthvað um halla, metra og vegalengdir (mjög ólíkt mér, sem er ekki mjög eðlisfræðilega eða tölulega þenkjandi að  eðlisfari.... Tounge)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Haha, snilldar minning! En þú hefur greinilega verið mjög "villtur" unglingur, 15 ára að gera allt þetta..

Meðan ég man, þá eigum við mamma þín sama afmælisdag ef þú varst búin að gleyma því!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.4.2008 kl. 23:54

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Okey, að gefnu tilefni (vegna færslu þinnar, Róslín), skal tekið fram, að þetta gerðist ekki akkúrat sumarið sem ég byrjaði að vinna hjá TR. Ég vann þarna í sumarvinnu mörg sumur - þetta hefur líklega verið þegar ég var 17 eða 18 ára....

Lilja G. Bolladóttir, 2.4.2008 kl. 00:14

3 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Það var nú mun skárra!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 2.4.2008 kl. 00:18

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jeminn eini, frábær saga

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.4.2008 kl. 01:29

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

 Já lífið er svo einfalt á þessum árum.Ég lokaði mig inni í Frystihúsi 7 sumur, alla daga vikunnar, svo var farið á sveitböll á milli....endalaus orka.

Hólmdís Hjartardóttir, 2.4.2008 kl. 09:04

6 Smámynd: Lovísa

fyndið.

Lovísa , 2.4.2008 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband