31.3.2008 | 22:52
Og svo henti ég honum niður af bekknum....
Það er vonandi alltaf pláss fyrir skemmtilegar sögur, jafnvel sögur af slysadeildinni. Kannski eru þetta stundum svona sögur "you had to be there" en ég læt þessa samt fljóta með því það er langt síðan ég hef hlegið jafn mikið og ég gerði að þessu atviki.
Um daginn var komið með mann inn á slysadeild, sem fannst úti á götu sofandi áfengisdauða, en var einnig með ljótan skurð á höfðinu. Maðurinn var af erlendu bergi brotinn. (Nánari lýsingar óþarfar og algerlega ólöglegar!!). Okkar frábæru sjúkraflutningsmenn fluttu manninn yfir á sárabekkinn okkar á einni af sárastofunni okkar á slysó. Þar lá hann svo og hélt áfram að "sofa".
Þar sem nóg var að gera, margir sem þurftu að fá gips og fleira en ekki svo mikil "aðsókn" í sárastofuna í smá tíma, þá bjuggum við bara um manninn og settum upp grindurnar á bekknum, (svo hann myndi ekki detta út af), og sinntum því sem var meira aðkallandi akkúrat þarna.
Allt í einu kom svo hjúkka ein til mín og tilkynnti mér, að "maðurinn" minn inni á sárastofu 1, væri að detta út af bekknum, svo ég fór að tékka á honum. Hann var þá búinn að smokra sér neðar og neðar á bekkinn, og var þannig komið fyrir gæjanum þegar ég kom að, að fætur hans stóðu hálfir út af bekknum neðan frá, þannig að fætur fyrir neðan hné stóðu út af bekknum.
Við fórum þá tvö inn, ég og einn deildarlæknirinn, og reyndum að vekja manninn..... fyrst á eðlilegan hátt með því að kalla nafn hans og hrista hann og svo með "sársauka" (sérstakir staðir sem maður kemur fast við, sem eiga að vekja sársaukaviðbrögð), en maðurinn bara rétt rumskaði en aldrei nóg til þess að tala við hann.
Svo ég og læknirinn ákváðum þá, að allt í lagi væri með manninn, en betra væri ef við kæmum honum aftur almennilega upp á bekkinn, svo við hugsuðum okkur að draga hann ofar, og nota til þess lökin sem hann lá á. En til þess að við gætum gert það almennilega, væri líklega best að fá hliðargrindurnar niður á bekknum.
Og upphófst þá mikil leit mín og læknisins að réttum takka eða pinna, til að fella grindurnar niður á hliðunum.... (það eru sko örugglega til tuttugu mismunandi bekkir og græjur og maður þarf alltaf að nota hugmyndaflugið til þess að finna út úr þessum græjum.... bekkjum, hjólastólum, göngugrindum osfrv.) Mikið var að gera fyrir utan stofuna, svo í einhverju fljótræði kippti ég í einhverja græna stöng, sem ég var viss um að myndi fella niður þessar grindur. En þá, á einu sekúndubroti, féll niður neðri helmingur bekksins og maðurinn, ekki rann niður, heldur flaug niður á gólfið með fæturnar á undan. Og vaknaði, að minnsta kosti pínulítið. Nógu mikið til að segja: "Oje, je, okey, okey", og svo klifraði hann upp á bekkinn og lagðist til að sofa aftur.
Ég og læknirinn fengum þetta þvílíka hláturskast, svo við höfðum engan stjórn á hlátrinum og skellihlógum bæði.... og gátum ekki stöðvað þennan fáránlega hlátur. Maðurinn lá á bekknum, búinn að skríða upp á hann aftur, þó bekkurinn væri bara í hálfri lengd núna, og jafn óvekjandi og hann var áður, þá opnaði hann augun þarna og sagði hæðnislega: "Ja, okey, haha, haha, okey..."
Ég vonaði, að í mætti þess að hann væri bæði drukkinn og útlendingur, þá myndi hann ekki fatta hvað hefði gerst og/eða skilja af hverju við værum að hlægja, en bæði ég og læknirinn urðum að yfirgefa þessa stofu í smá stund og fá að hlægja út.
Og alltaf þegar ég sé þetta fyrir mér; þennan stóra, óvekjandi mann, sem ég, algerlega óviljandi, steypti bara á gólfið...... þá fer ég bara að brosa svolítið
Það er náttúrlega algjörlega bannað að hlægja að sjúklingunum, en í þessu tilviki ákváðum við að við værum að hlægja að okkur en ekki honum, og læknirinn lýsti þessu mjög vel, þegar hann loksins gat talað vegna hláturs. Þá sagði hann: "Já, Lilja, svona er líka hægt að gera þetta....."
Já, þetta er líklega svona "you had to be there"-saga, og ég vildi að ég ætti video af þessu, þar sem maður gæti "scramblað" andlit sjúklingsins en það mætti vel sjást í mig og lækninn - því oh my god, þetta var bara fyndið....
Athugasemdir
Hólmdís Hjartardóttir, 31.3.2008 kl. 23:14
Já slysin verða líka á slysadeildinni Skemmtileg saga
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.4.2008 kl. 00:55
Þú nærð svo sannarlega að koma orðum að þessu svo maður þarf ekki endilega að vera "you had to be there"
Örugglega margar skemmtilegar sögur af slysadeildinni.
Arkitekt sem ég vinn með er af erlendu bergi brotinn en talar alltaf íslenskuna....mis vel en hann reynir þó.
Eitt skipti þurfti hann að kvitta á teikningar og það kemur mjög fín frú til okkar á skrifstofuna. Hún ók um á 12 milljón króna jeppa, gekk í ekta pels, fallegri pils-dragt og var skreytt eins og jólatré um háls, eyru og fingur. Fína frúin með skær rauða varalitinn spyr eftir arkitektinum góða og bendi ég henni á hann. Hann rýkur upp úr sætinu sínu og kallar hátt og skýrt yfir hópinn: "já...ég skal skriða uppundir"
Ég á MARGAR svona sögur í pokahorninu
Helga Linnet, 1.4.2008 kl. 11:36
Haha, endilega komdu með fleiri sögur, Helga!! Ég elska svona aulasögur og finnst ógeðslega gaman að hlæja eins og vitleysingur að alls konar vitleysu. Kannski ég sé með smá aulahúmor...... ?
Lilja G. Bolladóttir, 1.4.2008 kl. 20:43
-þessi "...skriða uppundir" var nú alveg ferlega góður til viðbótar við slysfarasögu útlenda mannsins sem sturtað var á gófið....lét mig muna eftir húsgleðskap í eina tíð þar sem með var góður vinur í hjólastól....þegar ákveðið var snemma nætur að fara út á pall til að horfa á sólina setjast á himneskir nóttu...tóku tvær hjálpsama sig til og renndu þeim fatlaða út um garðdyrnar en e.t.v. hefur hvítvínið slæpt sjónina á því að þröskuldurinn var í hærra lagi þannig að stóllinn stoppaði, hallaðis mikið fram og þeim fatlaða var sturtað út um garðdyrnar og endað kylliflatur á trépallinu....líklega var það koníakið sem hjálpaði fórnarlambinu við að hlæja manna mest liggjandi flatur fyrir neðan sturtustólinn...en svona er nú lífið alltaf broslegt...!
1232 (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.