7.3.2008 | 01:16
Það er gott að eiga góða foreldra !!!
Seinni partinn í dag fór ég og keypti inn fyrir fermingarskreytingar. Drengurinn vill hafa blátt og lime-grænt, svo í þeim stíl var verslað...... kerti, dúkaborðar, gerviblóm, lögð inn pöntun fyrir ferskum blómum, keyptir bakkar undir kerti, oasis-kubbar og margt fleira.
Ég get nú alveg komist í smá "ecstasy", þegar ég kemst í svona innkaupaleiðangra - mig langar í allt, og allt sem glitrar og glóir nær athygli minni..... Ég veit vel að sonurinn fílar ekkert silfrað með glitri en mig langar bara svo mikið að kaupa allt þetta dót Ég ætti kannski að taka að mér að skreyta annarra manna veislur, því ég hef ótal þemu í gangi í höfðinu, get séð fyrir mér hvíta brúðkaupið, bleiku ferminguna, hráu ferminguna, ferminguna í steinastílnum og margt fleira. Það liggur við að mig langi til að ferma oftar en einu sinni núna.....
Móðir mín var með, mér til halds og trausts. Veislan fer fram á heimili foreldra minna, svo ég hélt að hún hefði betri yfirsýn yfir, hvað vantaði og hvernig borðskrauti skyldi háttað - líka var hún góð í að bremsa mig af í mínum loftköstulum. Já, þegar ég kemst á flug, þá flýg ég!!!
En þegar við komum að afgreiðsluborðinu í Garðheimum, kom næstum til slagsmála milli okkar mæðgna. Hún ÆTLAÐI að borga, þau pabbi voru búin að ákveða að styrkja okkur á ýmsan hátt í fermingunni og þetta var einn af þeim hlutum sem hún ætlaði bara að gera!!! Mér fannst það dauðpínlegt..... þetta var ekki það sem ég hafði í huga, þegar ég bað hana að vera með mér að velja borðskreytingar. Og þarna var ég búin að vandra um Garðheima eins og fín frú, tínandi hitt og þetta ofan í körfuna - kannski myndi ég nota þetta, kannski ekki.... en allavega betra að hafa þetta líka með, og já, þetta líka.... osfrv. Hinir og þessir smáhlutir fengu að fjúka með í körfuna, svona fyrst ég var að þessu á annað borð Það er sko alveg öruggt að ég hefði verslað nákvæmlega eins hefði ég verið alein og borgandi, en aðeins (mikið) öðruvísi, hefði mig grunað að mamma ætlaði að taka upp kortið í lok verslunartúrsins.
Mig langaði að skila helmingnum af því sem ég hafði valið, þegar mamma heimtaði að fá að borga. Ég hefði þá kannski getað tekið aðeins ódýrari kerti, ekki þetta skrautdót, ég þurfti örugglega ekkert þessa efnisborða..... ég hefði bara valið allt öðru vísi ef ég hefði vitað það. Úff, hvað mér fannst þetta óþægilegt.
En á sama tíma hugsaði ég, vá, hvað ég er heppin að eiga svona frábæra foreldra, sem alltaf eru til staðar fyrir mig og son minn, eru alltaf viljug til að passa þegar ég er að vinna, eru til í að leggja hús undir fermingarveislu unglingsins, færa til húsgögn og hjálpa til með matargerð, eyða dögunum fyrir ferminguna í pælingar með mér og tilfæringar heima hjá sér og á allan hátt bjóða fram aðstoð sína - algjörlega óumbeðin og af fúsasta vilja. Þetta hlýtur að vera skilyrðislaus ást - og hún er það þá líklega á báða bóga
Athugasemdir
Þau njóta þess örugglega að hjálpa þér
Hólmdís Hjartardóttir, 7.3.2008 kl. 01:22
Svona eiga foreldrar að vera, alltaf að hjálpa börnunum sínum Það er sama hve gamall maður er mamma og pabbi eru til staðar, það er gott að vita. Kveðja Jóna Kolla
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.3.2008 kl. 01:26
Þetta er t.d. einn af þeim hlutum, sem maður á að muna að þakka fyrir dags daglega í staðinn fyrir að kvarta..... og ég geri það oft, en yfirleitt aldrei svo þau heyri. Ég ætla að bæta úr þessu, láta foreldra mína heyra það og vita hversu miklu þau skipta okkur mæðginin og hve mikið ég er þakklát fyrir allt það sem þau eru alltaf að gera fyrir mig/okkur.
Lilja G. Bolladóttir, 7.3.2008 kl. 02:11
Yndislegt að eiga svona foreldra. Ég ólst upp við svona og kann vel að meta það og vona að ég geti stutt mín börn svona. Mamma er svona við okkur öll systkynin, nú tvöfalt, því hún gerir fyrir pabba líka
Guðrún Þorleifs, 7.3.2008 kl. 08:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.