19.2.2008 | 19:55
Það var nú kominn tími til!!!
Það þykir mér nú kominn tími til að ræða lestarsamgöngur á landinu, og þá helst á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil vel að frekar óhagkvæmt sé að leggja brautarteina vítt og breitt um landið, en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjarlægðir eru orðnar ansi langar og umferðaræðar mjög tepptar á ákveðnum tímapunktum - þar er þetta í raun eina lausnin til að leysa þá þungu umferð sem plagar okkur höfuðborgarbúa. Ekki fleiri akreinar, hringtorg eða mislæg gatnamót heldur lestarkerfi. Ég er alveg hissa á því að þessi möguleiki hafi aldrei verið skoðaður fyrr.
Til þess að þetta yrði hagkvæmt, þyrfti þó stór hluti höfuðborgarbúa að leggja bílum sínum, a.m.k. að hluta, og ferðast með lestum til og frá vinnu og/eða skóla. Í Evrópu er þetta alls ekki óalgengt, þ.e. að eiga bíl en ferðast samt sem áður með lestum til og frá vinnu, bíllinn er þá meira notaður um helgar og í lengri (út fyrir bæinn) og styttri keyrslum (í næsta nágrenni). Í Kaupmannahöfn, London, París og öðrum stórborgum sér maður allar tegundir fólks í lestunum; það er skólafólkið, skrifstofumenn í jakkafötum með fartölvurnar sínar, framakonur í drögtum með innkaupapoka á leið heim úr vinnu, fólk á leið á djammið, á leið á fótboltaleiki og allir þar fyrir utan. Fólkið þar veit sem er, að þú ert einfaldlega miklu fljótari að ferðast með lest sem þarf ekki að stoppa á umferðarljósum eða taka tillit til einstefnugatna, heldur keyrir bara þvert yfir (eða undir) allt saman.
Þegar ég bjó í Danmörku fannst fólki bara heimskulegt að ætla út á "motorvejen" á ákveðnum tímum. Til hvers að sitja fastur þar í 2 klukkutíma, ef þú gast farið með lest á 40 mínútum og slappað af á meðan, lesið blöðin, drukkið kaffi og borðað rúnnstykkið þitt? Fyrir mér voru þetta stundum einu stundirnar sem ég hafði fyrir sjálfa mig í friði yfir daginn, annaðhvort til að lesa eða tala í símann. Og er það ekki það sem við öll höfum þörf fyrir í dag, meiri tíma fyrir okkur sjálf í einrúmi??
Vilja láta skoða hagkvæmi lestarsamgangna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessu hef ég verið sammála lengi vel. Gott blogg hjá þér. Umræðan um byggð í Vatnsmýri og flugið til Keflavíkur er í raun blaður um forgang ansi neðarlega á lista. Þar fyrir utan er Vatnsmýrarflugvöllur mikilvægur öryggislega séð. Það var bara um daginn að flugleiðaþotur lentu þar af því ekki var hægt að lenda í Keflavík vegna veðurs. Hvað ætli farþegum hefði fundist um að ekki hafa haft Vatnsmýrarflugvöll?
Ólafur Þórðarson, 19.2.2008 kl. 23:19
Sammála þér - að ógleymdu sjúkrafluginu, en þær flugvélar lenda allar á Reykjavíkurflugvelli með veikt fólk, sem þarf að komast fljótlega á annan hvorn spítalann í Reykjavík.
Byggð í Vatnsmýrinni??? Er það ekki þar sem oft flýtur upp úr klósettum í rigningarveðrum og flæðir inn í kjallara???
Lilja G. Bolladóttir, 19.2.2008 kl. 23:38
Oj, já þú meinar það. Þeir nota það þá sem afsökun fyrir að byggja háhýsi þarna.
Ólafur Þórðarson, 20.2.2008 kl. 02:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.