7.1.2008 | 18:58
Prestinum heilsað með beruðum afturendanum!!
Ég fór í svo skemmtilegt brúðkaup sl. laugadagskvöld, ég held barasta að þetta sé eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd - verður flokkað sem brúðkaup aldarinnar þar til annað sannast..... eða þar til ég giftist einhvern tímann sjálf.
Það voru vinir mínir Helga og Einar sem gengu í það heilaga, Helga var svo falleg brúður og allt tókst eins og best var á kosið, líka ræðan sem ég hélt fyrir þau hjón. Reyndar lenti ég í smá óhappi, sem gæti varla hafa hent aðra manneskju og kom engum sem til mín þekktu í brúðkaupinu, hið minnsta á óvart. Þegar ég var að renna upp kjólnum mínum áður en ég fór af stað, stóð rennilásinn eitthvað aðeins á sér. Það er ekki auðvelt að vera single kona og þurfa að renna upp þröngum kjól á bakinu, svo ég þurfti að beita ýmsum hnykkingum og skrekkjum til að ná rennilásnum langleiðina upp...... það má vera að ég hafi rykkt eitthvað aðeins of fast í lásinn í hamaganginum. Bróðir minn kom til að keyra mig í kirkjuna og kláraði að renna kjólnum alveg upp fyrir mig. Hann benti mér á að það væri smá glufa í rennilásnum. Ég hélt nú að það gerði ekki mikið til, þar sem ég ætlaði að vera í svokölluðum ermum yfir kjólnum, svo smá glufa í rennilásnum myndi ekki sjást neitt. Eitthvað hefur glufan stækkað í bílnum á leiðinni, því þegar ég fór úr kápunni í kirkjunni, benti presturinn mér vinsamlega á, að ég væri eiginlega bara opin niður á rófubein Þetta var nú ekki gæfuleg byrjun á kvöldinu og ekki beinlínis kurteisisleg kveðja til prestsins, að snúa svona beruðum afturendanum að henni, en þetta bjargaðist með aðstoð einnar vinkonunnar á staðnum. Hún var með svarta fínlega slæðu, með silfurþráðum í og þessa slæðu var hægt að binda um mig miðja og hún féll svona ágætlega inn í neðri hluta kjólsins að ég gat hreyft mig frjálslega um salinn og snúið mér á alla kanta á dansgólfinu.
Reyndar stóð einn maður öðrum fremur á dansgólfinu þetta kvöld og það var faðir brúðgumans, sem er á níræðisaldri. Það var nú ekki að sjá á honum, þar sem hann sveiflaði dömunum um dansgólfið og var gersamlega óþreytandi. Ég tók einn góðan snúning með honum, snúning sem entist í gegnum rúmlega þrjú ansi fjörug lög. Ég var aðeins farin að svitna og stakk upp á stuttri pásu, aðallega hafði ég, hjúkrunarfræðingurinn, áhyggjur af hjartastarfsemi gamla mannsins, en hann hélt nú ekki...... ég fékk mér sæti með púlsinn nett hækkaðan og þörf fyrir að væta kverkarnar, en sá gamli sneri sér bara að annarri dömu og hélt áfram án þess að blikka auga! Þetta kalla ég nú mann í lagi!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.