Um daginn og veginn og tjörnina

Jæja, búið að vera nóg að gera hjá Liljunni. Drengurinn ennþá í útlöndum, og ég bara búin að vera að vinna og vinna og vinna. Nú er hann búinn að vera í burtu í 9 daga, og ég var að fatta það þegar ég setti í þvottavél í dag, að þetta var fyrsta vélin sem ég setti í síðan hann fór !! - og þetta voru meira að segja rúmfötin mín sem ég var að þvo í dag, svo það telst nú ekki með sem svona hversdagsþvottur. En ég er náttúrlega ekki alltaf úti að leika mér og að leika mér að því að brjóta ís á pollum í strigaskóm, en ekki kuldaskóm, af því að það er ekki nógu coooolll.

Jæja, fór út á lífið með Maju pæju á laugadagskvöldinu fyrir viku síðan - vá, er það virkilega vika síðan!! Það var bara mjög gaman, kom alveg á óvart, þar sem ég var ekki beint í djammgírnum áður en ég fór út. Ég hitti marga, en týndi auðvitað Maríu, en það gerist nú yfirleitt þegar við förum saman. HItti svo Helgu og Einar yfir á Rex, en þar var eitthvað partý sem var beint í framhaldi af afmæli sem einhver flugþjónn hélt. Mjög gaman líka, því venjulega er ekki sérstaklega gaman á Rex, ekki svo ég muni nýlega. Kom samt frekar seint heim, nógu seint til að mæta Fréttablaðs-stráknum í forstofunni - jæja, ég gat þá kippt blaðinu með mér upp en hafði nú ekki orku til að lesa það fyrr en á mánudeginum. Ekki af því að ég svaf allan daginn, heldur af því að ég fór að vinna seinni partinn á sunnudeginu og vann fram á mánudagsmorgun.

Á miðvikudaginn byrjaði ég svo í skólanum, í kúrs í heilsuhagfræði ........ já sumir mega vel hlægja og hugsa um mig að læra hagfræði. Þótt ég hafi nú ekki beint brillerað í hagfræðinni í Verzló, er ekki efi í mínum huga, að ég get lært þetta fag eins og allir aðrir, bara þegar mig langar til þess. Ég var nú heldur ekkert of sleip í stærðfræðinni í Verzló, ég held ég hafi fengið 2 á stúdentsprófi, en það var bara vegna þess að ég hafði engan áhuga á stærðfræði. Nokkrum árum seinna tók ég stærðfræði í Verkfræðiháskóla í Danmörku, tók hana þá upp á sama plan og stærðfræðideildirnar í MR og Verzló gera, og þá fékk ég nú 9 - HAHA. Þótt ég hafi ekki skilið kennarann í næstum 3 mánuði, þá lærði ég bara eftir bókinni og sýnidæmunum. Ef ég nú klára masterinn í þessu fagi, mun ég kallast Heilsuhagfræðingur, og þá held ég að ég verði að senda gamla hagfræðikennaranum mínum, honum Valdimari Hergeirssyni, afrit af skirteininu mínu - bara svona að gamni. Því hann hafði nú oft ekki mikla trú á mér í þessu fagi. Hann sagði meira að segja einu sinni við mig: "Og þú, Lilja, sem átt svona kláran hagfræðing sem pabba." Smile

Jæja, við sjáum til, sjáum til. Eftir skólann á miðvikudagskvöldið ákvað ég að ganga niður í bæ, ætlaði að hitta Maríu vinkonu á kaffihúsi þar. Ég gekk framhjá háskólabyggingunum, eftir Hringbrautinni og svo Tjarnargötu og Bjarkargötu, og það var svo fallegt að ganga þarna. Snjór yfir öllu og meira að segja tvær turtildúfur á skautum á tjörninni - mig langar á skauta. Þetta er nú með fallegri stöðum að ganga á í veðri sem þessu. Ákvað að bíða eftir Maju í Iðuhúsinu, alltaf gaman að skoða bækur og svo gæti ég fengið mér cappucino uppi ef hún myndi láta bíða lengi eftir sér. Hitti þá Hjálmar, gamla buddy, einn af Pizza Hut staffinu frá því í gamla daga. Hef sko ekki séð hann í öruggleg 10 ár, en það var ekki að heyra. Við kjöftuðum heillengi og svo þegar María kom, kjöftuðum við enn lengur, þannig að við Maja eyddum eiginlega öllum kaffihúsatímanum okkar þarna, standandi fyrir framan afgreiðsluborðið hans (hann er sko að vinna þarna). Ég átti að mæta á næturvakt kl. 23, svo við María rétt náðum að fá okkur Caffe latte á Café Paris og svo pylsur á BB, áður en ég þurfti að þjóta. En gaman samt.

Daginn eftir fór ég í jarðaförina hennar Jóhönnu Björnsdóttur, læknis. Hún lést eftir hestaslys daginn fyrir gamlársdag, mjög sorglegt. Það var svo mikið af fólki í kirkjunni, að margir stóðu - í sjálfri Hallgrímskirkju. Jóhanna var yndisleg kona, eins og auðvitað allir vita sem þekktu hana. Ég á alltaf pínu bágt með mig í jarðaförum, hvort sem ég þekkti viðkomandi mikið eða lítið, jafnvel þótt ég sé þar til að sýna samúð mína öðrum. Þetta gekk þó ágætlega hjá mér þar til kistan var borin út, það var svo sorglegt að hugsa að hún lægi í kistunni, og að sjá dætur hennar, sem á rúmum 5 árum eru búnar að missa báða foreldra sína af slysförum. Þarna gat ég ekki haldið aftur af mér lengur.

Mér finnst undanfarið, svo mörg hrikaleg slys hafa gerst, og mér finnst að við eigum virkilega að fara að vera þakklát fyrir það sem við höfum og njóta þess, í staðinn fyrir stöðugt að æða áfram og lengra í lífsgæðakapphlaupinu, þar sem hlutir eins og brotin nögl eru nóg til að eyðileggja daginn, því það þarf auðvitað að laga þessa nögl sem fyrst. Ég ætla allavega að reyna að forgangsraða öðruvísi, setja tímann heima með syni mínum ofar því að eignast nýjan sjónvarpsskáp eða nýja hátalara. Við megum þakka fyrir hvern dag sem við eigum, og það er ekki víst að við myndum vilja liggja t.d. á morgun á banalegu, og hafa eytt síðasta deginum eins og við eyddum deginum í dag. Ég ætla að hafa þetta á bak við eyrað héðan í frá.

Ég tók maraþon svefndag yfir helgina, svaf í heila 14 tíma í einum rykk, án þess einu sinni að opna auga. Hún var náttúrlega kærkomin þessi hvíld, þar sem lítið hafði farið fyrir henni innan um allar næturvaktirnar og allt hitt sem ég þurfti að gera í síðustu viku. En ég bætti um betur, var vakandi í ca. 2 tíma og svaf svo aftur í aðra 10!! Var nú hálfringluð þegar ég vaknaði seint eftir hádegi í dag, en dreif mig og reif allt af rúminu hjá mér, viðraði sængurnar og setti hreint á rúmið (og nýtt, því ég fékk ný rúmföt í jólagjöf, ummm, hlakka til að fara að sofa í kvöld) Fór svo í langan göngutúr um mitt elskulega Breiðholt og kom stálslgin inn - mundi þá að ég hafði líklega ekki borðað neitt síðan aðfaranótt laugadagsins, svo úr því varð að bæta. Það var bara ekkert gott til, því það var eins með verslunarferðir og þvottinn - það hafði ekkert verið keypt inn síðan unglingurinn fór til Ameríku. Úff, nú skil ég piparsveinana, sem alltaf eru með tóman ísskáp og jafnvel eldhúsþurrkur til að skeina sér á klósettinu Cool Jæja, þetta bjargaðist með brauði úr frystinum, og svo er ég búin að liggja og lesa Konungsbók Arnaldar Indriðasonar - mjög góð, finnst mér! Ég ætlaði reyndar í bíó í kvöld, en þetta var miklu betra, rólegt kvöld heima í náttfötunum með bók, tv, kók og nammi (því nóg er til af sælgæti á þessu heimili, jólanammið flæðir út úr nammiskúffunni, þar sem við mæðginin erum ekki miklir nammigrísir). Ég náði meira að segja að ryksuga stigaganginn, en það er aðeins vika síðan ég átti að skila honum af mér......

Á morgun erum við systurnar að fara í lunch hjá Önnu frænku, sem er móðursystir mín en gengur ekki undir öðru nafni í allri fjölskyldunni en Anna frænka. Hún kom til landsins á gamlársdag svo það er kominn tími á að hitta hana. Tvíburarnir Ásthildur og Anna Maja koma líka, svo það verður örugglega gaman - ég hlakka til Smile Um kvöldið ætlum við systkinin að hittast og undirbúa eitthvað fyrir afmælið hans pabba, en hann verður 60 ára í febrúar, kallinn. Við ætlum að semja ræðu og útbúa kannski slide show eða finna upp á einhverju sniðugu. Ég ætlaði að reyna að ná fyrirlestri á LSH um "kulnun hjúkrunarfræðinga í starfi", myndi langa til að heyra þennan fyrirlestur en hann verður að víkja ef lunchinn dregst. Ég get nú ekki eytt hverjum einasta degi inná þessum spítala, þótt mér þyki vinnan mín skemmtileg!!

Jæja, best að fara að kúra sig í hreina rúminu mínu í nýju rúmfötunum, namminamm.

Þangað til næst, take care!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband