Afborganir til LÍN 1. sept. ....ráðamenn þjóðarinnar, hvað eruð þið að hugsa??.... eða eruð þið að hugsa yfir höfuð???

Sumarið er tíminn, segir Bubbi, en ég segi að haustið sé tíminn. Það er allavega minn tími. Þegar það fer að hausta færist kyrrð og ró yfir mína sál, pressan á útivist fer minnkandi og það fer að verða leyfilegt að kúra bara undir teppi á sófanum með kertaljós alls staðar. Og mér finnst það æðislegt.

Á haustin er maður líka að verða vel mettur af grillmat og allavega ég fer að hlakka til þess að elda þennan venjulega gamaldags heimilismat eins og kjötbollur í karrý.... eða í brúnni sósu með kartöflumús, fisk í raspi, spaghetti og kjötsósu, hrísgrjónagraut og lifrarpylsu, kjötsúpu og pottrétti með hrísgrjónum.

Á haustin kemst rútínan aftur í gang, skólinn byrjar, unglingurinn hættir að vaka fram eftir, ég fer að lesa bækur undir teppi í sófanum og svo getur maður skipt frá hvítvíni yfir í rauðvín þegar mann langar að hugga sig. Af því að hver drekkur hvítvín, í svartamyrkri með beljandi rigningu eða stórhríð..... ?? Tounge

Haustið hefur þó löngum haft einn leiðinlegan fylgifisk og það er afborgunin af námslánunum sem alltaf kemur með gjalddaga 1. september. Og líka núna. Og þetta er ÞUNGA afborgunin, sem er tekjutengd, þannig að hún getur alveg verið einhver summa sem telur í hundruðum þúsunda en ekki tugum.... Og þessi greiðsluseðill valt einmitt inn í póstkassann minn í dag. Og eins og kvíða- og áhyggjumanneskju er von og vísa fékk ég náttúrlega nettan sting í magann, bara við það að sjá umslag merkt LÍN í bréfabunkanum mínum. Eins og strútnum sæmir, var ég að sjálfsögðu búin að gleyma að afborgunin af námslánunum væri þessi mánaðarmót. Og ég horfði á umslagið í nokkra klukkutíma áður en ég tók af skarið og opnaði það..... því að sjálfsögðu átti ég ekki rassgat fyrir afborguninni. Ég þurfti að fá mér kaffi og kveikja mér í sígarettu áður en ég settist niður, andaði djúpt og reif upp bréfið...... "Fuck, fuck, fuck", hvíslaði ég með sjálfri mér og fórnaði höndum. Og einu sinni enn: "FUCK!" .....ég kveikti mér í annarri og skoðaði seðilinn vel og vandlega þar til allt í einu rann upp fyrir mér ljós: AMEN. GREIÐSLUÞJÓNUSTAN InLove

Auðvitað tekur greiðsluþjónusta mín í Landsbankanum reikninginn. Ég er nú búin að borga allt árið heilan helv... slatta á mánuði, einmitt til þess að mæta afborgunum eins og þessum, .......svo, allar áhyggjur burt, eins og hendi væri veifað. Ég var alveg búin að gleyma því að Lánasjóðurinn væri inni í þessarri þjónustu minni. En oh my God, (og ég veit að það er bannað að leggja sér Guðs orð til hégóma ..... eða einhvers.....), anyway þá fyrst þyngdist ég um 40 kíló og svo léttist um þau aftur á nokkrum klukkutímum, geri aðrir betur. En ég lofa þá konu sem er þjónustufulltrúi minn í Landsbankanum og skal fullyrða, að aldrei hefur önnur eins dís starfað við þessi mál, hún hefur gjörsamlega breytt lífi mínu frá því að hún fékk mig til að fara í þessa greiðsluþjónustu Smile

Fór samt að skoða þennan seðil frá LÍN betur, og fæ ekki betur séð en ég sé að skulda 1,3 milljónir í verðbætur á lánin mín frá þeim. SHIT! Nú er ekki eins og námsmenn séu að lifa lúxuslífi á þessum námslánum, ég var á mínum lánum frá 1996 og fékk 80.000 kr. á mánuði. Á þessu átti ég að lifa. Ég var einstæð móðir með eitt barn, í útlöndum, (þar af leiðandi ekki kostur á aðstoð frá aðstandendum við pössun, skyldi maður vilja vinna eitthvað með náminu, enda lækka allar tekjur hvorteðer rétt þinn á námsláni), átti að borga húsaleigu, (sem var á mínum námstíma lægst um 36.000 kr og hæst 49.000 kr. (Ísk)), mat, skólabækur, föt fyrir bæði mig og afkvæmið, (og í hans tilfelli var auðvitað um að ræða vetrarskó, vetrargalla, úlpu, gúmmístígvél, inniskó, sumarskó, sandala, sumarjakka osfrv. hvert einasta ár), ferðakostnað með lestum og strætó áttu lánin einnig að dekka, rafmagn og hita (sem ekki er gefins í Danmörku!!) og allt annað sem maður þarf til þess að lifa. Auk þess fékk ég lán fyrir einni ferð til Íslands á ári, en ég nýtti þær ekki allar. Samt sem áður skuldaði ég um 4 milljónir eftir að námi lauk og núna mörgum árum seinna er skuldin komin upp í 5.622.730.- ....!!! Samt er ég búin að vera að borga af þessum lánum því sem nemur rúmlegum mánaðarlaunum mínum á ári, í heil 5 ár!!!

Á þetta fyrirkomulag að virka hvetjandi fyrir ungmenni að hefja háskólanám??? Af hverju í ósköpunum eru þessi lán verðtryggð?? Getur ríkið ekki séð af þessarri verðtryggingu með því sjónarmiði að afla auðs fyrir íslenska þjóðfélagið, sem að sjálfsögðu felst í því að sem flestir mennti sig? Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum er það viðurkennd fjárfesting hvers ríkis, að gefa sem flestum færi á að mennta sig á háskólastigi. Í því fellst auður og framtíð þjóðfélagsins til lengri tíma litið. En nei, íslenska ríkið ætlar að græða á því að hafa lánað slippum og snauðum námsmönnum fé til að mennta sig, græða á því svo um munar. 1,3 milljónir hafa bæst við mín námslán með verðtryggingunni!!!!

Og auk þess, þegar þú kemur úr námi og hefur ekkert á milli handanna annað en einbeittan vilja til þess að vinna þér inn pening, þá verður þér refsað svo um nemur. Ef þú vinnur svo, svo mikið, þá skalt þú "skíta-ný-skriðin-úr-háskóla-auminginn" þinn borga hátekjuskatt, þú færð lægri húsaleigubætur og vaxtabætur, barnabæturnar þínar verða að engu plús það að afborganir þínar af námslánunum þínum verða þér ofviða, vegna þess að allt er þetta tekjutengt. Þú færð hvergi séns í þessu landi til þess að koma undir þig fótunum. Þótt svo að þú sért að borga þeim mun meira til ríkisins með þinni miklu vinnu, ertu verðlaunaður með rassskellingu. Er þetta ekki bara að hvetja til þess, að við öll höldum okkur innan ákveðins tekjuramma, þar sem við borgum sem lægstan skatt og fáum sem mest á móti frá ríkinu? Ég er búin að reikna þetta út, og það borgar sig fyrir mig að vinna minna, borga minna til ríkisins í formi skatta, fá meira í barnabætur og borga minna af námslánum. Auk þess sem ég á þá meiri frítíma. Er ekki eitthvað að hjá ráðamönnum þessarar þjóðar???

Einhverju sinni var í félagsmálaráðuneytinu maður, sem vildi breyta þessu. Hann vildi auka sveigjanleika þessarrar svokallaðrar millistéttar í þjóðfélaginu, stéttin sem er nýkomin úr námi, á ekki neitt en vinnur sér inn dágóðar tekjur á pappírnum, þetta er unga nýmenntaða stéttin sem vinnur hörðum höndum að því að koma sér upp húsnæði, bíl og öðru. Stéttin sem er með ung börn á framfæri, börnin sem eiga eftir að sjá um þetta þjóðfélag seinna meir. Þessi stétt er að vinna rassgatið út úr buxunum á sér til þess að koma sér fyrir í Ófjölskylduvænu þjóðfélagi en fær bara að launum, spark í rassinn frá hinu opinbera, og þá er ég ekki að tala um alla "ný"útskrifuðu viðskiptafræðingana hjá KB banka..... Hvar er þessi hugsjón núna þegar þessi maður fór frá Félagsmálaráðuneytinu? Hver hefur tekið hana upp? Sá sem mun gera það, mun fá mitt atkvæði í næstu kosningum....

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Bara yfir höfuð, Lilja! - Hvers vegna er þessi lánskjaravísitala til? - Hvers vegna ert þú að borga hærra námslán núna af því að frá því þú hættir námi hefur kjötverð á Íslandi hækkað, brauðverð, brennivín, tóbak, bensín, fiskur, skór, skyrtur, buxur og bara nefndu það. Svona er grunnurinn fyrir lánskjaravísitölunni. ....Og núna..... þegar gengi lækkar verðbólga eykst og allt hækkar....þá...eru þeir sem skulda (um 70% þjóðarinnar)... sem blæða......Hinir, sem eiga pening græða...Þeir stjórna landinu og þess vegna er þetta svona....Hverjir eru að kjósa þá????? - Hafðu það sem best

Haraldur Bjarnason, 27.8.2008 kl. 05:39

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Stórasta land í heimi er ekki fjölskylduvænt.

Nei hvers vegna hækka lánin manns stöðugt.  Það þarf miklu  að breyta hér.

Hólmdís Hjartardóttir, 27.8.2008 kl. 09:44

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Allir í frystihúsið bara - eða er það ekki það sem koma skal?

Fruss

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 11:07

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Þetta er með öllu óhugsandi að hafa námslánin svona - hækka bara og hækka. Ef launin færu hækkandi  og hækkandi......?

Sigrún Óskars, 27.8.2008 kl. 12:04

5 identicon

Vá hvað þú ert mikill snilldarpennin mússímússín mín. Er svoooo sammála þér. Var einmitt að fá minn LÍN reikning inn um dyrnar í gær. Þökk sé guði fyrir greiðsluþjónustuna, en OMG hvað ég er komin með mikið ógeð á því hvað ríkið græðir endalaust á manni. Til hvers að vera að borga og borga af lánum, taka fullt af aukavinnu til að geta borgað af þessum lánun, því afborganirnar hækka og hækka, nei......þá bara hækkar höfuðstóll lánsins líka, um mörg hundruð þúsund á ári!!!!

Nei takk, hvað ætlum við að láta bjóða okkur þetta lengi?

Ég er flutt til Jamaca, og ætla að vinna sem barþjónn á strandarbar.

Skítt með Ísland, það er gallað, bilað, dáið (Magnús).

Gunna (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 12:50

6 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Okey, Haraldur, ég sá pilluna frá þér, tók hana og gleypti hana. Skil skotið

Og þið hin, já að sjálfsögðu er þetta rugl. Eina sem ég "hugga" mig við er það, að með þessu framhaldi á ég líklega aldrei eftir að greiða niður mín námslán svo lengi sem ég lifi, þótt ég verði áttræð. Og þessi lán erfast ekki heldur deyja út með lántakandanum. Svo ætli ég sé ekki að horfa fram á það, að það sem eftir er borga ég ein mánaðarlaun á ári til LÍN án þess að nokkurn tímann sjáist munur á lánunum..... þetta er víst það sem maður þarf að lifa með. Ekki ætla ég allavega að taka mig til og greiða þau niður á einu bretti, skyldi ég vinna í lottó. Ónei.

Lilja G. Bolladóttir, 27.8.2008 kl. 20:18

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er ómenntuð, láglaunamanneskja og hef það bara alveg ágætt.  Ég fæ mínar barnabætur óskertar og ummönnunarbætur með syni mínum.  Sem er nýtilkomið eftir greininguna á honum, hann er með ódæmigerða einhverfu og þarf stuðning.  Svo verð ég að viðurkenna að ég er ógeðslega sparsöm og nýtin með eindæmum.  Ég reyni að spara fyrir einni utanlandsferð á hverju ári það er það eina sem ég leyfi mér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2008 kl. 01:39

8 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Anna Ragna Alexandersdóttir, 1.9.2008 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband