Útigangsmenn Reykjavíkur, velferðarráð og við hin öll.......

Ég er eitthvað löt við að skrifa þessa dagana, enda bæði haft nóg að gera og svo einhvernveginn hef ég ekki nennt að blogga neitt. Eitt mál hefur þó brunnið á mér í þónokkra daga núna, og ætla ég að láta verða af því að tala um það.

Það er viðtalið við útigangsmanninn Sigurð Gretti, sem var í Íslandi í dag fyrir ca. viku síðan. Mér fannst þetta átakanlegt að horfa á og ömurlegur raunveruleiki margra manna, kvenna og ungmenna í þessarri höfuðborg okkar Íslendinga, og líklega líka í fleiri bæjarfélögum. Raunveruleiki sem við ættum öll að skammast okkar fyrir að skuli viðgangast og raunveruleiki sem meirihluti Reykjavíkurbúa lokar augunum fyrir.

Ég hef gert óformlega könnun á áliti manna/kvenna á útigangsfólki, þ.e. að ég hef spurgt nánast flesta sem ég hef talað við á þessarri viku, hvort þau hafi séð viðtalið og svo hlerað viðbrögð þeirra og skoðun. Fólk virðist skiptast í þrjá hópa þannig, að sumum finnst þetta ólíðandi og svartur blettur á annars okkar ágæta velferðarkerfi, að fólk skuli þurfa að finna sér hita við sorpgáma í miðbæ Reykjavíkur á meðan borgarstjórnin situr sveitt við að skipta um meirihluta aftur og aftur. Þessum hópi fólks finnst það sjálfsögð skylda okkar meðborgara að hugsa um og hlúa að okkar minnsta bróður. Öðrum finnst þessir útigangsmenn ekki vera okkar minnsti bróðir, að þeir geti sjálfum sér um kennt, það sé ekki á okkar ábyrgð að sjá þeim fyrir húsaskjóli og þeir hafi sjálfir komið sér í þessa aðstöðu. Enn aðrir eru áhugalausir um þetta málefni og hafa þar af leiðandi ekki myndað sér neina skoðun. Sá hópur er sá versti, að mínu mati, vegna þess að mér finnst það mesta sinnuleysið, að hafa ekki einu sinni skoðun á því sem gerist í kringum mann í þjóðfélaginu. Þessu fólki er bara alveg sama hvernig hlutirnir eru, svo lengi sem það hefur aðgang að leikskólaplássi og kemst í sína naglasnyrtingu og líkamsrækt. Ömurleiki náungans skiptir þetta fólk engu máli, svo lengi sem það pissar ekki í garðinn þeirra eða sefur á gangstéttinni sem þau eiga leið um. Þessu fólki vorkenni ég mest. Gott að vera lokaður inni í glerklukku og upplifa bara sinn eigin litla heim. See no evil and hear no evil.....

Ég tilheyri fyrst nefnda hópnum. Mér finnst það ömurlegt að hluti af okkar meðborgurum skuli þurfa að hírast á götum úti á köldum og dimmum vetrarnóttum. Þetta velur sér enginn sem hlutskipti í lífinu og hlýtur hvert hugsandi mannsbarn að sjá að þarna hefur einhver ógæfa orðið þess valdandi að þetta fólk hefur hafnað í þessarri stöðu. Ógæfu er hægt að skilgreina á margan hátt, allt frá áföllum til geðsjúkdóma og fíknisjúkdóma. En.... þetta gæti verið bróðir þinn, eða mamma þín, systir eða vinur..... það veit það enginn fyrirfram hverskonar tökum áfengi og fíkniefni eiga eftir að ná á fólki, ekki einu sinni á þér sjálfum, fyrr en maður reynir. Við erum misjöfn að uppbyggingu að öllu leyti, bæði andlegu og líkamlegu. En við myndum aldrei láta of feitan mann sofa á götunni, bara vegna þess að hann væri með offitu sinni búinn að afla sér sykursýki, hjarta-og æðasjúkdóma, stoðkerfisvandamál, þunglyndi, félagsfælni og margt fleira. Þótt hann sé búinn að éta þetta allt utan á sig sjálfur. Getur sjálfum sér um kennt..... Reykingamaðurinn sem veldur sjálfum sér lungnaþembu, mögulega lungnakrabbameini, í öllu falli mæði og lélegu úthaldi, oft sykursýki, æðasjúkdómum, jafnvel heilablóðfalli og svo framvegis.... myndum við segja að það væri í lagi að hann svæfi úti, vegna þess að þetta sé hvort sem er allt honum sjálfum að kenna???

Nei, við getum það ekki. Við erum búin að byggja upp ákveðið velferðar- og heilbrigðiskerfi og innan þessa kerfis er alkoholismi skilgreindur jafn mikið sem sjúkdómur eins og hver annar sjúkdómur. Það er alltaf óljóst hvort kom á undan, hænan eða eggið, og að sama skapi er aldrei ljóst hvort kom á undan alkoholisminn, fíknin eða geðsjúkdómurinn, misnotkunin í æsku, ofbeldið á heimilinu eða eitthvað annað. Og stundum ekkert af þessu. Það er ekki okkar að dæma. Við erum búin að skilgreina þessa hluti í okkar heilbrigðiskerfi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er búin að skilgreina þá líka, svo samkvæmt skilgreiningu eigum við ÖLL jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og jafnan aðgang að því að lifa okkar lífi með eins mikilli reisn og við getum. Og við getum örugglega öll verið sammála um það, að það felst ekki mikil reisn í því að sofa ofan á hitarist fyrir framan Landsbankann í Austurstræti og sníkja hundraðkalla af vegfarendum. Þú myndir örugglega óska bróður þínum betra hlutskipti í lífinu, hvernig svo sem hann hafi áður spilað úr sínum spilum. Mögulega spilaði hann illa vegna þess að hans hugur gat ekki betur, hans andlegi styrkur var ekki meiri, hans bakland var ekki styðjandi, hans félagslega færni var léleg, e.t.v. flosnaði hann upp frá námi vegna lesblindu eða hans sjálfsmynd var brotin niður á æskuárum. Hver veit? Og hver á að dæma? Okkur ber einfaldlega skylda til þess að huga að þessu fólki á sama hátt og við hugum að öllum öðrum sjúklingum.

Það sorglega er ........ og nú leyfi ég mér að segja m.a. eftirfarandi vegna þess að umtalaður Sigurður Grettir úr Íslandi í dag, er sjálfur búinn að opinbera sína lífssögu fyrir okkur alþjóð.... að ég "þekki" þennan mann frá því að ég vann á Vogi. Þennan mann og marga fleiri útigangsmenn Reykjavíkur. Þegar ég vann á Vogi sá ég þessa menn oft fyrst í miklum fráhvörfum, delerium og krömpum, maður hugsaði um þá og hjúkraði þeim á meðan þeir voru sem veikastir en svo þegar þeir urðu brattari eyddi maður stundum hálfu nóttunum á spjalli við marga þeirra. Og þar kemur að því sorglega, vegna þess að margir þeirra eru fjallmyndarlegir þegar runnið er af þeim og þeir orðnir hreinir og fínir, oft mjög gáfaðir og vel hugsandi menn. Þetta eru oft á tíðum menn sem hafa afburðargreind, eru vel lesnir og stundum vel menntaðir líka, vel inni í ýmsum stjórnmálaefnum, hafa vel rökstuddar skoðanir á hinum ýmsum málefnum, eins og t.d. virkjunum, umhverfisvernd, heilbrigðismálum og örorkulífeyri og svona mætti lengi telja áfram. Flestir þeirra lifa á örorkubótum og eru alls ekki að sækja sér meiri þjónustu í heilbrigðiskerfinu en aðrir. Þeir leita á bráðamóttökur spítalanna þegar þeir hafa ástæðu til, á meðan margt annað fólk þjóðarinnar er að koma vegna smávægilegra hluta, sem vel mættu bíða heimilislæknis og heilsugæslu. Þessir menn eiga yfirleitt engan heimilislækni og vegna þess að þeir eru "óstaðsettir í hús" þá eiga þeir ekki einu sinni vísan aðgang að ákveðinni heilsugæslu.

Almenningi á Íslandi hættir mikið til þess að líta niður á þetta fólk, setja alla alkoholista á sama bás og svo troða eiturlyfjaneytendum á básinn líka, þar sem þeir eiga alls ekki heima saman þessir tveir neysluhópar. Við lítum niður á þetta fólk, viljum helst ekki vita af þeim og horfum annaðhvort í hina áttina eða með fyrirlitningu á þau þegar við göngum fram hjá þeim, sem við flest gerum einhverntímann.

Þetta fólk er ekki að fara fram á mikið, aðeins þak yfir höfuðið og kannski aðstöðu til að þrífa sig og fötin sín..... og það er í þannig aðstöðu, að þeim er alveg sama þótt þau þurfi að deila þakinu og aðstöðunni með mörgum. Bara að þau þurfi ekki að liggja úti. Mjög margt af þessu fólki er líka á því sem kallast líknandi meðferð, þ.e. að þeim verður varla bjargað úr fíkn sinni eða þeirra sjúkdómur verður ekki læknaður, en þau eiga samt rétt á að lifa með, þó það sé ekki nema pínulítilli, reisn. Og það er skylda okkar að hjálpa þeim með það, alveg eins og við hjálpum öðrum sjúklingahópum sem ekki eiga von til lækningar.

Mér finnst velferðarráð Reykjavíkur ekki vera að standa sig og formaðurinn, Jórunn Frímannsdóttir, finnst mér ekki vera starfi sínu vaxin. Hún er búin að tala um einhver smáhýsi fyrir lítinn hluta þessa fólks í næstum því tvö ár, án þess að það gerist neitt í þessu máli. Jórunn sat fyrir svörum eftir viðtalið við Sigurð Gretti, í Íslandi í dag, þennan dag og hún svaraði nánast engu sem hún var spurgð um. Hún virtist ekki hafa nokkuð vit á því málefni sem fjallað var um. Hún endurtók í sífellu að verið væri að vinna í þessu máli og að hún hefði ekki upplýsingar um þetta og hitt eða hinar og þessar tölur, þótt hún afneitaði engu og fullyrti ekkert, hún gæti bara ekki svarað því að svo stöddu. Ég segi nú bara: Hvernig getur konan verið forstöðumaður ákveðins málaflokks í a.m.k. 18 mánuði án þess að hafa þess konar upplýsingar og/eða vitneskju um málaflokkinn??? Þessi kona er greinilega búin að vera að eyða sínum tíma í annað, eins og reyndar öll borgarstjórnin.... það hefur lítið gerst í öllum málaflokkum......

Sem fyrrum starfsmaður Heilsuverndarstöðvarinnar veit ég að þetta mál er búið að vera í bígerð MJÖG lengi..... hvað er sífellt að tefja? Hvernig væri að borgarstjórn færi að GERA eitthvað og kannski spara yfirlýsingar á móti. Við borgarbúar erum langþreytt á yfirlýsingum og nýjum stefnuyfirlýsingum, nú viljum við smá ACTION......

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Tek undir hvert orð..............góður pistill

Hólmdís Hjartardóttir, 8.9.2008 kl. 04:16

2 identicon

Sæl Lilja.

Þetta er mögnuð grein hjá þér.

 Mikið vildi ég sjá sömu samstöðu hjá þjóðinni  til þess breyta þessum ófarnaðarmálum í mannsæmandi ástand, eins og þegar strákunum okkar var fagnað á dögunum.

Hafðu þökk fyrir þennan greinagóða  pistil.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 05:32

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Góður pistill Lilja. Tek undir hvert einasta orð og finnst hreppsnefndin í Reykjavík hafa verið með allt á hælunum í þessu máli. Dæmigert var þegar þetta velferðarsvið gekk fram hjá SÁÁ sem átti lægsta tilboð í áfangaheimili. Það mál er allt í klúðri ennþá. Held svei mér þá að samkenndin og ábyrgðin sé mun meiri í sveitarfélögum á landsbyggðinni. Í fjöldanum er svo auðvelt að týnast og fjarlægð stjórnenda meiri.

Haraldur Bjarnason, 8.9.2008 kl. 09:40

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef mikla samúð með þessi fólki, auðvitað á Reykjavíkurborg að skaffa þessu ólánsama fólki þak yfir höfuðið.  Ég kannast við margt af þessu heimilislausa fólki og geri því stundum greiða, leyfa því að hringja, fara á klósettið og annað smálegt.  Mér finnast þessi pistill alveg magnaður hjá þér.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.9.2008 kl. 13:44

5 Smámynd: Helga Björg

Lilju í borgarstjórn ;)

Helga Björg, 8.9.2008 kl. 18:43

6 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Takk fyrir þennan pistil!

Guðrún Þorleifs, 8.9.2008 kl. 19:58

7 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Takk fyrir þennan pistil!!!! það veitir víst ekki af.

Átt þú góðan dag vina

Anna Ragna Alexandersdóttir, 9.9.2008 kl. 10:34

8 identicon

Enn einu sinni skammast maður sín fyrir borgina sína. Já Lilja mín ég hlakka til þegar ég get kosið þig til starfa innan borgarstjórnarinnar. Já ég sagði ÞEGAR!

knús og hafðu það gott, Ásta

Ásta K.Svav (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 17:56

9 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Lilja, nýjasta útspilið hjá hreppsnefndarmönnum í Reykjavík var kynnt í fréttum í kvöld.einhver áælun til 2012. Á meðan bíða tilbúin þessi lausu hús sem geta leyst bráðsta vanda. Hve miklum peningum er búið að eyða í ráðgjöf og álitsgerðir ýmissa nefnda er ekki gott að ímynda sér. Ef verkin hefðu verið látin tala hefði fyrir löngu verið búið að leysa brýnasta vanda þess fólks þótt eflaust verði hann aldrei leystur að fullu, en það styttist í vetuinn og ekki víst að hann taki eins mildum höndum á "okkar" fólki og sumarið.

Haraldur Bjarnason, 9.9.2008 kl. 23:43

10 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Haraldur..........við myndum koma húsunum fyrir án nokkurrar nefndar.......annars líst mér vel á Lilju í hreppsnefnd

Hólmdís Hjartardóttir, 10.9.2008 kl. 02:36

11 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk til ykkar allra fyrir að lesa pistilinn minn og kommentera á hann, mér þykir vænt um ykkar orð

Haraldur, manni finnst næstum eins og aldrei gerist neitt í neinum málum borgarinnar fyrr en fókusinn á málefnið er orðinn of óþægilegur fyrir borgarstjórnina, þannig að þeir næstum neyðist til að koma með útspil..... kasta einhverju til okkar borgarbúa.

Hólmdís mín, ég ef ekki mikinn áhuga á því að starfa í "hreppsnefndinni", er mjög ánægð í mínu frábæra starfi eins og er. Hins vegar hefði ég áhuga á því, að fólkið sem er kosið til að vinna fyrir okkur, fólkið sem er á launaskrá hjá mér og öðrum, færi nú að framkvæma þá hluti sem það er svo duglegt að lofa fyrir kosningar. Hvenær er niðurstöðu að vænta um Sundabrautina? Hve mörg ár í viðbót ætlar borgarstjórn að TALA um það mál? Hvað með mislæg gatnamót við Kringlumýra- og Miklubraut? Hvenær verður umferðin um Miklubraut lögð í stokk? Eða hvað voru þau síðast að tala um? Hvenær á að gera skólalóðir barnanna okkar leikhæfar og öruggar fyrir börnin okkar? Hvenær á að gera aðgengi fyrir hjólreiðafólk okkur samboðið? Hvenær á bara yfirhöfuð að fara að VINNA fyrir kaupinu sínu í Ráðhús Reykjavíkur???

Eigið þið öll góðan dag

Lilja G. Bolladóttir, 10.9.2008 kl. 11:40

12 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

SAMMÁLA ÞÉR

Hólmdís Hjartardóttir, 10.9.2008 kl. 11:51

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil.  Það er engu við þetta að bæta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.9.2008 kl. 13:22

14 identicon

Vá, æðislegt að lesa þetta hjá þér Lilja mín. Þetta er svo sannarlega mál sem þarf að tala meira um. Og GERA eitthvað í. Mér þykir einmitt svo miður hvernig litið er á alkahólisma sem einhvern aumingjaskap, þó svo að þetta sé viðurkenndur sjúkdómur. Ég fer oft í göngutúr í miðbænum í hádeginu, rölti t.d. Hverfisgötuna, og í litlum garði við hliðina á Þjóðleikshúsinu eru oftast nokkrir "útigangs"menn sem liggja þar og sofa. Ég hitti líka oft tvo menn sem sitja oftast á bekk á Skólavörðustígnum, og þeir brosa alltaf svo sætt til mín, svo ég brosi auðvitað á móti, og stundum förum við að spjalla, og þá kemur einmitt í ljós að þetta eru góðar sálir, algjörir öðlingar. Æ, maður verður líka enn reiðari þegar maður hugsar um allt þetta bras og vesen sem er búið að vera á þessum ráðamönnum þjóðar okkar. Nógu miklu fé er nú eytt í algjöran óþarfa að mínu, og flestra annara mati.

Haltu áfram að skrifa svona góðar greinar, þú ert að rúlla boltanum af stað, það er ekki spurning!! Knús og kossar frá Gunnu þinni.

Gunna (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 16:15

15 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta er hreint út sagt frábær pistill eins og aðrir hafa nefnt á undan mér.  Takk fyrir mig.  Ég er sammála hverju orði.

Sigrún Jónsdóttir, 10.9.2008 kl. 17:07

16 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

klukk

Hólmdís Hjartardóttir, 11.9.2008 kl. 01:20

17 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

klukk

Hólmdís Hjartardóttir, 11.9.2008 kl. 01:24

18 identicon

Tek undir hvert einasta orð!

Spurning um að þú takir við af Jórunni?Þú mundir fá atkvæðið mitt eins og í öllu:)

Hjördís Halldóra (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 03:10

19 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk Hjördís krús...... og takk Sigrún fyrir þín orð  .....og Jenný og Gunna, takk fyrir að lesa og kommentera.

En Hólmdís, hvað þýðir "klukk"???  Á ég þá að gera eitthvað eða hvað??? ....

Lilja G. Bolladóttir, 12.9.2008 kl. 13:57

20 Smámynd: Sigrún Óskars

Lilja, þetta er frábær pistill og ef hann á ekki heima í Mogganum þá veit ég ekki hvað. Þú kemur með önnur sjónarhorn á málið, sem er bara frábært. Sammála hverju orði .

Sigrún Óskars, 14.9.2008 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband