Alltaf brjálað að gera og mikið gaman ...... eða hvað....?

Sæmilega viðburðarrík helgi að baki..... byrjaði á rólegu kósý kvöldi með syninum á föstudeginum, eða það hljómar allavega mun betur heldur en að hann hafi haft meiri áhuga á að eyða kvöldinu með vinum sínum heldur en mömmu gömlu..... en allavega í huganum var ég búin að frátaka og helga kvöldið þessum unglingi, þótt við höfum í raun lítið gert saman annað en að borða kvöldmatinn og grenja yfir handboltafréttunum..... jæja okey, ég grenjaði en hann hélt karlmennsku sinni.....Crying

Svaf svo hressilega yfir mig á morgunvakt laugadagsins.... aldrei gaman að vera vakin af símanum 20 mínútum seinna en maður ætti með réttu að sitja tilbúinn, hvít/bláklæddur með kaffibolla fyrir framan sig. Ég vaknaði í loftköstum og fór út í loftköstum. Róaðist svo þegar leið á daginn Joyful

Svo var sumarlokapartý lillu systur á laugadagskvöldið, og my man hvað allt var flott hjá henni. Fullt af veitingum, áfengið flaut, margar Pína Có Lödur drukknar og góð tónlist, að ógleymdu frábærlega skemmtilegu fólki í öllum krókum. Bræður mágs míns eru flottir gítarspilarar og héldu þeir uppi stuði á sólpalli þeirra hjúa löngu eftir miðnætti, okkur gestum, og örugglega aðeins minna nágrönnunum, til mikillar gleði...... Sungu allir sem tungu gátu hreyft Hotel California, Stál og hnífur og Space Oddity. (Þeir sem gátu ekki hreyft tunguna á ensku hreyfðu hana í öðru og blautara hljómfalli.... ) Tounge

Unglingurinn var heima með vin sinn til halds og trausts á meðan móðirin djammaði. Pöntuðu þeir félagar pizzu og leigðu DVD-myndir og gátu eiginlega ekki beðið eftir að ég færi út um dyrnar. Unglingnum hafði reyndar boðist að gista á heimili vinarins, en það var ekki nærri eins mikið sport..... þeir voru búnir að setja sig í stellingar löngu áður en ég fór af stað og mér leið eins og ég væri komin í hjónaband eða eitthvað, þegar ég stöðugt var að fá pirraðan "mann" í baðherbergisdyrnar með spurninguna: "Ertu ekki að verða tilbúin???" ..... "Hvenær ferðu?...." Devil

Ekki af því að til stæði leynipartý hjá drengnum og vininum, enda fann ég þá þegar ég kom heim, sofandi hvorn um annan, með fæturna út af svefnsófanum (af því að þeir höfðu greinilega af einhverri ástæðu, sem var mér hulin, valið að sofa þvert yfir sófann í staðinn fyrir langsum.....) og poppskálina ennþá á milli þeirra, reyndar með nokkrum "poppum" hingað og þangað um bæði rúmið og herbergið..... en hva... Wink

Það var SAMT vaknað til úrslitaleiksins en ég viðurkenni alveg að ég sótti mér fleiri aukatíma í svefni þegar leikurinn var búinn. Þaut svo á kvöldvakt kl. 15 og skyldi þar með drenginn aftur eftir einan..... með fyrirmæli um kvöldmatargerð af hæstu sort. Þannig hafði ég tekið fram og stillt upp á réttri hellu einum potti, einni mælikönnu, einum pakka af tómatsúpudufti og einum písk. Í ísskápnum var svo skál með soðnum makkarónum sem drengnum finnst gott að hafa út í súpunni. Nákvæm fyrirmæli um matreiðsluna fylgdu..... greinilega ekki nógu nákvæm þó, því um kvöldið fékk ég upphringingu á Slysó: "Mamma, hvort setur maður vatnið eða duftið fyrst??" og ....."og sjóða, er það þegar það fer að bobbla í pottinum?" .... já, er nema von að krakkin spyrji.... Wink

Annars nokkuð róleg vakt á Slysadeildinni í kvöld, þyrlan lenti einu sinni með slasaða og alltaf nokkur viðbúnaður í kringum það en sem betur fer engin alvarleg meiðsl þar í þetta skiptið.

En shit hvað það er yndislegt að vinna á góðum vinnustað og með góðu fólki. Manni líður alls ekki eins og maður sé að fara í vinnuna, því ég er í rauninni að fara að hitta fullt af súper skemmtilegu samstarfsfólki, fólk sem er virkilega fært á sínu sviði og fólk sem er alls ekki leiðinlegt að eyða átta tíma vakt með. Þetta er næstum eins og að fara með skemmtilegu fólki á kaffihús nema í okkar tilfelli göntumst við á hlaupunum, í pásum og þegar hlé gefst á milli verkefna. Hjá okkur vekja líka sífellt ný atvik tilefni kátínu þar sem áreitið er óendanlegt og eitt einkennir þessa "kaffihúsaferð" starfsfólks slysadeildar og það er að við getum aldrei fundið kaffibollann okkar af því að það er næsta víst að á hverri vakt sé einhver einn með tiltektaræði, sem reglulega hendir öllum bollum sem ekki sitja í hendi einhvers akkúrat þá stundina..... Cool ....nefni að sjálfsögðu engin nöfn...... Wink

Ójá, það er sko mikið dýrmætt að eiga góða vinnufélaga, vinnufélaga sem maður virkilega þarf að stóla á og eiga öfluga samvinnu með á stundum, vinnufélaga sem bakka mann upp ef þarf, sem þú getur talað við á alvarlegri nótunum.... og léttu.... vinnufélaga sem þú getur hlegið með og grínast, vinnufélaga sem þér líður vel með. Það er gulls ígildi. Á slysadeildinni upplifum við margt gott, margt slæmt og margt mjög sorglegt saman, við þurfum að vinna saman skipulega og líka sem einstaklingar, allir verða að skila sínu hlutverki svo hlutirnir gangi fyrir sig og svoleiðis aðstæður verða til þess að þú kynnist innri manni þinna vinnufélaga betur en gengur og gerist á mörgum vinnustöðum. Þú heldur ekkert uppi einhverri stálgrímu þegar þú færð mikið slasað lítið barn á borðið fyrir framan þig, mikið slasaða einstaklinga úr bílslysum eða mann á besta aldri með heilablóðfall...... Við upplifum saman líf og dauða, við vinnum saman í mörgum mjög erfiðum aðstæðum og þurfum virkilega að eiga gott samstarf. Þetta allt gerir það, að við þekkjumst vel, samskipti eru yfirleitt góð, vandamál eru leyst hér og nú og stefnan er sú, að þú eigir aldrei að ganga út frá vinnustaðnum með óleyst mál, leiðindi eða móral í bakpokanum. Auðvitað kemur það stundum fyrir á krítískum mómentum að fólk hnýtir í hvert annað, þú hnýtir í einhvern eða einhver hvæsir á þig, en ég held að við höfum öll skilning á því að þannig er mannlegt eðli, við bregðumst misjafnt við stressaðstæðum, við berum líka misjafna ábyrgð og allt svona er gleymt strax. Við tökum því ekki persónulega. Og allt þetta er einmitt svo frábært við allt starfsfólk slysadeildarinnar, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, starfsmenn sem sjá um að flytja fólk á milli staða og þrífa sóðaskapinn eftir okkur á sárastofum eða í gipsherberginu, sjá um að við höfum alltaf allt til taks sem við þurfum af hjúkrunar- og læknishlutum, ræstingafólkið eða fólkið í móttökunni. Á slysadeildinni eru allir í sama liðinu, hvaða stöðu sem fólk hefur. Ekket okkar er ómissandi og ekkert starf hefur minna gildi en annað. Við erum öll í sama liðinu og það er ákveðin vellíðun og samkennd sem það vekur með fólki, þótt við fáum misjafnlega borgað.....

Ég ætla að tileinka þessa færslu öllu því frábæra fólki sem ég vinn með dagsdaglega á slysadeildinni. Ég hef sjaldan unnið með jafn samstilltum hópi fólks sem aðeins vill gera sitt besta og mér finnst þetta fólk ekki njóta sanngirnis eða sannmælis þegar alltaf er verið að tala um hve langur biðtími er á slysadeildinni. Fólk er alls ekki að gera sér grein fyrir hve umfangsmikil starfsemi þessarar deildar er og hve eitt lítið atvik getur haft mikil áhrif á alla aðra starfsemi og biðtíma.

Takk til ykkar, samstarfsfólk mitt..... mér bara þykir ógeðslega vænt um að eiga ykkur að í dagsins önn Smile

Og p.s. þið kollegar mínir, sem þykist alltaf vera að lesa "mig" hér..... setjið þá inn komment til mín svo ég geti séð að þið voruð hérna...... InLove


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það er algerlega nauðsynlegt að vinna með fólki sem maður getur treyst og talað við. Vinnan er svo stór hluti af lífinu.  Skemmtileg færsla Lilja.

Hólmdís Hjartardóttir, 25.8.2008 kl. 11:57

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG hef oftar en ég hef viljað þurft að eyða löngum tímum á slysó, ætla ekki að telja það upp hér en ég hef komist að því að þar vinnur bara gott fólk. G'oður pistill og takk fyrir að deila þessu með okkur.  Kveðja  Hearts  Hearts

Ásdís Sigurðardóttir, 26.8.2008 kl. 00:32

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  ÆÆ þessi börn, ég hef fengið hringingar í vinnuna vegna súpugerðar líka.  Það er alltaf gott að vinna með góðu fólki sem maður getur treyst á. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.8.2008 kl. 00:41

4 identicon

Jæja Lilja mín, kominn tími til að ég kvitti fyrir mig hér :). Frábærlega flottur og innilegur pistill hjá þér, þú ert bara ÆÐI og svakalega dýrmætur og yndislegur samstarfsfélagi, slysadeildin er heppin að hafa þig í vinnu!

Sjáumst í haust!

Árdís Rut Ámundadóttir (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 07:30

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Dóttir mín vann á tímabili á slysadeild og naut þess mjög, nóg til þess að hún fór í draumanámið og á eflaust eftir að skila sér á slysadeild aftur (við komum reyndar við um daginn, þrír ættliðir, þegar mamma meiddi sig á hendi, en best er að koma ekki sem ,,kúnni"). Tek undir með þér að gott samstarfsfólk er óskaplega dýrmætt, á einmitt tvo yndislega hópa gamals samstarfsfólks sem hittist áfram þótt leiðir sumra skilji.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.8.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Helga Linnet

Ég hef sem betur fer ekki þurft að fara oft á slysadeild um ævina en þegar ég hef þurft að fara hef ég dásamað starfsfólkið sem vill allt fyrir sjúklinginn gera og maður finnur aldrei fyrir pirring á fólkinu.

Það að hafa konu eins og þig sem samstarfsmann, er náttúrulega bara einstakt.  (ég trúi því allavega miðað við þín skrif á netheimum)

Helga Linnet, 26.8.2008 kl. 16:43

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk þið öll fyrir kommentin og hlýleg skrif í garð okkar á Slysadeildinni. Það er allavega á hreinu að við viljum öll það besta og leggjum mikið á okkur til þess að gera sem best.... skipulagið er kannski ekki alltaf í höndum okkar sem stöndum vaktina.....

En sérstakar þakkir til þín, elsku Árdís mín  þú ert líka yndisleg og ég mun sakna þín þangað til þú kemur aftur. Ég er byrjuð að telja dagan þótt þú sért ekki farin ennþá......

Lilja G. Bolladóttir, 27.8.2008 kl. 01:10

8 identicon

Flottur pistill Lilja mín.

Frábært og æðislegt að vinna með þér!:) Alltaf gott að sjá nafnið þitt á töflunni:))) sé þig vonandi fljótlega!

Hjördís Halldóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 05:53

9 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk Hjördís mín, líka alltaf gaman að vinna með þér. Þú ert einn af sólargeislunum mínum á deildinni

Lilja G. Bolladóttir, 27.8.2008 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband