Kjöt sem minnir óþægilega á dýr.... mín fóbía í lífinu.....

Ég elska mat, ekki alveg allan mat en ég er aldrei hrædd við að prófa að smakka áður en ég dæmi. Sem er í rauninni svolítið merkilegt, því sem yngri var ég voðalega mikil kveif, gat ekki borðað neitt sem líktist dýri.

Það tímabil í ævi minni hófst þegar ég var u.þ.b. sex eða sjö ára. Í minni fjölskyldu var það siður að borða lambalæri á sunnudögum. Mamma setti lærið venjulega í ofninn um hádegið og svo sátum við öll saman við borðstofuborðið og borðuðum snemma. Við krakkarnir fengum alltaf mjólk með, sem er mér í fersku minni vegna þess að mjólkin samblönduð fitunni úr kjötinu, myndaði alltaf einkennilega, klígjulega "skán" uppi í gómboganum hjá mér. Samt fannst mér maturinn góður, ég varð bara að reyna að "líta fram hjá" þessarri skán, svona rétt á meðan ég borðaði.

Einhverju sinni sátum við tilbúin við matarborðið, lærið var komið á borðið en mamma var enn að stússast frammi í eldhúsi. Ég var að virða fyrir mér lærið og fannst það einhvernveginn við nána skoðun líkjast dýrslæri óþægilega mikið. Þegar mamma kom fram spurði ég hana því eðlilega: "Mamma, hvað er eiginlega lambalæri??"

Mamma, svolítið forviða: "Hvað meinarðu, hvað er lambalæri. Það er bara lambalæri."

Ég: "Já, en ég meina, þetta er alveg eins og fótur á dýri...."

Mamma: "Já, elskan, þetta er líka l a m b a l æ r i."

Ég leit á hana í dauðans skelfingu, með galopin augun: "Er þetta læri af lambi?!? Af alvöru lambi??"

Restin af fjölskyldunni horfði á mig eins og ég væri vitlaus, sem ég líklega hef verið að einhverju leyti. Ég veit ekki af hverju ég hafði aldrei gert mér grein fyrir þessarri staðreynd fyrr, mér hafði greinilega aldrei fundist það skipta neinu máli hvað ég væri að láta ofan í mig eða að minnsta kosti ekki spáð mikið í það Woundering

Ég borðaði ekki lærið þennan dag, svo mikið ofbauð mér þetta ofbeldi gagnvart lömbunum, og ég gerði það heldur enga sunnudaga í mörg komandi ár upp frá þessu. Þótt forsendurnar fyrir "ekki-að-borða-kjöt" hafi örlítið breyst eftir því sem ég eltist, þá borðaði ég samt aldrei kjöt sem minnti á uppruna sinn alveg þar til ég varð 18 ára. Þá á ég við, að ég gat borðað hakkað kjöt og gúllas, snitsel gat ég borðað bara ef ég sá það ekki áður en mamma velti því upp úr raspi, en kjöt með beinum var af og frá að ég léti inn fyrir mínar varir. Ef það voru sinar í kjötinu sem þurfti að skera frá fyrir matreiðslu, þá var hægt að gleyma því að ég myndi borða það. Nautafillet með öllum sínum vöðvarákum framkölluðu ógleði hjá mér og rautt kjöt var algjörlega TURNOFF fyrir mig...... (og er reyndar enn í dag). Fisk borðaði ég samt alltaf, og slátur alveg þar til ég sá ömmu mína taka slátur, og hún minnti mig á tröllkonu, sitjandi klofvega yfir stórum bala, hrærandi með handleggjum upp að olnbogum í ógeðslegri blöndu af blóði, fitu og einhverjum öðrum viðbjóði. Blóðlyktin lá lengi í nösunum á mér eftir þessa hryllingssjón og enn get ég ekki sett sláturbita upp í mig..... eins og mér fannst það nú gott Blush

Ég var mjög náin móðurbróður mínum og hans fjölskyldu á æskuárum mínum, við vorum svo gott sem nágrannar og ég og frænka mín algjörar samlokur. Oft vorum við næturgestir á heimilum hvor annarrar og þar af leiðandi líka oft í mat hjá hvor annarri. Eitt skiptið sem oftar spurgði frændi minn mig hvort ég vildi borða með þeim. Ég spurgði hvað væri í matinn, og var tilkynnt að það væri svartfugl á boðstólum, svartfugl sem húsbóndinn hafði þar að auki veitt sjálfur. Ég varð svo sjokkeruð að ég hljóp heim til mömmu og tilkynnti henni hálfgrátandi: "Mamma, Jónsi frændi skýtur fugla og svo BORÐA ÞAU FUGLANA!!" Oft hefur verið hlegið að þessum dramatísku viðbrögðum mínum í fjölskyldunni og líður varla eitt fjölskylduboð, sem ekki er minnst á þessa sögu.....Pinch

Í tíu til tólf ár borðaði ég lasagna á aðfangadagskvöld á meðan fjölskyldan gæddi sér á juicy jólamat með öllu tilheyrandi en allt í einu, án nokkurs aðdraganda eða fyrirvara, þá ákvað ég að snúa blaðinu við og fór að borða allt. Þá var ég sem sagt 18 ára og gerði þetta með stæl, fór út að borða með þáverandi kærasta þar sem við fengum fimmrétta máltíð, m.a. reyktan ál, hreindýrakjöt, foi gras og ýmislegt sem mig hefði ekki dreymt um að borða nokkrum dögum áður.

Síðan þá hef ég verið óhrædd við að smakka á öllu, borða carpattio, (sko hrátt!!) Cool af bestu lyst og er ekki hrædd við bein og sinar, þótt ég sé ekki áfjáð í að sjúga merginn úr beinunum eins og ég gerði af áfergju þegar ég var lítil skjáta. Þegar ég bjó í Danmörku var strútabú í hjólafjarlægð frá mér, og þangað sótti ég mér oft strútakjöt. Kengúra, kolkrabbi, ansjósur, kræklingar og nýveiddur silungur vekja ekki hjá mér viðbjóð lengur. Ég er þó ekkert brjáluð í að handfjatla blóðugt hráefnið sjálf með berum höndum og borða það svo, eða draga görnina sjálf úr humrinum áður en ég grilla hann, mér finnst betra að fá þetta matreitt ofan í mig af öðrum án þess að þurfa að horfa á aðferðirnar, en ég læt mig þó hafa ýmislegt. Það má samt með sanni segja að mér finnist meira klígjugjarnt að hafa blóð og innyfli úr dýrum milli fingranna heldur en sams konar hluti úr mannfólkinu..... Woundering

Erlendis er ég ansi sjóuð, að mínu mati. Panta oft eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er, borða það án þess að blikka auga, gretti mig ef mér finnst það bragðvont, en kyngi samt.... líka þó mér finnist það ógirnilegt í útliti, reyni að horfa ekki of mikið á það í þeim tilfellum. Það gekk þó aðeins fram af mér, þegar við mæðginin borðuðum saman eitt kvöldið í Barcelona, og ég ákvað að panta mér Adventure Mixed Seafood...... hafði svo sem alveg borðað fullt af sjávarréttum áður í Barcelona, enda varla annað hægt við Miðjarðarhafið, svo ég taldi mig fullfæra um þetta. Þar til rétturinn kom á borðið.

Hann var svo sem nógu flottur og girnilegur og myndi líta vel út á síðum Gestgjafans, en á mínum "síðum" leit hann bara út eins og ég ætti að borða beint upp úr hafinu. Risarækjur með hala og augu, okey, mér finnst risarækjur góðar en vil helst ekki þurfa að sækja þær sjálf inn í skelina og sérstaklega ekki á meðan þær "glápa" á mig...... Kolkrabba"fætur" með sogskálum á, ég hafði á tilfinningunni að ég hefði getað klístrað þeim innan á bílgluggann, svo huge voru þessar sogskálar. Eitthvað sem líktist hvítfölu slími og hefði alveg eins getað verið sáðrásarútskilnaður..... eru fiskar með sáðrás?? ....eða kannski var þetta donotion frá matreiðslumanninum....?? Dökkrauðir klumpar með fituröndum í, sem God knows what was, (sem ég smakkaði reyndar af einskærru hugrekki og forvitni og var ógeðslegt á bragðið), krabbi í öllu sínu veldi með klípuklærnar....glætan, spætan að ég hafi borðað hann...., hvítar ræmur af "kjöti", sem ég borðaði, æðislegur kræklingur í skel sinni sem ég að sjálfsögðu borðaði með bestu lyst, rauðbrúnn túnfiskur, sem ég reyndar líka veiddi út úr öllu hinu og stakk í munninn og líkaði vel, og svo ýmislegt gutl af hinu og þessu sem leit hrikalega út. Í stuttu máli, þá fór rétturinn af borðinu næstum því ósnertur, þjóninum til mikillar undrunar. Og já, ég skammaðist mín sko fyrir það, en ég gat ekki fyrir mitt litla líf sett sumt af þessu upp í mig. Ég kúgaðist bara við tilhugsunina. Af því að ég er svo meðvirkur persónuleiki, þurfti ég eiginlega hálfvegis að gera mér upp veikindi, svo þjónninn myndi ekki halda að ég væri geðveik, að hafa pantað mér þennan mat fyrir 22 evrur og skila honum svo til ósnertum.... Sick

Syni mínum var svolítið skemmt, þótt ekki hefði hann heldur lyst á að smakka, en hann spurgði mig samt: "Mamma, þú borðar alveg rækjur og risarækjur, hvað er að þessum?"

Ég: "Jóhann, þær eru með haus og hala og AUGU. Útrætt mál."

Hann: "Vá, common....." (þóttist nebbla þarna vera rosa hetja þar til ég bauð honum smakk).

Ég: "Veistu, ég borða líka alveg svínakjöt, en ég vil samt helst ekki taka heilt svín og bíta í það með augunum og öllu....."

Og þannig er ég einhvernveginn á square one..... ég get borðað dýr, bara ef þau minna ekki ALLTOF mikið á dýr.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Eymingi.....

Hólmdís Hjartardóttir, 21.6.2008 kl. 22:02

2 identicon

Mikill óskaplegur skrælingi getur þú verið stelpa

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 22:10

3 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Sjálf!!!  Er farin út að djamma núna

Lilja G. Bolladóttir, 21.6.2008 kl. 22:28

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

skemmtu þér

Hólmdís Hjartardóttir, 21.6.2008 kl. 22:58

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

He he. þú ert alveg frábær,  færslurnar þínar eru svo skemmtilegar.  Sem betur fer er ég ekki svona viðkvæm þegar kemur að mat.  Ég man eftir einu skipti þegar ég var að elda kjúkling að mér fannst hann eins og eitthvað lík, og fékk ég ógeð og gat varla eldað hann.  En ég lét mig hafa það að steikja kjúklinginn og át hann svo með bestu list. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.6.2008 kl. 01:44

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

OOh svo man ég ennþá að þegar ég var 5 ára gömul borðaði ég bara kjöt, engar kartöflur ekkert meðlæti og enga sósu.  Mér fundust lambakótilettur lang besti maturinn þá.    Enn þann dag í dag finnast mér kótilettur og lambahryggur lang besta kjötið.  Svo er ég fegin fyrir þína hönd að þú fékkst endurgreidda slæðuna dýru, en þannig er þjónustan oft í betri búðunum, sem betur fer

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.6.2008 kl. 03:15

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég veit að ég er "skrælingi", eins og Guðmundur segir, og oft klígjar mig við bara sjónina af hlutum..... ótrúlegt að ég geti starfað sem hjúkrunarfræðingur, því mig klígjar sjaldan við sjónina af mannlegum hlutum og pörtum eða útskilnaði, hvaðan sem hann kemur.

Jóna, ég man líka þegar ég var í 5. eða 6. bekk og var í matreiðslu, þá lét kennarinn mig stinga allri höndinni "upp í" eða inn í kjúkling og hreinsa út innvolsin. Enn þann dag í dag get ég ekki keypt heilan kjúkling og grillað, ég get bara keypt kjúkling í pörtum, sem sagt bringurnar sér og leggi sér..... algjör bilun  ....þvílíkan viðbjóð sem þessi matreiðslukennari framkallaði hjá mér og er enn í gildi.....

Lilja G. Bolladóttir, 22.6.2008 kl. 14:54

8 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

...ójú, ég man allavega eftir einu nærtæku dæmi þar sem mig klígjaði smá við sjónina af mannlegum "parti", það var þegar maður einn kom á slysadeildina núna á vordögum með puttann sinn í poka.....  ....læknirinn setti puttann á bakka og einhverra hluta vegna var puttinn að þvælast alls staðar því læknirinn tók hann með sér hvert sem hann fór.... vildi auðvitað ekki týna honum, en svo var puttinn allt í einu rétt fyrir framan nefið á mér þegar ég læsti tönnunum í samloku, (var reyndar að borða þar sem ég átti ekki að vera að borða, en svona er það stundum þegar maður kemst ekki í matartímana sína), .....þá kúgaðist ég smá, og bara smá.....

Lilja G. Bolladóttir, 22.6.2008 kl. 14:59

9 identicon

Hefurðu lesið bækurnar:

Klígjugjarni hjúkrunarfræðingurinn, Klígjugjarni hjúkrunarfræðingurinn snýr aftur - (frá Barcelóna) og Klígjugjarni hjúkrunarfræðingurinn borðar sáðrásarslímsrækjusamloku í vinnunni ? Nei líklega ekki - en þú ættir að drífa í því að byrja að skrifa þær - svona seríu.

Hugmyndin er ókeypis

Aftur út í sólina

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 16:01

10 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Lilja. Þessir sjávarréttir hafa örugglega verið algjör snilld.....þú ert skræfa að skófla þessu ekki í þig, jafnvel þótt rækjurnar horfðu á þig!!

Haraldur Bjarnason, 22.6.2008 kl. 21:23

11 Smámynd: Sigrún Óskars

Á mínu heimili eru ekki borðuð svið, því þau horfa á mann. Ég skil þig alveg.

Sigrún Óskars, 22.6.2008 kl. 22:40

12 Smámynd: Sigrún Óskars

Gleymdi að spyrja um slæðumálið - hvernig endaði það?

Sigrún Óskars, 22.6.2008 kl. 22:51

13 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Skil þig vel.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 23.6.2008 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband