Hlutirnir gætu verið verri, þökkum fyrir það sem við höfum......

Eitthvað er andleysið að hrjá mig þessa dagana, fréttirnar sem dynja á manni og umræðurnar á vinnustöðum ýta einhvernveginn ekki á það að maður sæki sér fleiri upplýsingar um efnið á bloggsíðunum. Bið ég ykkur að afsaka innlitsleysi mitt á ykkar síðu, mínir kæru bloggvinir, ég veit vel að þið eruð ekki öll að skrifa um ömurlegt efnahagsástandið, en einhvernveginn hefur hugurinn staðið til annarra hluta. Ekkert endilega betri, en þó.....

.....hafði ég í næturgistingu þrjá unga systursyni aðfaranótt laugadagsins og var það eiginlega bara veruleg upplyfting í hversdagsleikanum. Ekki séns að maður væri aðgerðarlaus í fimm mínútur í einu allt kvöldið, alltaf einhver sem hellti niður, þurfti að kúka, þurfti hreina bleyju, vildi teikna eða klemmdi putta og fór að gráta. Einhver sem var þyrstur og annar sem vildi horfa á Skoppu og Skrítlu..... ég var eiginlega mest undrandi á því, að mér skyldi takast að matreiða næstum því ekta jólaskinku með öllu tilheyrandi og takast að láta liðið borða, af uppdúkuðu borðstofuborðinu fyrir miðnætti. Og meira að segja töluvert fyrir miðnætti. Mikið voru þeir nú samt allir sætir þegar þeir voru sofnaðir..... eins yndislegir og þeir nú samt eru vakandi ...

..... Ég er annáluð B-manneskja, get auðveldlega vakað til fjögur á nóttunni við að gera nákvæmlega ekkert, og svo á móti sofið langt fram yfir hádegi daginn eftir. Þannig er sólarhringsklukkan mín. Það gerir ekkert til þótt síminn veki mig einu sinni eða tvisvar á morgnana, eða ég vakni til að koma syninum í skólann, ég get alltaf sofnað aftur djúpum, dreymandi svefni þar sem ekkert raskar ró minni. Þess vegna fannst mér það töluvert afrek að vera komin á fætur með tveimur af litlu frændunum kl. 8:12 á laugadagsmorguninn...... Ekki barasta á fætur, heldur búin að gefa morgunmat, ganga frá, þurrka upp af gólfinu nokkrum sinnum, skipta á bleyjum og klæða í föt..... finna til teiknidót og svo taka það saman, setja Alfin og íkornann, eða hvað hann nú heitir, í DVD tækið...... OG baka vöfflur fyrir kl. 10 þennan sama morgun!! Fékk reyndar hjálp við að þeyta rjómann en að öðru leyti gerði ég þetta allt hjálparlaust.... hafði meira að segja þrek til að fara í smá stund út á róló eftir hádegið..... En guð minn góður, hvað ég tek hattinn ofan fyrir systur minni, og auðvitað öllum öðrum í hennar sporum, að standa í þessu daglangt.... alla daga. Ég þyrfti heldur betur að eiga gott hleðslubatterí ef ég ætti að gera öll þessi verk alla daga ársins, auk þess að rækta sjálfa mig og vini, að ég tali nú ekki um ef maður er útivinnandi. Ég gat ekki einu sinni talað í símann á föstudagskvöldið, svo upptekin fannst mér ég vera. Og ég sem annars er vön að gera ALLA hluti með símann á öxlinni..... líklega þess vegna sem ég er svona skökk í dag, en.....

Horfði á Silfur Egils í hádeginu í dag og nenni nú eiginlega ekkert að úttala mig um það sérstaklega. Nema, þarna var tilkallaður gamall skólabróðir minn úr Verzló, held ég alveg örugglega, maður að nafni Úlfar Erlingsson, (örugglega ekki margir með því nafni og útlitið passaði nokkuð vel), og sá hafði nú margt gott til málanna að leggja, fannst mér. Ekki stjórnmálamaður og ekki involveraður í stjórnmálahreyfinguna, heldur bara ágætlega menntaður og hugsandi maður, sem ef til vill var svolítill talsmaður "okkar" þarna. Hann fær prik frá mér.....

Aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar stóð sig líka þokkalega, þótt Egill hafi margsinnis reynt að tala hana í kaf..... og finnst mér reyndar að Egill megi gæta sín svolítið á því svellinu, hann verður að gefa fólki svigrúm til að svara. Einhvernveginn lítur þetta út þannig, að Agli sé svo mikið í mun að koma frá sér sínum skoðunum, að viðmælendur hans séu einungis þarna til skrauts. Að minnsta kosti stundum.

Jón Baldvin Hannibalsson, sem er eins og útdeyjandi risaeðla úr sinni pólitísku kynslóð, fannst mér ekki hafa margt málefnalegt að segja. Reyndar skrifaði hann ágæta grein í Fréttablaðið um daginn, sem margir góðir punktar voru í..... en þar hefur hann líklega haft tækifæri til að hugsa áður en hann skrifaði, öfugt við sjónvarpsviðtal, þar sem hann talaði áður en hann hugsaði, að því er mér virtist. Hann er bara stuck í pólitík níunda áratugarins, allt er Sjálfstæðisflokkurinn á móti hinum, kalda stríðið í algleymingi og í mínum augum virðist hann ekki geta horft lengra út fyrir sjóndeildarhringinn en það. Ég sver það, að mér fannst hann meira að segja einu sinni segja Alþýðuflokkurinn í staðinn fyrir Samfylkingin......

Anyway, life goes on, margir hafa tapað stórfé á hlutabréfaviðskiptum, aðrir ævisparnaði í peningasjóðum og enn aðrir vinnunni.... eða öllu af ofannefndu. Ég ætla ekki, og get ekki einu sinni leyft mér, að kvarta þótt ég hafi sama og ekkert á milli handanna núna. Ég tapaði engu, enda átti ég ekkert. Ég held vinnunni minni, allavega að því að ég best veit. Reyndar tók Landsbankinn af mér hverja einustu krónu sem ég vann mér inn síðasta mánuðinn, vegna þess að yfirdráttarheimild mín féll niður akkúrat 1. okt., og bankinn hefur ekki verið viljugur til að framlengja henni, en hey, eins og bróðir minn sagði; ég tapaði þó ekki peningnum, hann fór bara í það að greiða niður eitt dýrasta lánið sem ég hef á mínum öxlum.

Ég er heppin, alveg ótrúlega heppin því ég á það sem er dýrmætast í þessum heimi, það er góða fjölskyldu og góða heilsu. Ég á yndislega fjölskyldu og yndislega foreldra sem hafa getað hjálpað mér og eru alltaf tilbúin til þess að styðja mig. Ekki búa allir svo vel. Alls ekki. Og nota bene, Landsbankinn tók auðvitað greiðsluþjónustugreiðsluna af mér ÁÐUR en þeir lækkuðu heimildina, þannig að ég er ekki í vanskilum, engum alvarlegum að minnsta kosti.

Ég er hraust og ég er heilbrigð, ég get unnið og ég get gengið, meira að segja hlaupið ef ég þarf þess, ég á heilbrigt barn sem er mikil guðs gæfa. Ég þarf ekki að kaupa læknismeðferð, lyfjameðferð eða verða af vinnudögum vegna langveiks barns, að maður tali ekki um þær sálarkvalir sem því fylgja.

Ég get nákvæmlega ekki kvartað yfir einu eða neinu. Nema kannski meðferð Landsbankans á mér, sem dyggum viðskiptavini til margra ára. En það er önnur saga.

Og sem starfsmaður heilbrigðiskerfisins til margra ára, nánar tiltekið slysadeildarinnar síðasta árið, skal ég segja ykkur, að það er til margt verra en það að tapa peningnum sínum, hlutabréfum eða vinnunni. Vissulega eru það mjög erfið viðfangsefni og geta virst óyfirstíganleg á stundum og ég ætla alls ekki að gera lítið úr þess slags erfiðleikum, en það er ekki það versta sem getur komið fyrir þig í lífinu. Langt frá því. Trúðu mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Lilja Bolla.

Já,stundum snýst lífð á annan veg en það er vant að gera og hvað þá. Jú maður reynir að aðlaga sig breyttum aðstæðum og það er nú ekki öllum gefið,síður en svo. Mér finnst þú átta þig á einu sem margir sinna ekki og það er það að þú þakkar fyrir hvað þú hefur og hvað þú átt. Mættu margir taka þig til fyrirmyndar með þetta og fleira jákvætt hjá þér. Life goes on !

Kærleikskveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 21:25

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.10.2008 kl. 21:26

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

haha...ég gat ekki einu sinni litið í blað þegar mínir skæruliðar voru litlir. Nei ég horfi á fólk sem er lamað upp að hálsi og spyr mig hvað er raunveruleg kreppa?

Hólmdís Hjartardóttir, 19.10.2008 kl. 21:57

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk til ykkar, ...

og Hólmdís, ég veit að við tölum um sama hlutinn þegar við báðar vitum, að það er svo ótal margt annað sem getur riðið manni, liggur manni við að segja því miður ekki að fullu, en hvað veit ég.......

Fólk hefur ekki séð alvöru erfiðleika fyrr en þeir kíkja í hálsmálið hjá þeim í formi alvarlegra veikinda fjölskyldunnar eða þeirra sjálfra..... það eru alvarleg tíðindi. Og ég ítreka samt, að ég er ekki að gera lítið úr því að margt fólk, líka margt fólk sem ég þekki mér nær, hafi tapað ævisparnaðinum...... sem eru vissulega súr og ömurleg tíðindi, en maður verður að muna að maður getur þakkað fyrir ýmislegt. Vonandi fá þeir menn sem komu okkur í þessa stöðu, samt makleg málagjöld.....

Lilja G. Bolladóttir, 19.10.2008 kl. 22:17

5 Smámynd: Húsmóðir

ég held að eina ástæðan fyrir því að ég á enn vini er sú að vinkonur mínar voru langflestar í smábarnastússinu á sama tíma - við skildum hverja aðra þvó svo samskiptin væru strjál.  Það var ekki út af áhugaleysi eða einhverju svoleiðis heldur tímaskorti og EF það urðu til aukamínútur einhvers staðar þar sem ekki þurfti að sinna neinum þá var einfaldlega dásamlegt að geta lesið eina opnu í dagblaði eða drukkið heilan kaffibolla , með heitu kaffi nóta bene !

En þú átt sko skilið klapp á bakið fyrir þetta og átt vonandi mjög þakkláta systur líka

Hamingjan kemur innan frá og ég er ein af þeim sem tek allt of mörgu sem sjálfsögðum hlut og gleymi að vera þakklát fyrir allt það góða sem ég á og get glaðst yfir.   Takk fyrir skemmtilegan pistil.

Húsmóðir, 19.10.2008 kl. 22:20

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 19.10.2008 kl. 23:54

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er þakklát fyrir svo margt í mínu lífi 6 yndislega börn, sem eru öll góð og stillt.  Þrátt fyrir barnafjöldann vann ég alltaf utan heimilisins þó það væru ekki nema 2-3 tímar á dag.  Svo er ég þakklát fyrir góða stórfjölskyldu, sem er alltaf til staðar fyrir mig og börnin mín.  Ég er þakklát fyrir það að búa í eigin íbúð og vera ekki með skammtímaskuldir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.10.2008 kl. 00:26

8 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk aftur, kellurnar mínar

Oh my God, Jóna, skammtímaskuldirnar mínar eru ekkert sem hlaupa frá mér, því miður, og þær skipta mig engu. Ég borga og ef ég get ekki borgað þá borga ég þær með vöxtum næst. Nenni ekki að stressa mig mikið yfir þess háttar enda græðir alltaf sá sem ég skulda mest af öllu, ef greiðslan mín dregst. Þannig er það nú bara......  .... held ég sé örugglega ekki ein um þennan hugsanagang....

Lilja G. Bolladóttir, 20.10.2008 kl. 01:16

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Ég kom einmitt inn á þetta í einu af blogginu mínu um daginn. Verstu stundir fjölskyldunnar hafa verið veikindi og við erum með tvö einstök börn sem hafa háð baráttu lífs og dauða og það á sama hálfa árinu. Veikindi pabba hafa líka sýnt okkur hvað skiptir máli og þegar maðurinn minn lenti í alvarlegu vinnuslysi, lærði ég að ekkert er sjálfsagt, heldur ekki að fá fólkið sitt heim frá vinnu eða skóla.

Maður lifir bara einu sinni og þess vegna er ég hér í viku að knúsa mitt fólk.

Kær kveðja úr Neðra Breiðholtinu

Guðrún Þorleifs, 20.10.2008 kl. 08:18

10 Smámynd: Sævar Einarsson

Ævinlega velkomin aftur sæta mín en ég má til með að smella þessi inn hérna, ég var að pika þetta inn hjá mér í morgun og vonandi er mér það fyrirgefið

Hlutskipting launa bankastjóra skal gerð eins og með sjómenn !

Las það hjá kermit að nú hafi einhver banki þar í landi (Þýskalandi) óskað eftir því að eitt skilyrðanna er að bankastjórar mega ekki fá meira en 75 milljónir í árslaun. En það eru enginn smá laun fyrir að bera ábyrgðina á öllu verð ég að segja. Bankastjórar bera sömu ábyrgð og sem dæmi skipstjórar, þeir eru ábyrgir fyrir afkomunni, ef skipstjóri fiskar vel fá allir vel borgað, bæði hann og hans undirmenn og þá meina ég allir, ef það fiskast illa þá fá þeir minna í sinn hlut og oftar en ekki er skipt um skipstjóra sem fiskar illa, þeir eru látnir taka pokann sinn. Ef bankinn græðir vel fá bankastjórar feita bónusa, kaupréttasamninga og millistjórnendur eitthvað minna, en Lalli húsvörður og Gunna gjaldkeri fá ekki neitt ef það "fiskast" vel hjá bankanum, þetta þarf að skoða betur að mínu mati og hætta að gera svona ofurlaunasamninga við bankastjóra. Svo hefur þetta líka jákvæð áhrif hjá undirmönnum þeirra, ef bankinn "fiskar" vel þá sjá allir í bankanum að þeim verði umbunað svo gulrótaráhrifin virka frá efstu stöðu í neðstu stöður og allir græða.

Sævar Einarsson, 20.10.2008 kl. 08:38

11 identicon

Já sammála þér Lilja eins og svo oft áður. En ég skil líka fólk sem er að horfa á eftir ævisparnaðinum, það hefur upplifað það sem við erum að sigla inní. og eins og ein sagði við mig um daginn "Kreppan er ekki komin við vitum bara að hún er á leiðinni..." og þessi frú hefur sjaldan rangt fyrir sér. En við komumst upp úr þessu það veit ég. Ég hlakka bara til að heyra í fólkinu sem lifði sem hæst og fer allt í einu að upplifa jólin  sem notarleg og falleg... og fleira í þeim dúr. Fólk fer kannski bara að njóta þess betur að vera til. Mig langar eiginlega bara strax að banna sjónvarp á fimmtudögum til dæmis...  ég er komin í svona fíling Þakka fyrir fólkið mitt og heilsuna og vil njóta þess að vera með mínum. knúsen

Ásta (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband