Ekki meiri hagfræði og pólitík fyrir mig.... í bili.....

Þetta er búinn að vera langur og dimmur dagur, eins og Siggi stormur sagði, bæði efnahagslega og veðurfarslega. Þetta var vonandi síðast "svarti mánudagurinn" í mörg, mörg ár.

Ég er úrvinda eftir fréttaflutning síðustu daga, hver holskeflan á eftir annarri, full af neikvæðum og erfiðum orðum, efnahagshugtökum og hagfræðiskilgreiningum. Ég er þreyttari eftir síðustu 10 daga, en ég var eftir fjögurra ára hagfræðikennslu í Verzló..... nei fyrirgefið mér, ég var þar víst í fimm ár..... að minnsta kosti að nafninu til. Þó er ég viss um að forsætisráðherrann og hans samstarfsfólk er miklu, miklu þreyttara en ég...

Höfuðið á mér er orðið eins og skítugur svampur, sem hefur sogað í sig alla neikvæðnina, hrakspárnar, illt umtal um stjórnmálamenn, gjaldþrotatal, prósentutal..... já, í stuttu máli allt sem við systur kölluðum "hagfræði og pólitík" þegar við vorum litlar og pabbi var að lýsa vinnudegi sínum fyrir mömmu okkar. Þegar talið yfirgnæfði Tomma og Jenna í sjónvarpinu áttum við það til að fórna höndum og kalla fram í eldhús: "Er ekki hægt að tala um neitt annað en hagfræði og pólitík á þessu heimili?"

Og það sama segi ég núna. Ég er búin að fá mig fullsadda af þessu öllu saman. Mér er ekki farið að standa á sama, ég þarf bara á meiri jákvæðni að halda núna. Jafnvel þótt Landsbankinn sé ekki ennþá búinn að ákveða hvort hann geti afturkallað lækkunina á yfirdráttarheimildinni minni síðustu mánaðarmót, sem át upp hverja einustu krónu sem ég hafði unnið mér inn síðasta mánuðinn. Já, ég skil að bankinn þurfi á öllu sínu fé að halda þessa dagana, en trúi samt ekki að launin mín skipti þar sköpum. En, jafnvel þótt það..... þá ætla ég að hugsa um jákvæðari hluti og beina orku minni í aðra átt. Ég hef áralanga reynslu í því að vera blönk og hagsýn og gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu, ég finn ekki svo mikið fyrir því að þurfa að herða ólina aðeins fastar en þetta verður meiri umbylting fyrir nýríka fólkið sem bókstaflega þarf að taka stóra u-beygju í sínum lífstíl og gíra sig niður um mörg þrep.

Í jákvæðnis viðleitni minni eldaði ég góðan mat í kvöld, kveikti á fullt af kertum út um alla íbúð og átti notalega kvöldstund með syni mínum þar sem við bæði náðum að horfa á bíómynd af flakkaranum og á ofurlöggurnar í CSI NY. Eftir það tók við sjálfdekur með froðubaði, heima-vaxmeðferð, andlitsmöskum og góðum kremum, táneglurnar voru teknar í gegn, húð skröpuð af héðan og þaðan og nú er ég eins og nýsleginn túskildingur á leið í rúm með tandurhreinum rúmfötum. Og já, ég get sofið langt út á morgun, það eru verðlaunin sem ég fékk í býtti fyrir að eyða allri helginni á næturvöktum á slysadeildinni.

Já, ég er ekki frá því að þessi sjónvarps- og snyrtimeðferð hafi verið töluvert meira uppbyggjandi fyrir mig en að velta mér upp úr efnahagsástandi mínu og þjóðarinnar. Þótt ég hafi tekið einn snöggan blogghring á meðan græni maskinn harðnaði á andlitinu, þá reyndi ég alveg eins og ég gat, að blanda mér ekki í efnahags- og stjórnmálaumræðurnar, og mér tókst það.....næstum því.....

Lilja er allavega búin að kreista svampinn sinn Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Lilja.

Já,nú snúum við umræðuefninu við og tölum  daglangt um jákvæðni,

Galtómar geðdeildir aflögð meðferðarheimili og allar sérhæfðu stofnaninnar sem gerðu ekki neitt nema að búa til vandamál eru horfnar og svo sjáum við fram í tímann þar sem samkennd og samhjálp ræður ríkjum.

Græðgin og hrokinn eru liðin undir lok.

Góðan og blessaðan daginn "Maskina"!

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 05:32

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er á því að þetta sé rétt hjá þér Lilja, við verðum að beina athyglinni að skemmtilegu hlutunum.  Þetta ástand er svo massívt að það getur gert mann veikan.

Knús á þig inn í daginn hægri kjéddlingin þín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.10.2008 kl. 09:33

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það er sannarlega rétt hjá þér að það er fullt af hlutum sem við getum gert til að gera okkur lífið bærilegt......og nú eru Rússar að bjarga okkur.

Hólmdís Hjartardóttir, 7.10.2008 kl. 09:36

4 identicon

Hæhæ, Liljan mín, alltaf að tékka á þér;o)

Gott að heyra að þú takir jákvæðnina og vellíðun á þetta bara. "Æ getum við ekki talað um eitthvað annað en hagfræði og pólitík" er klárlega fyndasta og besta setning sem ég hef lært af þinni fjölskyldu, og svo á hún auðvitað algjörlega við núna. Ég er einmitt að hugsa um að panta mér tíma hjá Nordica spa og nota þessi 2 gjafakort sem ég á þar. Ekki af því að þau eru að renna út, og ekki af því að ég held að fyrirtækið sé að fara á hausinn. Nei, af því ég Á ÞAÐ SKILIÐ!!! 

Stór knús á þig, hittumst vonandi fljótt.

P.s. mundi allt í einu söguna af því þegar systir þín var spurð af því hvað pabbi ykkar gerði og hún svararði mjög ákveðið "Hann er Hafnfirðingur":o) Bara snilld.

Gunna (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 13:56

5 identicon

Já ég er sko í sömu hugleiðingum í kvöld.Maska, Plokka lita bara dekur í gangi. Börnin fengu 2 sögur fyrir háttinn og súkkulaðikex í eftirmat.  Maður skilur ekki ástandið einu sinni. Hvort ég eigi eitthvað veraldlegt eða ekki hef ég ekki hugmynd um. Knúsa bara börnin mín og nýt þess að vera til í augnablikinu.

Eigðu góða daga framundan mín kæra og vonandi fer nú LANDSbankinn að standa sig gagnvart þér og þínum.

Ásta Kristín Svav. (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 21:29

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er bjartsýn og jákvæð svona yfirleitt, en undanfarna daga hef ég haft hnút í maganum, vegna allra fundarhaldanna, yfirlýsinganna, og leyndarinnar sem var slæm.  En núna er mér létt, ég er í góðum málum.  En samt hugsa ég hvað er Glitnir fer á hausinn, sem er frekar líklegt í dag.  Fæ ég inneignirnar mínar, get ég notað debet kortið mitt áfram, hvað með greiðsluþjónustuna sem sér um alla mína reikninga?  En maður vonar það besta og ég veit að allar innistæður eru tryggar, samt hugsar maður margt.  Og þakkar fyrir það að hafa ekki keypt hlutabréf, mínir peningar eru á innlánsreikningum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.10.2008 kl. 01:41

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Var búin að skrifa hér eitthvað ósköp "gáfulegt" fyrir nokkru síðan en sé að það hefur ekki farið inn.  Búin að gleyma hvað það var, enda skipti ég um skoðun á klst. fresti þessa dagana.

Hafðu það gott Lilja mín.

Sigrún Jónsdóttir, 8.10.2008 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband