Oh shit og fuck, og shit og fuck.....

Kreppan er smátt og smátt að murka lífið úr okkur Íslendingum, bæði fjárhagslega og andlega. Niðurdrepandi fréttir fylla dagblöð og fréttatíma, allt hljómar á sama veg; kaupmáttur rýrnar, krónan fellur enn frekar, gengi krónunnar hefuð náð sögulegu lágmarki.....aftur (fréttir af því heyrast reyndar enn oftar og núna oft á sama deginum), von er á gjaldþrotahrinu, ekki bara fyrirtækja heldur líka heimila, vísitalan aldrei verið hærri, krónan aldrei verið lægri..... Ég sver það, að ég er hætt að lesa blöðin frá og með deginum í dag. Skuli það ekki vera nógu niðurdrepandi að kaupmáttur krónanna minna rýrnar og fólk sé að fara á hausinn í kringum mig, er það þá ekki bara sjálfspíningarhvöt að lesa um ekkert annað í dagblöðunum??

Ég vaknaði í dag og opnaði tölvuna á heimabankann minn. Til stóð að ganga frá ýmsum reikningum og millifærslum þeim sem ekki eru inni í greiðsluþjónustunni. Ég fór inn á li.is og þegar ég komst inn á mína einkasíðu blöstu við mér 0 kr. í ráðstöfun á reikningi mínum. Ég er, líkt og aðrir Íslendingar, orðin hálfdofin yfir þessu ástandi okkar, svo mér fannst það eiginlega ekki minnsta undarlegt að ég skyldi ekki eiga krónu í ráðstöfun á mínum reikningi, jafnvel þótt ég hafi unnið eins og skepna síðasta mánuðinn og tekið fullt, fullt af yfirvinnu. Ég er bara dofin. Og í þessum dofinleika mínum brá mér pínulítið, yppti svo öxlum og hugsaði: "Okey, ég á sem sagt ekki krónu. Enga krónu. Bankinn hlýtur að hafa étið allt það sem ég vann mér inn umfram skuldir." Og mér fannst það næstum ekkert skrýtið, ég hugsaði bara sem svo, að nú hlyti Landsbankinn að vera í kröggum og væri búinn að frysta allar inneignir í bankanum. Og við erum nú bara almenningur og höfum ekkert að segja um nein bankamál eða stjórnmál, svo mér fannst það eiginlega ekkert óvænt að ég allt í einu skyldi ekki eiga krónu inni á launareikningi mínum. Hvað veit ég? Og hverju ræð ég? Engu. Nákvæmlega engu. Og þeim er líka öllum skítsama um mig.  Svo ég fór af stað með plan B án þess að hugsa út í óréttlæti heimsins. Hvað get ég gert? What is my plan now?

Ójú, svosem ekki margt að gera ef þú átt ekki einu sinni pening til að komast í vinnuna. Þá verður þú kannski bara að tala við heimilislækninn þinn og lýsa yfir yfirnáttúrlegu þunglyndi og fá útgefið læknisvottorð upp á það, læknisvottorð sem afsakar þig frá vinnu fram að næstu mánaðarmótum. Svo sá ég fyrir mér að ég myndi bara leggjast í kör næsta mánuðinn, sofa eins mikið og ég gæti, svo ég þyrfti sem minnst að borða og reykingunum yrði sjálfhætt, og kannski myndi ég ekki finna svo mikið fyrir því, ef ég héldi mér bara sofandi stóran hluta af sólarhringnum. Ég yrði náttúrulega að skaffa syni mínum eitthvað nesti í skólann, en ég á fullt af hveiti, svo í öllu falli gæti ég bakað nokkur brauð og stóra oststykkið sem ég á í ísskápnum dugir örugglega allavega langleiðina út mánuðinn. Einhverjar kjötpakkningar á ég líka í frystinum, sem og súpuduft í skápnum, svo við reddum okkur alveg með kvöldmat, ef við bara höfum hrísgrjónagraut í matinn einu sinni í viku. Jú, ég fann alveg út, að við gætum lifað af mánuðinn á 0 krónum, bara ef ég þyrfti ekki að fara í vinnu og við myndum lifa á okkar uppsöfnuðu birgðum..... og svo auðvitað ekki leyfa okkur neinn minnsta skapaða hlut, eins og að leigja eina dvd-mynd eða kaupa gos.... enda gætum við það ekki með 0 krónur á reikningnum.

Ég var búin að finna lausn á öllu með 0 krónur á reikningnum, sem mér fannst alveg trúanleg niðurstaða, þótt svo ég hefði unnið fyrir nærri hálfri milljón..... það hvarflaði ekki að mér að eitthvað væri að mínum útreikningum, frekar væri eitthvað stærra í okkar þjóðfélagi og hagkerfi sem ylli þessu. Ekkert kemur manni á óvart þessa dagana. Þegar ég fór að skoða málin betur þá kom í ljós að ástæðan fyrir mínum 0 krónum á reikningnum var YRÚ..... eða yfirdráttarheimild runnin út. Í öllum mínum hamagangi í vinnunni hafði ég ekki tekið eftir bréfi sem ég fékk um það, að yfirdráttarheimild mín myndi detta niður um þessi mánaðarmót og þar af leiðandi ekki verið svo séð að fá henni framlengt. Tæknilegir erfiðleikar, sem sagt. Ekkert sem ekki má laga, vonandi. Ég er enn ekki búin að fá svar, þótt svo ég hafi sent þjónustufulltrúa mínum e-mail um miðjan daginn. En þetta lagast vonandi á morgun. Annars held ég mig við plan B.

Ég náði samt að eyða einhverju út af reikningnum áður en yfirdráttarheimildin datt niður. Unglinginn á heimilinu hafði í lengri tíma dreymt um að kaupa sér ákveðinn sjónvarpsskáp og langaði að breyta sínu barnaherbergi í unglingaherbergi. En þar sem móðir hans hafði tekið sér að láni allt hans lausafé, gat hann ekkert gert, en samningar höfðu náðst um það að hann gæti eignast þennan sjónvarpsskáp núna, um þessi mánaðarmót. Þess vegna fór móðirin í verslunarleiðangur í IKEA, einhverja leiðinlegustu verslun alheimsins, í gær til þess að festa kaup á þessum margumtalaða skáp. Og skápinn fékk hún. Og eyddi meira en hálfum vinnudegi í að skrúfa og setja saman. Verð nú samt að segja IKEA það til hróss, að það vantar aldrei eina einustu skrúfu, að minnsta kosti ekki í húsgagnapakkningarnar þótt starfsfólkið sé misgáfulegt..... Öll göt á öllum spýtum og plötum passa upp á millimeter við það sem á að falla þar að, svo þótt þetta sé heilmikil handavinna og pússluspil, þá gengur samsetningin á húsgögnum þeirra alltaf upp.

Og gerði það líka í þetta skiptið. Strákurinn á núna flottan sjónvarpsskáp, með skúffum með glerframhliðum, sem rúlla á hjólum, (nota bene, ímyndið ykkur vinnuna og skrúfufjöldann við það!!), með háu baki sem hægt er að festa flatskjáinn á, sem hann keypti fyrir fermingarpeningana ....ímyndið ykkur vinnuna við það....!!! Og rísöltið er í dag, haltrandi kellingamamma, sem getur sig varla hrært fyrir harðsperrum eftir að hafa bograð yfir skrúfingum og samsetningu af þessarri mublu í fjóran og hálfan tíma..... og svo auðvitað þessi fíni skápur sem nú prýðir herbergi sonarins og gleður hann ósegjanlega mikið.

Getur maður óskað sér betri mömmu? Sem ofan í kaupið eldaði líka kvöldmat? Án þess að fá krónu fyrir..... en ég fékk þó góðan koss og mikið þakklæti frá unglingnum í gær. En hann var fyrir löngu búinn að gleyma því í dag. Því þá kom út PlayStation3 leikurinn, Fifa 2009, og þá var móðirin minnt á það, að hún ennþá skuldaði drengnum einhvern pening, og drengurinn vildi þennan pening í dag, því hann bara VARÐ að eignast Fifa 2009. Og hvað segir maður þá? Þegar allt er á versta veg og ráðstöfunarreikningurinn stóð á núlli??? Já, einmitt, þá öskraði ég á drenginn..... eins og ástandið væri honum að kenna....... en shit, hvað getur maður þolað mikla pressu á einum sólarhring???


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú átt alla mína samúð, ég hef líka sett saman svona mublu úr Ikea og úr Rúmfatalagernum líka.  Ég er ekki með yfirdráttarheimild svo ég á peninga út þennan mánuð eins og venjulega, nema að verulegar hækkanir verði á matarkörfunni í Bónus, þá gæti orðið þröngt í búi í lok mánaðarins.  Annars er ég góð, ég er svo heppin að ég er búin að eiga þessa íbúð í rúm 17 ár og ég er með gamla góða húsnæðismálalánið sem ég hef borgað af 4 sinnum á ári í rúm 17 ár og það hefur ekki lækkað um eina krónu, við hverja afborgun hækka eftirstöðvarnar   En ég er samt heppin að vera ekki farin á hausinn

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.10.2008 kl. 03:11

2 identicon

Sæl Lilja.

Ég gat alveg séð þig fyrir mér............................að gera sitt besta fyrir son sinn og 0 krónur á skjánum.

Geðheilsan er eiginlega á undan þeirri líkamlegu þegar kemur að því að komast af (survive) ,eins og þú lýsir í þessum annars ágæta pistli þínum.

það er meira en að segja það að komast af þegar hlutirnir eru svona.

Nú er bara að fara á hnén og biðja í einlægni og sjá hvað skeður.

Gangi ykkur sem best. 

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 03:33

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Lilja mín fullur skilningur hér og samúð...og ég finn verulega fyrir þessari kreppu

Hólmdís Hjartardóttir, 3.10.2008 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband