Enn og aftur greiða skattgreiðendur brúsann.....

Það gustar um fjármálamarkaðinn, það má með sanni segja. Eitthvað grunaði mann að væri í aðsigi þegar forsætisráðherra og dýralæknirinn funda tvo daga í röð með Seðlabankastjórum og það um helgi. Það er alveg trúanlegt að ekki sé óalgengt að þessir menn vinni um helgar, en þarna var greinilega um krísufundi að ræða, hvað sem Geir Haarde reyndi að bera af sér í sjónvarpsviðtölum. Maðurinn talar ennþá og æ oftar til íslensku þjóðarinnar, eins og þjóðinni komi nákvæmlega ekkert við, það sem er að gerast í ríkisfjármálum. Hann talar til þjóðarinnar eins og faðir svarar börnum sínum, þegar hann vill ekki segja þeim sannleikann. Hljómar sem sagt mjög ósannfærandi og sem kjósanda og sjónvarpsáhorfanda finnst mér ótrúlegt að hann geti svarað okkur á þann hátt sem hann gerir; "Já, það var rætt um marga hluti á þessum fundi", segir hann um einn fundinn. Svarar sem sagt engu. "Já, menn skulu nú ekki leggja neitt sérstakt í það, þótt við fundum á sunnudegi. Við vinnum oft um helgar..... gott að geta talað saman í næði." Fenguð þið ekki líka gríðarlegar upplýsingar út úr þessu svari? Já, við trúðum því alveg að ekkert sérstakt stæði til, sérstaklega þar sem ráðherrann kom líka fyrr heim frá New York en til stóð.

Annað kom nú á daginn. Það voru engin hugguleg kaffiboð í gangi milli ráðherranna og Seðlabankans. Það má vel vera að það hafi verið nauðsynleg aðgerð, að ríkissjóður legði Glitni til nýtt hlutafé, ekki hef ég vit til þess að dæma um það. En ég hef þó nógu mikið vit á milli eyrnanna til þess að tjá mig um það, að mér finnst það gjörsamlega óafsakandi, að við almenningur og skattborgarar, skulum þurfa að blæða fyrir fjármálafyllerí bankastjórnar Glitnis. Það getur vel verið að aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu óvenju erfiðar um þessar mundir en bankastjórn Glitnis hefur algjörlega upp á eigin spýtur hagað sér eins og aldrei myndi ský draga fyrir sólu. Þeir hafa farið allt of geyst í útrás sína og hagað sínum seglum þannig, að þegar skóinn byrjaði að kreppa höfðu þeir enga burði til þess að takast á við það.

Hinn almenni skattgreiðandi hefur ekki laun upp á 10-12 milljónir á mánuði, hinn almenni skattgreiðandi hefur ekki forgangskauprétt á hlutabréfum á hagstæðum kjörum, hinn almenni skattgreiðandi fer ekki í milljóna króna laxveiði ár hvert með félögum sínum og góðgerðarmönnum..... eða á alla stærri úrslitaleiki enska og spænska boltans. Hinn almenni skattgreiðandi drekkur ekki kampavín með hádegismatnum og borðar kavíar á vinnufundum sínum, hann flýgur heldur ekki með einkaþotum og þyrlum milli funda og atburða..... hinn almenni skattgreiðandi myndi aldrei fá Elton John til að spila í afmælisveislum sínum en nú á hinn almenni skattgreiðandi að borga brúsann fyrir óráðsíu þessarra manna. Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst bara réttast að þessir menn taki skellinn sjálfir. Við erum ekki að tala um neina smámynt, heldur 84 MILLJARÐA KRÓNA, sem ríkissjóður ætlar að leggja Glitni til í hlutafjárframlag. 84 milljarða króna. Á meðan menntakerfið er svelt, Háskólasjúkrahúsið skuldar birgjum sínum tugi milljóna, ekki er hægt að gera mannsæmandi kjarasamninga við ríkisstéttirnar og geðsjúkir gista á götunum. Jahá.....

Eigendur og bankastjórn Glitnis mega skammast sín. Það er ekki nema vika síðan Lárus Welding lýsti því yfir í Silfri Egils að staða bankans væri góð og engin hætta væri á að bankinn yrði þjóðnýttur. Eigendur hlutabréfa í bankanum sem fyrir nokkru áttu t.d. 800.000 kr. í bréfum, eiga nú 100.000 kr. Eftir yfirlýsingar bankastjórans fyrir viku síðan, stóðu þessir hlutabréfaeigendur líklega í þeirri trú, að bréfin þeirra væru örugg en nokkrum dögum seinna eru þeir búnir að stórtapa á sínum viðskiptum. Ekki hef ég trú á því að eigendur Glitnis njóti trausts í fjármálaheiminum eftir þetta. Og í fyrsta skiptið á ævi minni er ég glöð yfir því, að ég hafi aldrei verið nógu rík til að fjárfesta í hlutabréfum. Það virðist allt vera að fara til andskotans.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

ja ég hef litlu að tapa....það er kosturinn við að vera fátækur

Hólmdís Hjartardóttir, 29.9.2008 kl. 21:04

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær pistill hjá þér Lilja mín.  Ég vil samt að það verði gerð úttekt á því hvort Glitnir hefði lifað af með lánafyrirgreiðslu og að ekki hafi þurft að koma til yfirtaka með almannafé.  Eftir fréttir dagsins er eitthvað súrt bragð í munninum á manni, sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Stuttbuxnadrengina í bankageiranum mátti alveg stoppa af og þó fyrr hefði verið, en ég er ekkert viss um að þessi aðgerð verði til þess.

Horfurnar eru þær að mörg fyrirtæki eiga eftir að fara í greiðsluþrot eftir þessa aðgerð svo útlitið er vægast sagt skelfilegt.

Annars er ég með minn hlut í bankanum til sölu......ætli Björgólfur vilji kaupa?  270.000.- myndu fleyta mér aðeins áfram.

Sigrún Jónsdóttir, 30.9.2008 kl. 00:32

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki fékk lítilmagninn að njóta góðærisins, en við borgum samt brúsann eins og alltaf.  Og þessir bankastjórnendur með ofurlaunin og risa bónusana og starfslokasamningana eru lausir allra mála.   ##$%%&&//&%$$$

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.9.2008 kl. 01:06

4 Smámynd: Helga Linnet

Ég vil leika litlu ljóshærðu stúlkuna...og það er ekki af ástæðilausu! Ef maður fer að setja sig of mikið inn í þetta verður maður bara reiður og pirraður. Lætur allt svona fara í taugarnar á sér.

Ég vil ekki vera reið eða pirruð. Ég vil því sem minnst af þessu vita svo lengi sem ÉG þarf ekki að taka upp veskið og borga!

Veit að þetta er ljóskulegt....en ég hef bara ekki þrek í að setja mig inn í þessa vitleysu.  (og langar það ekki en ég fylgist samt með fréttum og fer yfir þetta í huganum )

Helga Linnet, 30.9.2008 kl. 10:50

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þá kemur maður enn og aftur að þeirri staðreynd að það borgar sig aldrei að eiga neitt, nema þá að vera búinn að koma því af landi brott eins og þessir Bubbar hafa sjálfsagt flestir gert nú þegar.  Góður pisti..

Ásdís Sigurðardóttir, 30.9.2008 kl. 15:03

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góð.  Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.9.2008 kl. 15:56

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk fyrir innlit og komment. Held við séum nú flest sammála um þessa aðgerð þótt ræða megi um aðdraganda hennar, kaupverð, tap hluthafa ofl. ofl.

Mér finnst ýmislegt bogið við þennan aðdraganda og held líka að eigendur Glitnis hafi verið of fljótir á sér. Ef Seðlabankinn hefði "aðlagað" sig að ástandinu í landinu í stað þess að við stöðugt höfum þurft að aðlaga okkur að vaxtastefnu Seðlabankans, þá væri krónan ekki eins veik og hún er núna. Það er staðreynd. Ef krónan væri ekki eins veik og hún er núna, þá hefðu Glitnis-menn ekki staðið jafn illa með sínar skuldbindingar og sína lánshæfni. Það er líka staðreynd.

Þetta leynimakk á bak við lokuð tjöld gefur hins vegar svolitla skítalykt frá sér, og af hverju ætli ríkisstjórninni og Seðlabankanum hafi verið svo mikið í mun að klára þessi mál akkúrat núna um helgina, þegar Glitnismenn vildu alveg fá að hugsa málin aðeins. Og tap hluthafa í Glitni er gífurlegt, og þá er ég ekki bara að tala um þessa stóru, heldur líka um okkur venjulega fólkið, sem hefur fjárfest sitt fé í hlutabréfum, (ekki ég reyndar, en margir af mínu sauðahúsi engu að síður, venjulegt fólk sem sé...)

Og Jón Arnar, ég var aldrei að segja að betra hefði verið að Glitnir hefði farið á hausinn. Ég lagði áherslu á það, að þeir hefðu betur gætt að sínum gerðum og óráðsíu meðan allt var "gott" og sérstaklega þar sem komið hefur í ljós að þetta góða var allt út á krít. Og mér finnst ansi súrt, að ég, sem hluteigandi í ríkissjóði, þurfi að blæða fyrir þeirra eyðslu og græðgi síðustu árin. Þeir hefðu vel margir mátt vera mikið, mikið meira hófsamir, kannski stæði þeirra lausafjársstaða öðruvísi núna ef þeir hefðu hamið græðgina. Mér þætti gaman að vita hvort fólki fyndist jafn sjálfsagt að ég legði Visa-reikning minn eftir sumarið fram fyrir ríkissjóð, því ég hefði eytt um efni fram og gæti nú ekkert gert..... ég veit að þessu er ekki "alveg" saman að jafna, en að vissu leyti þó, þar sem Glitnir að vissu leyti stendur svo illa sem hann gerir vegna einkaeyðslu bankastjóranna og eigenda Glitnis. Og það var mitt point.

 Helga: ég leik bara ljóskuleik í einum tilgangi, og þetta er ekki sá.

 Ykkur hinum er ég sammála

Takk fyrir mig....

Lilja G. Bolladóttir, 30.9.2008 kl. 19:55

8 Smámynd: Guðrún Erla Sumarliðadóttir

Mjög góð grein hjá þér Lilja.

Þegar fólk stendur í hlutabréfakaupum skildi maður ætla að það gerði sér grein fyrir því að það eru + og -. Og eiga ekki allir að bera ábyrggð á sínum gjörðum.

Ég hefði verið ósátt við að Seðlabankinn hefði lánað einkafyrirtæki tæpa 100 milljarða.

Höfum við efni á því að taka slíka áhættu.

Hvað bíða margir eftir að fara i hjartaþræðingu ?

Er búið að finna húsnæði fyrir heimilislausa?

Lausn á málum geðsjúkra?

Hvað voru það aftur margir milljarðar sem Ríkið hagnaðist um sl. sólarhr.

Myndi helst vilja að þessi banki verði Ríkisrekin og að þjóðin fái að njóta þegar vel gengur.

Reginmistök að selja ríkisfyrirtæki sem skila hagnaði.

Kv. GErla

Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 30.9.2008 kl. 21:53

9 identicon

Ég hélt ég gæti ekki borgað meira, það eru svo mörg ár síðan ég varð blönk

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 12:19

10 identicon

Hæ hæ.

Flott færsla hjá þér, þú ert greinilega með ákveðnar skoðanir eins og alltaf elskan mín:o) Ertu annars eitthvað búin að tala við bróðir þinn?, LOOOL

Vildi bara láta þig vita að ég er búin að breyta aðgangsleyfinu að blogginu mínu, svo þú þarft að vera signuð inn á msn til að komast þangað. Sem sagt bara msn-vinir mínir komast þar inn.  

Knús frá Gunnsu tunnsu

Gunna (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 12:44

11 Smámynd: Helga Linnet

Já Lilja mín, ég veit að þetta er ekki rétti tíminn eða staðurinn til að vera með ljóskuleiki en þetta er bara orðið svo mikil hringa-vitleysa að ég týndi áttum. Reyndi að finna endana en veistu...þeim mun dýpra sem ég kafaði, þeim mun ruglaðri varð ég!

Mér finnst yndislegt að lesa pistlana þína því þú dregur allt saman á svo góðan og skilmerkilegan hátt að ljóskur eins og ég fá meira út úr því að lesa pistlana en að eltast við skítalyktir hingað og þangað eins og þefvís hundur.

ég dáist að þessari elju sem þú hefur.

Hlakka til að lesa næsta pistil.

Helga Linnet, 1.10.2008 kl. 20:58

12 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Lilja, eins og alltaf áður góðar vangaveltur hjá þér. Held samt að að langrækni Davíðs og allt það sem hann er búinn að reyna gagnvart Jóni Ásgeiri og fjölskyldu hafi ráðið þarna mestu um. Veit að Þorsteinn Már (Mái) segir ekki svona hluti eins og í Kastljósi nema að vera viss á sinu, þekki hann betur en svo. Sá maður er alltaf samkvæmur sjálfum sér. Ég held ég taki undir orð Jóns Ásgeirs (þótt ég þekki hann ekki neitt) Þetta var bankarán og þetta kemur þjóðinni alls ekki til góða. Þarna var sneiptur maður að hefna sín og því miður hefur hann völd til þess, Forseti Íslands getur ekki gripið inn í núna með neitunarvaldi, eins og hann gerði á sínum tíma. Davíð ræður öllu og miklumeiru en réði þegar hann var forsætisráðherra og hann er enn að hefna sín. Fleiri hundruð milljónir runnu í málatilbúnað hans gegn Baugi sem enduðu með  ríkið tapaði því og bara lögfræðingar græddu. Ætli hver og einn þeirra hafi ekki haft eins og 20 árslaun þín og mín út úr því. Þetta eru skepnur, Guðjón, eins og skáldið sagði.

Haraldur Bjarnason, 1.10.2008 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband