Skipulag í óreiðunni.....

Harla lítill tími gefist til að blogga upp á síðkastið. Ég var varla lent frá Köben og búin að pakka og þvo upp úr minni tösku, fyrr en ég þurfti að þvo og pakka ofan í töskuna fyrir einkasoninn, sem fór til Svíþjóðar á stórt fótboltamót, rúmum sólarhring eftir að ég kom inn úr dyrum. Daginn eftir að sonurinn yfirgaf landið skrapp ég í eina nótt í nýjan sumarbústað Mr. K. og pakkaði þar með enn aftur lítilræði í tösku. Þar sem sonurinn var í burtu alla vikuna og gott betur, tók ég smá vinnutörn á meðan og var svo byrjuð að pakka niður í tösku aftur í lok vikunnar. Þá var ferðinni haldið aftur með Mr. K. í sumarbústað hans, þar sem karlpeningurinn í ferðalaginu ætlaði að vera við pallasmíðar en kvenpeningurinn, sem sagt undirrituð, ætlaði að slappa af, lesa, setja myndir inn á tölvuna, vaxa fæturnar og allt hvað eina sem hægt er að gera þegar sjónvarps og internettengingar nýtur ekki við.

Lítið fór nú fyrir pallasmíðunum, fyrst vegna þess að svo gott veður var á laugadeginum að fýsilegra var að eyða honum í sólböð, afslöppun og andlega og líkamlega næringu, og svo vegna þess hve vont veður var næstu tvo dagana Cool Enda eins og vinur minn segir, þá er maður ekki að kaupa sumarbústað til þess að ætla og þurfa að stressa sig yfir hlutunum, og er ég þar hjartanlega sammála honum. Hans sjálfákveðna afslöppun varð svo til þess að lítið fór fyrir tölvumyndvinnslu, vaxmeðferðum og litun og plokkun hjá mér..... enda kom það í ljós, að engan spegilinn var heldur búið að kaupa í bústaðinn, svo ég gat leyft mér að vera illa til höfð alla helgina og degi betur..... eða kannski öllu heldur neyddist ég til þess....Wink

Ég hef nú alloft eytt mörgum dögum samfleytt með Mr. K. bæði hérlendis og erlendis, en verandi þarna með honum þessa daga í nýlegum bústaðnum, þar sem alls konar hluti vantar og mjög margt á eftir að gera, gaf mér nýja sýn á ákveðinn eiginleika/hæfileika þessa manns, eiginleika sem hingað til hefur kannski alls ekki pirrað mig en hefur að minnsta kosti oft undrað mig. Það er hvernig honum tekst alltaf að hafa ótrúlegt skipulag á óreiðunni. Á meðan ég er mjög áráttugjörn, allir hlutir þurfa að eiga sinn stað, ég veit alltaf hvar lyklarnir mínir og síminn eru, hvar ég lagði einhvern hlut frá mér og hvort það er til tannkrem, smjör eða tómatpurré í skápunum mínum, þá einhvernveginn kemst hann mjög fínt í gegnum sinn dag þótt hann viti aldrei hvar neinn hlutur er og þurfi yfirleitt að leita að bíllyklunum áður en hann gengur úr húsi. Honum er alveg sama þótt hann sé búinn að kaupa þrjá pakka af smjörva í búið í þremur verslunarferðum, en gleymi uppþvottaleginum eða lauknum jafnoft og það stressar hann ekki hið minnsta þótt hann viti ekki nákvæmlega hvar rakvélin hans er áður en hann fer að sofa fyrir vinnudag eða þótt það sé drasl á sófaborðinu þegar hann yfirgefur húsið. Samt kemur hann þrisvar sinnum fleiri hlutum í verk yfir daginn heldur en ég, sem alltaf veit hvar allt er og þar sem, að minnsta kosti á yfirborðinu, lítur allt út fyrir að vera í röð og reglu. Kannski vegna þess að ég þarf alltaf að ofurskipuleggja mig, ég eyði ómældum tíma í að útbúa lista yfir það sem ég þarf að gera, það sem vantar, það sem ég ætla að eyða næsta frídegi í og það sem ég ætla að kaupa í stofuna...... en verður því miður oftast minna úr verki og eyði svo aftur tíma í það að uppfæra tossalistana mína. Einhvern veginn færir það mér meiri sálarró að hafa á einu blaði yfirsýn yfir það sem ég þarf og ætla að gera, heldur en actually að GERA hlutina Whistling Líklega vegna þess að ég er á yfirborðinu reglusöm en mjög kaótísk í hausnum og í framkvæmdum, ég æði úr einu í annað, veit aldrei á hverju ég á að byrja og mikla fyrir mér allar stærri framkvæmdir..... og þannig liggja yfirleitt eftir mig fjölmörg ókláruð verkefni á heimilinu, ég er mikill sveimhugi og get gleymt mér í smáatriðunum en hann er algjör andstæða alls þessa. Hann bara gengur að hlutunum og framkvæmir, án þess að vera búinn að ofurhugsa hlutina út í gegn fyrst. Hann er ekkert að stressa sig yfir smáatriðunum og ef eitthvað gleymdist í bænum eða í innkaupunum í dag þá leysir hann það bara á annan hátt í stað þess að fríka yfir því. Það undrar mig hvernig maður getur haft sama hlutinn liggjandi á ákveðnum stað þar sem hann "augljóslega" á ekki heima, í fleiri vikur án þess að færa hann. Það undrar mig hvernig maður getur haft alls kyns hluti allt frá skrúfjárnum til leikfanga liggjandi á stofuborðinu án þess að það hafi áhrif á mann og mann langi til að "laga til", en á sama tíma dáist ég að þessum eiginleika í fari svona fólks, að það þrátt fyrir allt komist klakklaust og algjörlega án þess að tapa ró sinni, í gegnum dagana og ég óska þess oft að ég hefði bara agnarögn af þessum eiginleika í mínu fari Blush

Ég á líka vinkonu sem er svona og þegar við bjuggum á sama tíma í Danmörku hér í "den", þá eyddum við oft nokkrum dögum samfellt á heimilum hvor annarrar með börnin okkar saman. Hún leggur alltaf hluti frá sér bara "þar sem hún stendur", er stöðugt að týna dóti, hún blandaði saman "make-up" dótinu okkar tveggja og innihaldið úr ferðatöskunni hennar lá alltaf á víð og dreif yfir íbúðina mína þegar hún var í heimsókn...... og auðvitað stressaði mig óskaplega mikið fyrir hennar hönd....og mína, ójá ójá. Ég var alltaf hrædd um að hún myndi gleyma einhverju mikilvægu sem dætur hennar áttu, að hún fyndi ekki töskuna sína akkúrat þegar við værum orðnar of seinar að ná lestinni eitthvert eða að hún óvart myndi taka maskarann minn eða uppáhalds augnskuggann minn með sér yfir bæði Stóra- og Litlabeltið þegar hún færi aftur. Samt var hún alltaf pollróleg yfir öllu, hún gat alveg farið að sofa án þess að hún vissi hvar sokkabuxurnar af dóttur hennar væru og hún hristi nesti fram úr erminni á morgnana án þess að vera búin að skipuleggja það kvöldið áður..... á meðan ég hljóp um alla íbúð, fann til föt á strákinn minn fyrir morgundaginn, smurði nesti fyrir morgundaginn, lagaði til í eldhúsinu, setti vatn í vatnskönnuna, gekk frá leikföngum í dótakassa, tékkaði á því þrisvar hvort útidyrahurðin væri læst, sorteraði make-up dótið okkar, lagaði til eftir hana og lagði allt hennar í einn bunka á sófann..... og lagðist svo í rúmið, cirka einum og hálfum tíma á eftir henni, örugglega ekki með meiri sálarró en hún Crying

Svona vinir eru góðir fyrir mig, já eiginlega nauðsynlegir, enda er þarna um að ræða mína tvo bestu vini, og mér þykir alveg óskaplega mikið vænt um þau bæði. Þau bæta mig upp og þótt þau stressi mig pínu stundum með "umgengni" sinni og afstöðu sinni til umgengni, þá líka draga þau mig aðeins niður á jörðina og neyða mig til þess að slaka svolítið á minni afstöðu. Ég meina, heimurinn ferst jú ekkert þó það standi Cheerios skál á eldhúsborðinu þegar maður labbar úr húsi á morgnana, jafnvel ekki þótt það liggi skrúfjárn, golfkúla, svitakrem, smápeningar og geisladiskur þar líka Joyful

Þessi færsla er tileinkuð þessum tveimur bestu vinum mínum, Gullu og Mr. K. Wink

......og nú á mánudegi erum við sonurinn auðvitað bæði komin heim aftur, hvert úr sinni ferðinni, svo ég er enn á ný búin að pakka upp úr töskum og þvo tvær þvottavélar..... mind you, að ég var líka "nýbúin" að pakka niður og upp vegna Barcelonaferðar okkar mæðgina fyrir skemmstu..... já, erfitt líf fyrir skipulagsfrík.....Tounge


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

haha...........geri alltaf tossalista. Vil hafa allt á sínum stað en hefur ekki tekist að kenna dætrunum það.......  







Hólmdís Hjartardóttir, 22.7.2008 kl. 01:42

2 Smámynd: Dísa Dóra

Ég er svona millibilið á milli þín og vina þinna held ég.  Vil gjarna hafa smá skipulag en stressa mig samt ekki ef að hlutirnir eru ekki alveg á sínum stöðum.  Þrátt fyrir þetta þá er það nú samt ég sem yfirleitt man ekki hvar ég setti hlutina og karlinn sem er oft svo utan við sig að setja hluti á ólíklegustu staði (hef fundið hamarinn í nærfataskúffunni minni til dæmis) veit oftar en ekki hvar hlutirnir eru

Dísa Dóra, 22.7.2008 kl. 09:50

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lilja mín, ertu fædd í meyjarmerkinu?

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.7.2008 kl. 09:55

4 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Góð færsla

Humm.... lyklarnir?

Ó, er ég að fara að halda afmæli??? Reddast

Guðrún Þorleifs, 22.7.2008 kl. 10:11

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Haha, Jenný nei, ég er naut en hinsvegar eru þau bæði fædd í meyjarmerkinu....

Ójá, yfirleitt reddast allt, en af því að þú minnist á afmæli Guðrún, þá er það einmitt eitthvað sem ég byrja að gera undirbúningslista fyrir vikuna áður.....

Ég er örugglega svolítið þreytandi í umgengni og yfirleitt síðust út um dyrnar, því ég þarf alltaf aðeins að gera þetta og aðeins að laga þetta og aðeins að tékka á þessu aftur osfrv. Ég er heppin að eiga svona rólega og umburðarlynda vini sem þola mig í kringum sig

Lilja G. Bolladóttir, 22.7.2008 kl. 14:10

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Nú það er eitthvað svo meyjarlegt að vera alltaf flokkandi og raðandi.

Dúa vinkona mín raðar pakkasúpunum eftir stafrófsröð.  What can I say?

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.7.2008 kl. 20:51

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Haha, Jenný, þú getur alltaf komið mér til að hlæja..... ég veit ekki um Dúu, en ég flokka, ekki eftir stafrófsröð heldur annarri sem enginn annar getur fattað heldur...... sem gerir mig ennþá meira óþolandi í sambúð og nábúð.... ekki auðvelt að vera í "nábúi" með mér..... held ég.....

Lilja G. Bolladóttir, 22.7.2008 kl. 21:24

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

hef ekki nokkra trú á að það sé leiðinlegt að vera nálægt þér

Hólmdís Hjartardóttir, 23.7.2008 kl. 02:41

9 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk, Hólmdís mín.....

Lilja G. Bolladóttir, 23.7.2008 kl. 04:01

10 Smámynd: Helga Björg

mér finst þetta geggjuð lýsing :) verð að fá að segja það á við sama vandamál að stríða

Helga Björg, 23.7.2008 kl. 15:21

11 identicon

Liljan mín..gaman að lesa þessa færslu..það rifjuðust upp ótal gamlar minningar frá árunum okkar í DK.  Fyndið að minnast þess hversu ólíkar við erum en samt límdar saman með uhu-lími á þessum árum. Hitti einmitt Line og Mille í gær. Við vorum á ströndinni hér í Malmö og Line ekta dani með fulla tösku af madpakker...þær báðu báðar að heilsa þér. Knús og kram frá gullunni.

Gulla (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband