Með bros á vör og kurteisi í handfarangrinum.....

Spánverjar eru glaðir, sérstaklega núna þegar þeir eru nýbúnir að jafna leikinn við Grikki. En þeir eru samt glaðir, glaðir og vingjarnlegir. Ég hef tekið eftir því. Þeir eru ekki æðandi um göturnar með stress- og fýlusvip eins og Íslendingar, þeir víkja fyrir öðrum, bjóða náunganum sæti áður en þeir setjast sjálfir, brosa til ókunnugra, gefa sénsa, ryðjast EKKI fram fyrir mann í röðum og biðjast afsökunar ef þeir rekast utan í mann. Já þetta heitir víst að vera kurteis og vingjarnlegur og mættu Íslendingar svo sannarlega læra brot af þessum góðu siðum Spánverja…. að mínu mati.

Við mæðginin erum búin að þramma göturnar í Barcelona þverar og endilangar, þeysast um neðanjarðar í neðanjarðarkerfinu og erum bara nokkuð montin með okkur, hve vel okkur hefur gengið að rata. Ég hef verið í Barcelona áður, en einhvernveginn áttaði ég mig ekki eins vel á borginni í það skiptið. Kannski á ég það til að stóla of mikið á ferðafélaga minn þegar ég ferðast með fullorðnum og átta mig því ekki eins á hlutunum eins og þegar ég er ábyrgari aðilinn í ferðinni, en kannski má líka kenna bjórþambi og leigubílatúrum um óáttun mína í fyrri ferð minni til Barcelona....Cool En eftir þessar tvær ferðir mínar hingað er ég ástfangin af bæði borg og búum, og ég er búin að ákveða að búa hérna í einhverja mánuði einhvern tímann…. Ég ætla að fara í spænskunám og vinna fyrir mér við hvað sem er. Mér er alveg sama hvort ég afgreiði á bar eða vinni í miðasölunni í dómkirkjunni. Skiptir ekki máli. Ég er búin að reyna að sannfæra son minn um ágæti þess að búa hérna, en hann segist ekki vilja gera það, nema hann fengi atvinnumannasamning við F.C. Barcelona, þannig að nú þarf bara að toga í nokkra spotta…..

Speaking of…… við fórum að skoða leikvang F.C. Barcelona, Camp Nou, í dag og þvílíkur leikvangur. Hann tekur eitthvað um 100.000 manns í sæti, áhorfendastúkurnar eru margra hæða og efstu hæðirnar eru svo snarbrattar að mig svimaði við að horfa á þær. En djö… gæti ég ímyndað mér, að væri gaman að horfa á leik á þessum leikvangi, og set ég það hér með líka á listann; What to do in the future. Það var bara mögnuð upplifun að sjá þetta með eigin augum. Auk þess fengum við að sjá búningsherbergi liðsins, með spa-potti, nuddbekkjum og kæli með drykkjum og kampavínsfötu….. fyrir góðu dagana. Ég fékk m.a.s. mynd af mér með Ronaldhino og Eto’o, reyndar tölvugerða en mér er alveg sama. Strákurinn fékk að kyssa meistaradeildarbikarinn og fékk mynd af sér með bikarinn í fanginu, svo allir eru glaðir!! Tounge

Annars hef ég tekið eftir ýmsu í Spánarför minni að þessu sinni….. Spænskar mömmur þurrka líka hor úr nebbanum á börnunum sínum, þær draga samt ekki börnin á eftir sér um göturnar heldur leiða þau við hliðina á sér. Spánverjar sópa göturnar með strákústum (!!), gömul, spænsk hjón á bekk að kyssast eru jafnsæt og gömul, íslensk…. nema gömlu, íslensku hjónin myndu aldrei sitja saman á bekk í almenningsgarði og kyssast…. Spánverjum er sama þótt þeir ferðist milli staða eins og síld í tunnu í Metro-inu, þeir brosa samt og nota tímann til að lesa. Á Spáni keyra skvísurnar á mótorhjólum í háhæluðum skóm. Spánverjar glápa ekki á næsta mann og hvíslast á um hann, né snúa þeir sér við í hneykslan, hvort sem þeir mæta tveimur pönkurum, Araba með túrban eða mjög feitri konu í bleikum jogginggalla….. það er kannski helst að þeir snúi sér við á eftir mér, en það er önnur saga…..Wink

Íbúar Barcelona eru vanir mannmergð, þeir eru vanir fjölbreytileika mannkynsins bæði í kynþáttum, líkamsbyggingum og fatasmekk. Þeir kippa sér ekki upp við neitt og undra sig ekki á neinu. Halda bara sínu striki og brosa. Fyrr en við Íslendingar getum tileinkað okkur svona hugsunarhátt getum við ekki kallað Reykjavík heimsborg. Þannig er það nú bara.

Jæja, loksins sól í Barcelona og við ætlum að gleypa hana fyrri partinn á morgun, þannig að Proxima Estacio er….. rúmið fyrir mig. Þetta er ég búin að læra í spænsku, lærði þetta í neðanjarðarlestunum….. lofar góðu, ekki satt?? Smile

P.S. Spánn var að vinna Grikkland 2-1 svo kannski maður skreppi aðeins niður og kíki á stemninguna á götunum fyrst ….. svo í rúmið.... nema maður hitti eitt stykki sætan Spánverja...jú, þá verður það kannski líka rúmið..... nei djók Cool Tounge


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Psst.... ég vona að þið fyrirgefið mér innlitsleysið síðustu daga, internet-tenging er of dýr á hótelum til að hægt sé að liggja inni á bloggsíðum. En ég bæti úr því þegar ég kem heim!

Adios amigos

Lilja G. Bolladóttir, 18.6.2008 kl. 21:15

2 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Kannski kom Pollýanna frá Spáni, aldrei að vita. Við Íslendingar erum svo uppátækjasöm og ég held við höldum öll að við spörum orku með að halda munnvikunum niðri og helst lokuðum við almenning...

Róslín A. Valdemarsdóttir, 18.6.2008 kl. 21:19

3 Smámynd: Óskar

Ég hef það fyrir satt að allmargir íbúar Barcelona eru Katalónar og mjög stoltir af því ,vilja alls ekki kalla sig spánverja.Bara svona smá punktur fyrir væntanlegan íbúa (nýbúa).

Óskar , 18.6.2008 kl. 22:08

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sko,þetta er skemmtileg færsla og fræðandi (ég elska Spán og Spánverja) og ég þakka kærlega fyrir mig.

En..

að því sögðu.

HVER URÐU ÖRLÖG FOKKINGS SLÆÐUNNAR???

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2008 kl. 23:56

5 identicon

Það er góða veðrið sem gerir mannlífið mildara.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 00:07

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtileg lesning. Ég er jafn forvitin og Jenný Anna, hvað með slæðuna dýru?

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.6.2008 kl. 00:35

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

slæðan?

Hólmdís Hjartardóttir, 19.6.2008 kl. 02:12

8 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Slæðan veldur því að Spánverjar snúa sér við á eftir henni

Guðrún Þorleifs, 19.6.2008 kl. 06:05

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gleðilegan 19. júní bloggvinkona

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.6.2008 kl. 13:40

10 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk fyrir kommentin!

Það eru örugglega margar Pollýönnur á Spáni, Róslín.

Óskar, takk fyrir að fræða mig um þetta, ég vissi ekki að Barcelonabúar vildu ekki láta kalla sig Spánverja. Mér líkar jafn vel við þá sem Katalóna.

Sammála, Guðmundur, veðrið hjálpar örugglega mikið til.

Og þið hin, ég er stolt og ánægð af að tilkynna, að það var ekkert vandamál að gera kreditfærslu í Burberry….. ég þurfti ekki einu sinni að fara í ljóskuleik. Svo nú á ég enga Burberry slæðu og er bara skítsama.....

Ólína, takk fyrir og til hamingju með daginn sjálf!!

Lilja G. Bolladóttir, 20.6.2008 kl. 22:37

11 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

http://huxa.blog.is/album/myndir/image/574502/  Lilja þetta er mynd af humarsúpunni minni, hún var æðislega góð og skáldaði ég bara súpuna.  Þ.e.a.s fór ekki eftir uppskrift

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.6.2008 kl. 23:51

12 identicon

Þannig að það er ómögulegt að þekkja þig á Burberry slæðunni ef maður færi að svipast um - og ekki verðurðu í gallajakka merktum Amsterdam.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 01:55

13 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Mikið rétt, Guðmundur, .....gæti þó alveg verið í gallajakka á góðum degi

Lilja G. Bolladóttir, 22.6.2008 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband