Við stöndum í stríði og við viljum skilning og biðjum um stuðning!!

Ég var reyndar búin að hugsa mér að blogga jákvætt í dag, en mundi svo eftir því að við hjúkrunarfræðingar erum í kjarabaráttu, svo ég ákvað að beina augum að því.

Ég er hjúkrunarfræðingur. Ég stundaði háskólanám í fjögur ár, ég skulda 4 milljónir í Lánasjóð Íslenskra Námsmanna, ég hef starfað í átta ár á mörgum mismunandi stöðum og hef mjög fjölbreytta reynslu, ég er góður starfskraftur. Eins og nánast allir hjúkrunarfræðingar sem ég hef unnið með. (Ég held að hinir slæmu sorterist automatiskt út, starfsins vegna og launanna vegna). Ég hef 262.000 kr. á mánuði í grunnlaun. Já, EFTIR mitt fjögurra ára háskólanám og EFTIR mín átta ár í starfi. Þetta eru EKKI launin sem ég byrjaði með. Þau voru mun lægri. Vissulega get ég haft meira upp úr krafsinu, en þá þarf ég líka að hafa fyrir því með ýmsum hætti, og mér dugir ekki full vinna heldur neyðist ég til, og ég undirstrika NEYÐIST til, að taka mér yfirvinnu, sem til allra lukku er nóg til af í okkar starfsgeira. 

Til upplýsinga, þá teljast grunnlaun okkar hjúkrunarfræðinga einfaldlega vera þau laun, sem við myndum vinna okkur inn fyrir 100% dagvinnu, þ.e. vinnu frá 8-16 á hverjum virkum degi vikunnar. Með fríum á helgidögum og almennum frídögum.

Myndir þú, viðskiptafræðingur, hagfræðingur, lyfjafræðingur, verkfræðingur eða annar með sambærilega menntun, sætta þig við þessi grunnlaun eftir átta ára reynslu? Þú myndir ekki einu sinni sætta þig við þetta sem byrjunarlaun, sem nýútskrifaður, en samt ert þú viðskipta- og hagfræðingur með 25% styttra háskólanám en ég, hjúkrunarfræðingurinn. Nýútskrifaður kennari fær 240.000 kr. í mánaðarlaun eftir sitt ÞRIGGJA ára nám, OG hann er í fríi um helgar og á helgidögum, á gott jólafrí og enn betra sumarfrí..... án þess að kjör hans skerðist. Og samt eru kennarar alltaf að kvarta??? 

Gætir þú lifað á þessu eftir skatta? Eftir lífeyrissjóðsgreiðslur og séreignasparnaðsgreiðslur? Eftir afborganir af íbúð? Bílarekstur? Rekstur af börnum og búi með öllu tilheyrandi? Langanir til upplyftingar öðru hverju? Fatakaupa? Alls annars? Gætir þú og myndir þú sætta þig við þessi kjör eftir fjögurra ára háskólanám og tvöfalt fleiri ár í starfi??

Nei, ekki ég heldur. En ójá, ég er svo heppin, að ég get unnið á kvöldin, um nætur, helgar og helgidaga til að bæta mér upp þetta misrétti!! I totally forgot!!

Ég er svo heppin, að ég get farið af stað til vinnu kl. 23 á kvöldin þegar barnið mitt er farið að sofa, maðurinn minn er búinn að hita upp rúmið, og allt er kyrrt og hljótt. Þá get ég farið að vinna, og ég get verið að vinna alla nóttina og komið heim þegar enginn er heima. Ég þarf kannski að setja í þvottavél þá, og jafnvel að taka aðeins til hendinni, en who cares, ég hef jú allan daginn til þess, þótt ég sé búin að vaka yfir sjúkum alla nóttina, ég er jú KONA og get alveg stytt svefntíma minn um einhverja tíma - í annanhvorn endann. Börnin koma hvort sem er heim um tvö leytið, svo það tekur því varla að leggja sig. Ég er líka vön því að vera þreytt og ósofin, enda vinn ég á þrískiptum vöktum.

Ég er líka svo heppin, að oft í viku get ég eytt deginum á snyrtistofu á meðan börnin mín eru í skólanum ... (ef launin myndu leyfa það....), eða ég get eytt deginum í kaffi með vinkonunum, hmm, ef þær væru ekki allar að vinna á meðan ég er í fríi...., ég get svo rétt hitt börnin mín þegar þau koma heim úr skólanum, áður en ég þýt af stað á kvöldvakt. Ég slepp svo við að eyða seinni partinum með börnunum, missi af öllum fótbolta- og handboltaleikjum þeirra, allar keyrslur til og frá lenda á öðrum foreldrum, ég þarf ekki að elda ofan í börnin mín því þau fá bara 1944-rétt úr örbylgjunni á meðan ég er að vinna, ég þarf ekki að hjálpa þeim með heimalærdóminn og hjúkk itt men, ég losna við að koma þeim í rúmið. Kvöld eftir kvöld og stundum mörg kvöld í viku. Vá, þvílíkur léttir.

Þriðju hverja helgi má ég svo dúsa á spítalanum og losna þar með enn undan því að eyða tíma með fjölskyldunni.... í tívolí, á McDonalds, í Húsdýragarðinum, í sunnudagsbíltúr, kaffi hjá ömmu og afa eða einhverju öðru jafn fáránlegu. Enn og aftur er ég ógeðslega heppin að vinna svona vinnu. Þar fyrir utan þarf ég oft að melda afboð í afmælisboð eða partý fjölskyldunnar og/eða vina vegna þess að ég er annaðhvort að vinna eða á að mæta í vinnu í miðju gamni. Hjúkk itt aftur.

Nokkur jól yfir starfsæfina þarf ég ekki að gefa jólagjafir, eða þannig, því ég er jú að vinna, og er það ekki nógu mikil gjöf í sjálfu sér? Frá mér til ykkar allra? 17. júní þarf ég ekki að kaupa neina bréf fána og troðast niðri í bæ, því ég er allra líklegast líka að vinna þá. Og á páskadag, best að koma krökkunum til ömmu og afa, meðan ég er að vinna, þannig losna ég við kostnaðinn af því að kaupa páskaegg. Á annan jóladag þarf ég ekki að vakna klukkan níu til að setja saman nýju jólagjafirnar, því ég var jú að vinna nóttina á undan, og á LÖGBOÐINN svefndag. Mikið djöfull er ég heppin.

Að ég skuli svo heimta aukagreiðslur fyrir öll þessi heppniskvöld, nætur og helgar. Heimta að fá greitt fyrir allt þetta frí frá börnunum mínum og fúlum eiginmanni. Það er bara algjörlega út í hött.... finnst ykkur það ekki? Þvílík frekja í okkur hjúkrunarfræðingum, þessi vinnutími er sko bara bónus fyrir okkur....

Það vilja ALLIR geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Ef maður vinnur á álagstímum, ókristilegum tímum og helgum dögum, þá á maður að sjálfsögðu að fá álagsgreiðslu fyrir það. En maður á ekki að ÞURFA að vinna þessa tíma eins og við hjúkrunarfræðingar þurfum að gera. Það segir sig sjálft, að það er ekki mikil rútína í heimilislífi, hvað þá fastir rammar, þar sem "mamman" vinnur helming vinnu sinnar á þeim tímum sem restin af fjölskyldunni er í fríi. Ímyndið ykkur svo bara einu sinni hvernig þetta er hjá einstæðum foreldrum í þessarri stöðu. Þar fá ekki börnin einu sinni að gista í sínum eigin rúmum þrjá-fjóra daga vikunnar. Og þetta er svokallaður bónus okkar hjúkrunarfræðinga. Haha!!

Ég á skilið að fá meira en 262.000 kr. á mánuði, eftir mitt fjögurra ára háskólanám, eftir mína starfsreynslu, öflunar á þekkingu, nýtingu á reynslu og hæfni, fyrir þá ábyrgð sem ég ber í starfi, fyrir þau líf sem ég ber ábyrgð á á hverjum degi, fyrir það að hugsa oft um líf annarra á jólunum í stað minna nánustu. Ég á skilið að fá mikið meira. Og ef ég vinn á álagstímum, þá á ég að fá það borgað sem ÁLAG OFAN Á grunnlaunin mín. Ég á ekki að þurfa að vinna þessa álagsvinnu til þess að ná endum saman, ég á ekki að þurfa að vinna 40 yfirvinnutíma á mánuði til þess að geta haldið barninu mínu uppi. Ég á einfaldlega rétt á því að geta lifað af mínum mánaðarlaunum, miðuð við dagvinnu. Annað eru mannréttindabrot.

Ég er virkilega ánægð með Félag Íslenskra Hjúkrunarfræðinga í dag. Ég er glöð yfir því, að samninganefnd okkar hafnaði tilboði ríkissáttarsemjara. Nú eigum við að standa saman, sem aldrei fyrr. Við eigum að láta í okkur heyra og við eigum að koma fólki í skilning um það, hve mikilvæg stétt okkar er í þjóðfélaginu. Því allt of margir halda bara að við séum að bera djús til fólks og piss frá því. Það er tími kominn á hugarfarsbreytingu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er ótrúlegt hvað þetta eru lág grunnlaun.  Enginn á að þurfa að sætta sig við svona laun eftir allt námið.  Ég er með miklu lægri laun en þú, enda hef ég enga menntun, ég hef bara mitt gagnfræðapróf.  Samt skrimti ég, enda hef ég áralanga þjálfun í sparsemi

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.5.2008 kl. 02:02

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góð Lilja nú stöndum við saman

Hólmdís Hjartardóttir, 28.5.2008 kl. 03:11

3 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Gangi ykkur vel í ykkar baráttu!!!

Hér er allt í stoppi.
Formaður hjúkrunarfræðinga er ekki til viðræðu um annað en 15% hækkun. Því er ekkert rætt saman. Brátt bætast fleirri hjúkrunarfræðingar í verkfallshópinn. Athyglisvert að fylgjast með hvernig fer, en ég styð hjúkrunarfræðinga 100%.

Guðrún Þorleifs, 28.5.2008 kl. 07:49

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Eins og talað úr mínum munni Lilja. Nú er komið að því að standa saman og krefjast leiðréttinga á launum okkar. Við getum staðið saman við sýndum það skurð- og svæfingarhjúkkur nú í vetur.  

Sigrún Óskars, 28.5.2008 kl. 08:29

5 Smámynd: Guðjón Þór Þórarinsson

242 á mán? ja hérna ég er járnsmiður að mennt og ég er hræddur um að minn atvinnurekandi myndi ekki reyna að bjóða mér þetta, en ég á auðveldara með að biðja um kauphækkun en þú því þið þurfið að ræða við heilann kolkrabba, og fyrst ég er farinn að ræða hann af hverju í andsk gefum við Íslendingar ekki hinum flokkunum séns á að spreyta sig? þeir klúðra þessu varla meira en hinir og kannski myndi ástandið lagast, það vitum við ekki nema að leyfa þeim að spreyta sig ekki satt?

Guðjón Þór Þórarinsson, 28.5.2008 kl. 09:29

6 identicon

Það er lítið samræmi í því hvað hinar ýmsu stéttir "geta" rukkað fyrir sína vinnu.

Ég er með lengra háskólanám (9 ár) að baki en lögfræðingur (með sín fimm ár). Ef ég ætlaði að setja upp svipaðar launakröfur og einn slíkur - eða sem læknir, yrði ekki bara hlegið að mér. Ég yrði lokaður inni! Svo kæmi læknir á ofurlaunum og bæði hjúkrunarfræðing á skítalaunum að sprauta mig niður. Til að fá mig lausan úr prísundinni þyrfti ég að leita til lögfræðings - en þar sem ég hefði ekki efni á því væri það bara sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu sem gæti komið mér aftur heim - þ.e.a.s. lokun deilda  

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 15:48

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk fyrir innlitin, góð orð og stuðning.... er það ekki annars...?

Guðmundur, það eru örugglega til fullt af eldri læknum með góð laun, og sem líka hafa komið ár sinni vel fyrir borð, enda voru læknar "virt" starfstétt í gamla daga. En ég get upplýst þig um, að nýútskrifaður læknir eftir sex ára háskólanám, er ekki með mikið hærri laun en nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur. Sérfræðilæknir á Landspítalanum (kannski með 13-16 ár samtals á bakinu, eða meira...) nær aldrei sömu launum og sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu eða félagsmálaráðuneytinu, sem kannski er bara með sitt venjulega viðskiptafræðinám á bakinu, sem sagt 3 ár. Og ég VEIT þetta þar sem ég veit laun ýmissa starfandi lækna á LSH, og á bróður og föður sem starfa/hafa starfað í ráðuneytispakkanum. Spítalalæknar eru ekki eins vel borgaðir og margir vilja halda og meina. Vissulega geta þeir híft tekjur sínar upp á einkastofum sínum, en það er mjög mismunandi eftir sérgrein. Læknir sem svæfir mikið á einkastofum græðir meira en læknir sem ræðir við og skoðar sjúklinga í hefðbundnu krabbameinseftirliti á sinni einkastofu. Læknir sem stækkar brjóst á einkastofu græðir meira en kvensjúkdómalæknir sem skoðar klof kvenna alla daga, osfrv.

Það er algjörlega þekkt staðreynd að laun lækna hafa lækkað gífurlega mikið í hlutfalli við fjölgun kvenna í stéttinni. Kvenkyns unglæknar eru í dag mun fleiri en karlkynsunglæknar og þá segir það sig sjálft, að launin lækka, eins og þau hafa líka gert. Það sama gerðist með lyfjafræðingana fyrir einhverjum árum. Það þykir ekkert fínt að vera "lyfsali" lengur, eins og í gamla daga. Kennarar voru líka virtir og vel borgaðir fyrr á dögum, en eftir að konur urðu að meirihluta í kennarastéttinni hafa launin hrunið niður og starfið þykir ekkert voða fínt í dag. 

Það er athyglisverð staðreynd, að konur eru mun fleiri í háskólanámi heldur en karlmenn í dag, og hafa verið það undanfarin ár, svo ætli laun fari ekki bara lækkandi á vinnumarkaðinum almennt í framtíðinni í réttu hlutfalli við það. Og líklega má kenna okkur konum um að stórum hluta. Við konur þurfum að læra að krefjast meira og ekki bara alltaf vera þarna til staðar fyrir aðra, og taka það sem sjálfsagðan hlut að við gerum það nánast ókeypis. Við erum greinilega of vanar að þjóna og hugsa um aðra í gegnum tíðina. En samfélaginu má líka fara að lærast, að konur eru ekki ódýrari, verri, minna verðmætari eða sjálfsagðari í þrældóm heldur en karlar og það er löngu tímabært að breyta þessu viðhorfi í þjóðfélaginu - það þarf að eyða þessu kynbundna launamisrétti og það þarf að eyða þessu viðhorfi, að í lagi sé að borga kvennastéttum minna en karlastéttum, þar sem við munum brátt vera meirihluti allra stétta, ef fram fer sem horfir.

Konur eru hættar að halda kjafti!!

Lilja G. Bolladóttir, 28.5.2008 kl. 22:25

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þú ert frábær Lilja....vil þig sem næsta formann

Hólmdís Hjartardóttir, 29.5.2008 kl. 01:15

9 identicon

Þetta er vafalaust allt rétt hjá þér Lilja. Ég VEIT bara eitt - og það er það að ég get ekki leyft mér senda út reikning eins og t.d. sálfræðingur, magalæknir, lögfræðingur, tölvufræðingur eða arkítekt. Og ég sé enga lógík í því, bara akkúrat enga.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 08:32

10 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég er sammála þér, Guðmundur, það er ENGIN

Lilja G. Bolladóttir, 29.5.2008 kl. 22:12

11 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

lógik í þessu, ....... (þarna fór færslan mín á undan af stað á undan mér.....)  Það er líka það sem er pirrandi í þessu öllu saman.

Lilja G. Bolladóttir, 29.5.2008 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband