Gamlir hlutir með sögu og sál....

Suma daga er maður bara fúll á móti og í vondu skapi án þess í raun að hafa ástæðu til þess. Dagurinn í dag var svoleiðis dagur hjá mér. Án nokkurrar ástæðu. Ég mætti í vinnu kl. 8 í morgun og ég var bara ekki í góða grín- og spjallskapinu mínu. Þegar vinnudegi lauk fór það í taugarnar á mér, að það blési köldu og ekki sæist í sólina. Við vorum búin að hugsa okkur að fara upp í Bása og slá golfkúlur, en sú hugmynd kveikti ekki lengur í mér þegar heim var komið. Ég hugsaði með hryllingi til matseldar svo ég var ekki lengi að samþykkja eigin hugmynd um að panta pizzu heim. Meira að segja kötturinn fór í taugarnar á mér, eins og uppáþrengjandi ástmaður, kom mjálmandi á móti mér um leið og ég gekk inn um dyrnar og lagðist svo á bakið og glennti sig fyrir framan mig. Nú skyldi klóra..... hmm, ég ekki alveg í skapinu, sko.... með hausverk eða eitthvað því um líkt....

Og ohh, hefur alltaf verið svona ljótt heima hjá mér? Alltaf þessir sömu sófar (sem þó eru bara þriggja ára....), kattahár á borðstofustólunum (og svo blótaði ég kettinum fyrir að fara úr hárum), ennþá sprungin pera inni á baðherbergi, svo sem bara búin að vera sprungin í 3 vikur án þess að pirra mig að ráði fyrr en núna, en....., skóhillan brotin síðan frændurnir voru í fótboltaleik hérna inni fyrir mörgum mánuðum og af hverju ætli mér finnist svona mikið mál að fara í Ikea og kaupa nýja fokking skólhillu? Ennþá liggur höggbor á gólfinu inni í svefnherberginu mínu og myndastafli stendur (myndarlega) á bak við hurðina í sama herbergi - eins og ég væri nýflutt en er þó búin að búa hér í tvö ár. Einhverra hluta vegna kem ég mér bara ekki að verki í þessum málaflokki. Hvenær ætli ég fari að koma mér að því að koma einhverju skikki á, þó ekki væri nema suma hluti hérna á þessu heimili.

Alltaf sama sjónin sem blasir við manni þegar maður kemur heim. Dö, dö og dö. Alveg sama hvert maður lítur. Ég hafði mest löngun til að henda öllu út og kaupa allt nýtt inn, og fá þar að auki konu til mín, sem myndi taka allt í gegn OG bora í veggina fyrir þessum blessuðu myndum. Pirringurinn yfir ástandi heimilisins og eigin framtaksleysi var alveg að sliga mig hérna seinni partinn.

Til að leggjast ekki algjörlega í kör og volæði setti ég góða músík á og ákvað að taka aðeins til hendinni. Ekki mikið, bara aðeins að þurrka allavega af. Músíkin lyfti mér pínulítið upp og ég fór aðeins mýkri höndum um tuskuna, og hlutina mína, eftir því sem lundin léttist. Og þá gat ég meira að segja farið að sjá ýmislegt sjarmerandi við íbúðina mína og innanstokksmuni. Langflestir hlutirnir mínir eiga sér einhverja sögu, ekki neina merkilega kannski, en sögu engu að síður.

Borðstofuskápana mína keyptu foreldrar mínir sér fyrir þrjátíu árum. Þeir voru rándýrir og eiginlega fyrstu dýru hlutirnir sem þau keyptu sér - mjög fallegir, úr dökkum viði í enskum sveitastíl. Þessir skápar hafa fylgt mér í gegnum alla mína æsku og foreldrum mínum enn lengur, en þegar þau seldu húsið sitt fyrir nokkrum árum, höfðu þau ekki lengur pláss fyrir þessa skápa. Svo mér buðust þeir og þykir mér ótrúlega vænt um þessar mublur.

Einn lampann minn keypti ég mér á blönku námsárum mínum, hann var ef til vill ekki svo dýr, en ég þurfti samt að skera niður í matarinnkaupum í einhvern tíma fyrir okkur mæðgingin á móti lampa-útgjöldunum, en hvað hann veitti mér mikla gleði. Þó ekki sé fyrir annað, þá held ég alltaf upp á þennan lampa, því ég man hve lítið þurfti til að gleðja mann á þeim árum.

Stofuborðið mitt keypti ég líka á námsárum mínum, og hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að koma því heim í hús. Ég fékk lánaðan bíl og litla kerru hjá vini mínum og svo keyrðum ég og vinkona mín ca. 70 km til að sækja borðið. Hún var ekki með bílpróf svo ég keyrði bílinn, en ég kunni hins vegar ekki að bakka bíl með svona kerru aftan í. Úr þeirri athöfn varð stórskemmtileg minning sem alltaf fær mig til að brosa.... endaði reyndar með því að ég þurfti að húkka kerruna af bílnum og draga hana á handafli yfir bílaplanið hjá vörugeymslunni, öðrum viðskiptavinum bæði til hláturs og öryggis.

Einn blómapott held ég sérstaklega upp á. Í honum var blóm sem besti vinur minn gaf mér, þegar ég flutti í fyrstu íbúðina mína eftir að ég sneri heim úr námsmannaútlegðinni í Danmörku. Blómið er reyndar löngu dautt en potturinn stendur áfram, nú með gerviblómi í..... en samt til minningar um góða vináttu.

Inni á gólfi hjá syni mínum stendur grænn kistill, mjög hentugur fyrir ýmislegt smádót sem maður veit ekkert hvað á að gera við. Millilendir yfirleitt allt í kistlinum áður en því er svo hent svona ári seinna. Þennan kistil smíðaði litla systir mín í skólasmíði þegar hún var tíu ára, og ég man alltaf eftir því þegar hún kom dröslandi honum heim, rosalega montin með sig. Enda mátti hún vel vera það. Hvernig kistillinn endaði á mínu heimili, er mér hulin ráðgáta en hér er hann okkur mæðginum til prýðis og góðra nota.

Í herbergi mínu stendur gamalt skrifborð, sem vinkona móðursystur minnar gaf mér þegar ég var átta ára. Á einni skúffunni er ennþá límmiði með Bambi, sem ég hef sett þar..... já fyrir margt löngu, þegar ég var ljóshærð, saklaus og með tíkarspena. Við þetta skrifborð stóð ég löngum stundum þegar ég var smástelpa og hamraði á eldgamla rafmagnsritvél sem mér hafði áskotnast. Það var þegar ég var harðákveðin í því að verða rithöfundur þegar ég yrði stór, og í neðstu skrifborðsskúffunni eru meira að segja ennþá allar þær sögur sem ég framleiddi sem krakki. Aldrei nokkurn tímann mun ég losa mig við þetta skrifborð. Aldrei.

Í eldhúsinu hangir gamaldags kryddskápur, einn af fáum hlutum sem hafa verið boraðir hérna upp (!!). Þessi skápur er í uppáhaldi, hann fékk ég í jólagjöf frá systrum mínum fyrir ca. 10 árum. Þá var ég líka blankur háskólanemi og hafði dáðst að þessum skáp í ákveðnum búðarglugga í Danmörku í marga mánuði, en aldrei tímt að kaupa hann. Hann er svolítið "sumó", þ.e.a.s. hann myndi í raun sóma sér betur í sumarbústað, en ég elska hann, þótt hann sé eiginlega allt of lítill fyrir öll kryddin mín, þá er hann mikil eldhúsprýði..... finnst mér allavega.

Ég á kaffistell, hvítt postulín með bláum blómum. Með því fylgir oggulítil mjólkurkanna og sykurkar, voðalega dúkkulegt, en þetta stell átti langamma mín, sem gekk bara undir nafninu "amma langa" hjá okkur frændsystkinum. Þetta er ekki "nýmóðins", eins og hún hefði orðað það, en mér þykir afar vænt um þetta kaffistell. Bara vegna þess að hún átti það og nú á ég það.

Í eldhúsglugganum mínum stendur gerðarleg, feit en mjög smart olíuflaska með alls kyns kryddum í. Elsta, besta vinkona mín dröslaði þessarri flösku með sér í handfarangri frá Ameríku fyrir nokkrum árum, því hún þekkti hana Lilju sína og vissi að þetta væri einmitt eitthvað sem mig myndi langa í. Sem var mikið rétt hjá henni, en nokkrum vikum seinna sá hún nákvæmlega eins flösku í búð í Kringlunni og fannst þá bara fyndið að hafa haft svona fyrir millilandaflutningunum af einmitt þessarri flösku. En einmitt þess vegna finnst mér vænt um hana! Já, bæði flöskuna og vinkonuna.

Já, sumir hlutir hafa fylgt mér lengi. Í pottaskápnum má finna lítinn skaftpott með dæld í botninum. Dældin er síðan ég var 19 ára og komst þannig í pottinn þegar ég lamdi einn gamlan kærasta og fyrsta sambúðing í hausinn með pottinum, ég held nú ekkert sérstaklega upp á pottinn af þeim sökum, en þetta er mjög góður eggjapottur. Og svo má alltaf brosa að hinu.....

Okey, það eru ekki allir hlutir á mínu heimili keyptir í Mirale, Heima eða Epal, en mér þykir samt ósköp vænt um þá velflesta. Þeir hafa fylgt mér lengi, eiga sér smá sögu, minna á gamla tíma og eru fullkomlega nothæfir. Auk þess sem það eru þessir hlutir sem láta mér líða HEIMA.

Og eftir eina svona yfirferð á heimili mínu, er ég ekki frá því að skapið sé aðeins betra..... aðeins sáttari við guð og menn, sjálfa mig og heimili mittWink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flottur pistill, ekki verra að muna að gleðjast yfir því sem við höfum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.4.2008 kl. 21:17

2 identicon

Frábær lesning. Og hvað ég kannaðist við margar af þessum tilfinningum - oh my God!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 00:08

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

OOOh ég á uppáhaldsmublu sem er gamall tekk skenkur, mamma keypti hann notaðann af Hemma Gumm á sjöunda áratug síðustu aldar.  Ég fékk hann þegar ég byrjaði að búa og hefur hann fylgt mér síðan.  Svo er hinn tekk skenkurinn sem er í stofunni, amma mín gaf mér hann árið 1991 og fékk ég líka borðstofuborð og stóla í stíl við hann.  Stólarnir eru löngu komnir á haugana en borðið og skenkinn þykir mér vænt um   Svo er það sófaborðið mitt sem ég fann í Góða hirðinum á 3.500 krónur fyrir 2 árum gamalt rosalega gott borð með koparplötu sem er með myndum af seglskútum

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.4.2008 kl. 00:09

4 Smámynd: Helga Linnet

Inn á svona heimili elska ég að koma inná. Mér finnst það svo persónulegt. Hinsvegar skil ég ekki fólk sem á heimili eins og klippt út úr Innlit/útlit, allir hlutir úr sama stílnum og ekkert persónulegt umfram sem gæti prýtt heimilið!

Mitt heimili er samansafn af minningum. Þó það sé ekki nýmóðins þá þykir mér afskaplega vænt um heimilið mitt því ég get alltaf rifjað upp minningar við hvern hlutinn á fætur öðrum.

Þannig eiga heimili að vera.  (hitt kalla ég snobb)

Svo finnst mér bara ekkert jafn notalegt og að koma inn á heimili þar sem ríkir hæfileg afstaða á milli hluta...í alvöru. Það er merki um að þar býr fólk. Þegar heimilin eru hálf sterileruð finnst manni bara að maður sé fyrir...eða ef hár dettur af höfði að það gæti gert mikið lýti á óaðfinnanlegu "heimili" !!!!

Helga Linnet, 21.4.2008 kl. 08:54

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Frábær lesning. Heimili eiga að hafa sál. Ef það brennur hjá okkur eru það þessir persónulegu munir sem við söknum mest.

Hólmdís Hjartardóttir, 21.4.2008 kl. 09:04

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skil þig smá, pínupons.  Nei annars, skil þig alveg. Frábær pistill.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 09:18

7 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Takk þið öll, þið voruð líka með í því að "bjarga" deginum fyrir mér

Lilja G. Bolladóttir, 22.4.2008 kl. 01:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband