Helgin sem leið svo glatt, svo glatt.......

Jæja, bara ein helgi liðin og samt svo margt búið að gerast.....

Við fengum nýjan heimilismeðlim fyrir helgina, nefninlega fressköttinn hennar Thelmu Ásdísardóttur, sem er eins árs gamall. Hún og sonur hennar komu með hann til okkar á föstudagskvöldið og aumingja greyið hljóp beint undir rúm hjá syni mínum og þaðan yfir í rúmskúffuna hans...... og þar var hann næstu tólf tímana eða svo. Daginn eftir var ég að vinna og sonur minn hringdi í ofboði og sagðist hvergi finna köttinn, en eftir langa leit kom hann í ljós á bak við þvottavélina okkar og þar var hann svo fram á nótt. Daginn eftir, sem sagt í gær, upphófst sama leitin að kettinum þegar við fórum á fætur. Við sáum að hann hafði komið við í kassanum sínum, en matinn hafði hann ekki snert og ég orðin ansi áhyggjufull yfir því að kötturinn væri að svelta sig í mótmælaskyni við heimilisskiptin. Við fundum dýrið svo uppi á einum borðstofustólnum, búinn að hálfvefja sig í borðdúkinn, og þá hófst smá eltingaleikur þar sem við reyndum að dekstra köttinn til okkar en hann hoppaði á milli stóla, þar til hann sá sér leik á borði og hljóp undir sófa - þar sem hann svo dvaldi allan daginn og langt fram á kvöld. Ég hafði í byrjun ákveðið, að gefa kettinum þann tíma sem hann þyrfti til að venjast nýjum aðstæðum, en lagðist samt reglulega á hnén og sýndi honum athygli og blíðu, og loksins, loksins..... þegar við mæðginin sátum að horfa á danska þáttinn, stakk hann snoppunni undan sófanum og fikraði sig svo varlega undir sófaborðið. Hann var svolítið hvumpinn í byrjun en allt í einu var hann farinn að mala og kurra og nudda sér upp við okkur og svo var hann ekki lengi að færa sig upp á skaftið, og stökk upp á húsmóðurina, sem lá í sófanum og hreinlega gekk yfir mig þarna í sófanum Smile Og nú er sigurinn unninn. Yndislegt malandi dýr sem tók á móti mér þegar ég kom úr vinnu í dag - en reyndar held ég að hann sverji sig svolítið í ætt við sína nýju fjölskyldu, því honum finnst greinilega gott að sofa á daginn og vaka á nóttunni!! Hann var á röltinu um íbúðina langt fram á síðastliðnu nótt og ég heyrði mjálmið í honum alveg til klukkan þrjú Shocking Ætli hann fari ekki að vakna og fara á stjá hvað úr hverju núna......

Á laugadagskvöld höfðum við aðra litla, yndislega karlkynsveru í heimsókn, nefninlega tæplega tveggja ára gamlan systurson minn, sem kom í gistingu. Sá var nú ívið fjörugri en kötturinn en ofboðslega góður og það var alveg æðislegt að hafa hann í heimsókn. Greyið litla kastaði reyndar upp yfir sig allan um miðja nótt, en svo virtist hann hinn hressasti á eftir og a.m.k. alveg nógu hress fyrir lítið páskaegg og rólótúr daginn eftir Smile Hann var svo skíthræddur við köttinn, að bara að sjá glitta í hann á bak við þvottavélina, framkallaði ægilegan grátur, svo kannski var það gott að kötturinn ákvað að halda sig til hlés þennan tíma sem drengurinn var hjá okkur......

Í gær fórum við mæðginin svo í fermingarfata-leiðangur, leiðangur sem heppnaðist vel. Eitt stykki jakkaföt, skyrta og bindi voru keypt og þetta gekk eins vel og hugsast gat. Minn drengur fílaði sig svona vel í fyrstu fötunum sem hann mátaði og ákvað að skella sér á þau, svo þá var málið búið. Ég gat nú ekki varist því að hugsa um, hve stutt það er þar til litli drengurinn minn verður að manni, þegar ég sá hann svona uppáklæddan í jakkaföt með bindi. Nú fer hann bráðum að verða of gamall til að nenna með mömmu í bíó eða keilu Frown og það er svolítið skrýtin tilhugsun.....

Daginn enduðum við í húsi foreldra minna, þar sem pabbi átti afmæli. Við vorum reyndar búin að gleyma að við ætluðum þangað, (eða öllu heldur búin að gleyma að mamma væri búin að hafa fyrir okkur), þegar við vorum í fermingarleiðangrinum í Kringlunni, svo við höfðum fengið okkur ærlega í gogginn á Stjörnutorginu. En ekki gátum við verið ókurteisir gestir foreldra minna, og svo getur maður nú alltaf aðeins á sig bætt, svo við vorum nær afvelta þegar við löbbuðum þaðan út tveimur tímum seinna Sick

Það er nú eiginlega lýsandi fyrir hugsunarhátt margra fermingarbarnanna, að frændi minn einn spurði son minn í gær: "Jæja, Jóhann, og ertu þá að verða tilbúinn fyrir ferminguna?"  "Já", svaraði minn maður.... "nema mig vantar bara skó."  "Uhumm, já, jæja....", svaraði frændinn, "en ég var eiginlega meira að hugsa um hvort þú kynnir kristinfræðin þín og vissir hver tilgangur fermingarinnar er."  Þá var nú minna um svör hjá mínum Shocking


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Til hamingju með nýju kisuna, kisur eru svo miklir gleðigjafar. Ég á bara 4 í augnablikinu, vonandi fæðast kettlingar hérna eftir 8-9 vikur.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.2.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Úff, ég er engin kattamamma, en ákvað samt að gera þetta - mest fyrir son minn sem stundum er einn heima á kvöldin. Hugsa að kötturinn sé svolítill félagsskapur fyrir hann...... ég er meira að segja með ofnæmi, en ákvað að ég myndi ekki hafa ofnæmi fyrir þessum, og veistu..... þetta gengur bara vel  Ekkert táraflóð og engir hnerrar so far........ kannski eldist svona ofnæmi af manni. En það er mjög notalegt að hafa litla veru hérna skríðandi um gólfin

Lilja G. Bolladóttir, 26.2.2008 kl. 00:48

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Til hamingju með kisa litla, hann á örugglega eftir að vera félagsskapur fyrir soninn og líka fyrir þig.

Sigrún Óskars, 26.2.2008 kl. 18:50

4 identicon

Hæhæ. Er ennþá að melta það að þú hafir fengið þér kött, mér finnst nefnilega mjööööög stutt síðan þú varst í heimsókn hjá mínum köttum, þeir rétt sýndu skottið á sér og þú tókst stökkið og öskraðir svo hátt að það mætti örugglega líkja því við gráturinn í Gulla litla:o)))

En batnandi fólki er að sjálfsögðu best að lifa, ég er rosalega ánægð með þig Lilja mín og hlakka núna ennþá meira til að koma næst í heimsókn til þín. Er annars komið nafn á Kisa? Tvær tillögur: Ghandi (hungurverkfallið), Krummi (Nátthrafn), Lóri (as in Lóritín=ekkert ofnæmi, rímar líka við sögnina að klóra). Annars hefur kisan mín í dag það voða gott, gæti ekki án hennar verið. Hún sefur allar nætur við hliðina á mér og sleikir svo á mér nefið á morgnanna þegar ég hef ýtt of oft á snooze-takkann. Yndislegt!!

Verðum í bandi með dekurdaginn okkar, eigum það báðar svo sannarlega skilið:)

Knúsl og kremj..................

Gunna (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband